Í þessari seinni grein um íslenska vindorku er sjónum beint nánar að því af hverju skynsamlegt er að nýta vindinn hér til raforkuframleiðslu. Og reynt að meta hversu mikil vindorka kann að verða virkjuð á Íslandi á komandi árum. Ein sviðsmyndin hljóðar upp á 1.600 MW af vindafli innan tveggja áratuga.
Einnig er hér fjallað um það hver af stóru íslensku orkufyrirtækjunum hafa sýnt vindorkunni áhuga. Þar hefur Landsvirkjun verið í fararbroddi, en HS Orka virðist og vera áhugasöm. Í greininni er svo líka vikið að nýlegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vindvirkjunar Landsvirkjunar í nágrenni Búrfells. Sú niðurstaða gæti reynst þröskuldur fyrir nýtingu á íslenskri vindorku á stórum hluta landsins.
Fyrri grein mín um íslenska vindorku birtist hér á Kjarnanum um miðjan desember á nýliðnu ári. Og sem fyrr skulu lesendur minntir á að greinarhöfundur kemur að undirbúningi vindorkuverkefna hér á landi. Þar er m.a. um að ræða áætlanir um nákvæmar vindmælingar í nágrenni Mosfellsheiðar, með það að markmiði að virkja vindinn á því svæði reynist vindaðstæður þar með þeim hætti sem væntingar eru um.
Samantekt
Vegna þess að greinin er nokkuð löng, eru hér í byrjun teknar saman helstu ályktanir eða niðurstöður:
Góðar veðurfarslegar aðstæður á Íslandi og lækkandi kostnaður í vindorkutækni veldur því að virkjun vindsins er orðinn raunhæfur kostur hér á landi. Þau tímamót kunna að hafa veruleg áhrif á framtíðarþróun raforkuframleiðslu á Íslandi og dregið gæti úr þörf á nýjum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.
Gera má ráð fyrir því að á næstu tíu til tuttugu árum rísi hér a.m.k. um. 300-400 MW af vindafli. Og ennþá meira ef rafstrengur verður lagður milli Íslands og Evrópu.
Samkvæmt nýlegri skýrslu Kviku banka og Pöyry er líklegast að virkjuð vindorka hér muni nema um 550 MW innan tveggja áratuga (ef til sæstrengs kemur). Hæsta sviðsmynd fyrirtækjanna gerir þó ráð fyrir allt að þrefalt meira vindafli. Spá Kviku/Pöyry um uppbyggingarhraða vindafls á Íslandi virðist varfærin fremur en hitt.
Vindurinn á Íslandi gæti með þessu stuðlað að mikilvægri aukningu útflutningstekna. M.ö.o. þá kann nýting á þessari endurnýjanlegu náttúruauðlind, sem hingað til hefur einfaldlega blásið frá okkur, orðið þjóðinni góð tekjulind.
Til að ná fram bæði nauðsynlegri hagkvæmni og sátt um staðsetningu stórra vindmylla, er mikilvægt að vanda mjög staðarval. Miklu skiptir að vindaðstæður séu með besta móti, en einnig þarf að gæta vel að umhverfisáhrifum og þ.m.t. sjónrænum áhrifum. Þannig ætti að mega tryggja að virkjun vinds hafi almennt minni umhverfisáhrif heldur en jarðvarmavirkjanir eða stórar vatnsaflsvirkjanir.
Vegna afstöðu Skipulagsstofnunar er nú óvíst um framkvæmdir Landsvirkjunar við s.k. Búrfellslund, á mörkum hálendisins ofan Búrfells. Ýmsar aðrar staðsetningar kunna þó að vera áhugaverðar fyrir Landsvirkjun til að virkja vind - og jafnvel betri þegar sjónrænu áhrifin eru tekin með í reikninginn.
Það hversu hröð aukning verður í nýtingu vindorku á Íslandi á komandi árum mun mjög ráðast af því hvort sæstrengur verður lagður milli Íslands og Evrópu. Án sæstrengs mun íslensk vindorka þó vafalítið verða eitthvað virkjuð, en þá mun skipta miklu hversu góðan aðgang rekstraraðilar vindvirkjana hafa hér að varaafli.
Samspil vindafls og stýranlegs vatnsafls getur verið hagkvæmt við raforkuframleiðslu. Nýting vatnsafls með miðlunarlónum er umfangsmikil starfsemi á Íslandi og því hentar vel að virkja hér vindinn líka og nýta umrætt samspil.
Vindurinn er auðlind sem orðið er tímabært og skynsamlegt að nýta hér á landi, bæði til verðmætasköpunar og til að draga úr þörf á nýjum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þannig mæla bæði hagkvæmni og hógvær umhverfisáhrif með því að við virkjum vindinn.
Neikvætt álit Skipulagsstofnunar vegna Búrfellslundar
Áður en lengra er haldið verður hér minnst á nýjustu tíðindin af vindorku á Íslandi. Frá því fyrri grein mín um um þetta efni birtist, hefur Skipulagsstofnun kynnt álit sitt vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs vindorkuverkefnis Landsvirkjunar í nágrenni Búrfells (s.k. Búrfellslundur).
Niðurstaða Skipulagsstofnunar gagnvart verkefninu var neikvæð og hlýtur það að valda Landsvirkjun vonbrigðum. Enda var fyrirtækið búið að leggja mikla vinnu og metnað í þetta verkefni og hefur sjálfsagt gert sér vonir um allt aðra og jákvæðari niðurstöðu. Af eldri fréttum af verkefninu má ráða að Landsvirkjun hafi gert ráð fyrir því, að þarna yrði risin stærðar vindvirkjun jafnvel strax haustið 2017. Sem nú er augljóst að mun ekki ganga eftir.
Í stuttu máli þá fann Skipulagsstofnun ýmislegt að verkefninu og telur ástæðu til að það verði endurmetið. Í áliti stofnunarinnar er Landsvirkjun hvött til þess að leita annarrar staðsetningar og/eða huga að smærra verkefni á viðkomandi svæði, en fyrirhugað heildarafl umræddrar vindvirkjunar skv. áætlunum Landsvirkjunar er 200 MW. Ekki er ennþá ljóst hvernig Landsvirkjun mun nákvæmlega bregðast við þessari niðurstöðu Skipulagsstofnunar.
Skipulagsstofnun á varðbergi gagnvart miðhálendinu
Helsta ástæða þess hversu neikvæð eða tortryggin Skipulagsstofnun er gagnvart umræddu vindorkuverkefni Landsvirkjunar þarna í nágrenni Búrfells, er staðsetningin. Þ.e. að mannvirkin, sem myndu verða innan skipulagssvæðis miðhálendisins, falli „illa að áherslum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 á vernd víðerna og landslagsheilda“. Þarna hefur því umrædd Landsskipulagsstefna að því er virðist úrslitaáhrif, en hún var samþykkt á Alþing í mars s.l. í formi þingsályktunar.
Vandfundið jafnvægi milli víðerna miðhálendis og byggðra svæða
Það er reyndar athyglisvert að þarna í nágrenni Búrfellsvirkjunar, þar sem Búrfellslundur átti að rísa, eru nú þegar umfangsmikil mannvirki og þ.m.t. háspennulínur (sem gætu tekið við raforkunni frá vindvirkjun). Þess vegna er virkjun vinds á þessu svæði, að mati þess sem þetta skrifar, umhverfisvænni kostur en það að ætla að reisa nýjar vatnsfalls- eða jarðvarmavirkjanir við náttúruperlur eða á lítt snortnum svæðum.
Í því samhengi má nefna sem dæmi fyrirhugaða Hólmsárvirkjun, Hvalárvirkjun, jarðvarmavirkjanir við Eldvörp og Krýsuvík o.fl. Varla eru þetta fýsilegri virkjunarkostir út frá umhverfisáhrifum, heldur en vindmyllur á mesta virkjanasvæði landsins við Þjórsá.
Það er líka umhugsunarefni hvort t.a.m. áætluð Hvammsvirkjun, með miðlunarlóni á ægifögrum stað í neðri hluta Þjórsár og í nágrenni Heklu, sé umhverfisvænni kostur heldur en vindmyllur við virkjanasvæðið og miðlanirnar ofan Búrfells. M.ö.o. þá er ekki endilega æskilegt að lagaleg skilgreining á víðernum eða miðhálendi valdi því að þrýstingur á virkjanir utan þess aukist. En það mun sennilega og jafnvel óhjákvæmilega gerast, ef sú túlkun sem fram kemur í umræddu áliti Skipulagsstofnunar verður meginregla. Þarna þarf mögulega að huga betur að því sem kalla mætti jafnvægið milli víðerna og aðliggjandi byggðra svæða.
Óheppilegt staðarval Landsvirkjunar?
Vissulega eru þó ýmis rök til þess að fara sérstaklega varlega í að staðsetja stórar vindaflsstöðvar (eða aðrar virkjanir og mannvirki) innan miðhálendisins, þar sem ennþá er gott tækifæri til að varðveita náttúru og víðerni. Augljóslega breytir þyrping stórra vindmylla ásýnd viðkomandi víðerna verulega. Og slíkt er að mati Skipulagsstofnunar úr takti við áðurnefnda Landsskipulagsstefnu. Þess vegna má kannski álíta það eðlilega ábendingu hjá stofnuninni að önnur staðsetning kunni að vera æskilegri.
Í þessu ljósi var óheppilegt hjá Landsvirkjun að velja stórbrotna náttúruna og víðernin þarna á mörkum hálendisins í nágrenni Heklu sem upphafsstað fyrir umfangsmikla virkjun vindorku á Íslandi. Það er þó vel að merkja svo að undirbúningur Landsvirkjunar að þessu verkefni var byrjaður löngu áður en umrædd Landsskipulagsstefna var samþykkt. Því má segja, að þarna hafi þróun umhverfismála á Íslandi einfaldlega farið fram úr orkufyrirtækinu.
Hvernig sem á endanum fer með Búrfellslund, þá mun áðurnefnt álit Skipulagsstofnunar óhjákvæmilega seinka áformum Landsvirkjunar um að virkja hér vindinn. Skv. frétt á vef fyrirtækisins hyggst Landsvirkjun nú „nýta sér þá þekkingu og reynslu sem fram hafa komið í ferlinu til frekari þróunar og undirbúnings vindorku á Íslandi“. Ekki er augljóst hvað þessi almenna yfirlýsing nákvæmlega táknar. Þó er alveg skýrt að Landsvirkjun er eftir sem áður áhugasöm um virkjun vindorku hér (og þá eftir atvikum á síður umdeildum svæðum).
Eðlilegt að nýta hagkvæma náttúruauðlind
Hafa ber í huga að umrædd niðurstaða Skipulagsstofnunar er matskennd og ekki yfir gagnrýni hafin. Þá er heldur ekki víst að þetta álit Skipulagsstofnunar merki að stofnunin muni almennt eða oftast leggjast gegn þyrpingu stórra vindmylla innan miðhálendisins. Þarna væri kannski æskilegt að fá fram skýrari viðmið, enda má búast við því að sum sveitarfélög á Íslandi séu farin að huga að því að skipuleggja svæði undir vindmyllur innan sinna lögsögumarka, m.a. á miðhálendinu.
Það er engu að síður jákvætt að með áliti Skipulagsstofnunar um s.k. Búrfellslund eru komnar fram vissar vísbendingar um þær áherslur sem stofnunin hefur gagnvart vindorkumannvirkjum. Nú geta orkufyrirtæki hér haft hliðsjón af þessari umfjöllun, áherslum og niðurstöðu Skipulagsstofnunar til að þróa vindorkuverkefni sín áfram. Enda er bæði eðlilegt og mikilvægt að við Íslendingar nýtum tækifærin í vindorkunni, sem í mörgum tilvikum yrði bæði hagkvæmur og umhverfisvænn kostur til raforkuöflunar.
Hugtök á reiki
Það er athyglisvert að í umræddu áliti sínu forðast Skipulagsstofnun að nota hugtakið vindlundur (öfugt við það sem Landsvirkjun jafnan gerir). Enda er orðið vindlundur ekki heppilegt, líkt og ég impraði á í fyrri grein minni.
Þess í stað talar Skipulagsstofnun um vindorkuver þarna í áliti sínu. Sem er kannski heldur ekki gott orð, því hugtakið „orkuver“ minnir fremur á þau mannvirki sem nýta eldsneyti til rafmagnsframleiðslunnar (sbr. kolaorkuver eða kjarnorkuver). Þessi hugtakanotkun Skipulagsstofnunar er a.m.k. ekki að leggja mikla áherslu á endurnýjanleika orkunnar né þá kolefnalausu raforkuframleiðslu sem knúin er af vindi. Þetta er kannski smáatriði en er samt tilefni til íhugunar.
Nefna má að í viðauka með lögum um mat á umhverfisáhrifum má sjá orðið „vindbú“ yfir virkjanir af þessu tagi. Það orð eða hugtak virkar nokkuð skondið, en á líklega að vera þýðing á enska hugtakinu wind farm. Hugtakanotkun hérlendis um vindorkuna er sem sagt nokkuð á reiki og tímabært að fram komi hnitmiðað og lýsandi orð, sem fellur vel að íslensku máli.
Nýtingarhlutfall vindvirkjana á Íslandi getur orðið óvenju hátt
Í dag er sáralítil vindorka virkjuð á Íslandi. Þær vindmyllur sem hafa verið settar hér upp eiga meira skylt við tilraunaverkefni en virkjunarframkvæmdir. Árangur þessara tilraunaverkefna rennir þó stoðum undir það að náttúrlegar aðstæður hér henti vel til að virkja vindinn. Og kunna þær víða að jafnast á við það sem best gerist erlendis, þ.e. vel yfir 40% nýtingarhlutfall.
Dæmi um svo hátt nýtingarhlutfall vindaflsstöðva á landi er fremur fátítt í öðrum löndum. En þekkist þó t.d. á Nýja Sjálandi, í suðurhluta Ástralíu, á fáeinum stöðum í Noregi og í Mið-Vesturríkjum Bandaríkjanna. Víðast hvar í heiminum er nýtingarhlutfall vindaflsstöðva á landi aftur á móti töluvert lægra og stundum miklu lægra.
Hátt nýtingarhlutfall er mikilvægur hvati til að virkja vind
Á þeim svæðum þar sem nýtingarhlutfall vindaflsstöðva er nálægt meðaltali eða þar undir, er starfsemin oft ekki hagkvæm nema til staðar sé mjög hátt raforkuverð og/eða opinber stuðningur við vindorku. Með lækkandi kostnaði í vindorkutækni er raforkuframleiðsla af þessu tagi þó á sumum svæðum orðin samkeppnishæf við flesta aðra orkugjafa og það án sérstakra ívilnana. Þetta kemur t.a.m. vel fram í nýjustu greiningu fjármálafyrirtækisins Lazard á kostnaði við raforkuframleiðslu.
Fyrirliggjandi upplýsingar um vindafar hér á landi og reynslan af þeim vindmyllum sem hér hafa verið starfræktar undanfarin ár, gefa sterkar vísbendingar um að hér á Íslandi geti vindorka keppt við aðra hefðbundnari virkjunarkosti. Og það jafnvel þó svo raforkuverð hér sé lágt í samanburði við flest nágrannalönd okkar.
Íslensk vindorka er samkeppnishæfur kostur
Á sama tíma og kostnaðar við vindorku hefur farið lækkandi, vegna tækniþróunar og aukinnar framleiðslu vindtæknifyrirtækja, hafa flestir hagkvæmustu virkjunarkostirnir í íslensku vatnsafli og jarðvarma þegar verið nýttir. Fyrir vikið hefur kostnaðarmunur hér á vindorku annars vegar og nýjum hefðbundnum virkjunum hins vegar, farið lækkandi á undanförnum árum.
Og nú er komin upp sú áhugaverða staða að íslensk vindorka kann að verða ódýrari en sum þau jarðvarmaverkefni sem hér eru á dagskrá skv. gildandi Rammaáætlun. Afleiðingin gæti orðið sú að virkjun íslenskrar vindorku komi til með að hægja á uppbyggingu nýrra jarðhitavirkjana. Virkjun vindorku á Íslandi yrði meira að segja í einhverjum tilvikum sennilega ódýrari en sumar þær vatnsaflsvirkjanir sem nú eru tilgreindar í biðflokki Rammaáætlunar.
Það hversu virkjun vindorku mun vaxa hratt hér á landi á komandi árum mun þó að verulegu leyti ráðast af kostnaði við aðgang að varaafli. Þarna birtist helsti veikleiki vindorkunnar þegar þessi kostur er borin saman við jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir með miðlun. Þ.e. sveiflukennd framleiðsla. En þá kemur að áhugaverðu samspili vindorku og vatnsafls.
Vindorka hentar vatnsaflskerfi vel
Á Íslandi er mestur hluti raforkunnar framleiddur með stórum vatnsaflsvirkjunum, sem fá vatnið frá umfangsmiklu kerfi miðlunarlóna. Slíkar aðstæður henta vel fyrir þróun vindaflsstöðva. Þegar vindurinn blæs (þ.e. vindaflsstöð skilar miklum afköstum) og vatnsstaða í lóni er ekki í hámarki getur verið hagkvæmt að spara vatnið, þ.e. hægja á rennsli og raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjunarinnar. Og láta vindaflið mæta minni afköstum vatnsaflsvirkjunarinnar. Einnig getur nýtingu vindorku í samspili við vatnsaflsvirkjun lágmarkað að vatn þurfi að renna á yfirfalli.
Þegar vindur er lítill getur svo verið hagkvæmt að keyra vatnsaflsvirkjunina á fullum afköstum. Og það vill einmitt svo til að hér á landi eru vindskilyrði til raforkuframleiðslu oft síst þegar innrennsli í miðlunarlón er í hámarki – og vindskilyrði best þegar innrennslið er í lágmarki. Samspil vindafls og stýranlegs vatnsafls er því að ýmsu leyti skynsamleg leið til að hámarka hagkvæmni og um leið draga úr þörf á enn fleiri vatnsaflsvirkjunum og miðlunarlónum.
Skynsamleg aflaukning í núverandi vatnsaflsvirkjunum
Að auki getur virkjun vindorku gert það ennþá hagkvæmara en ella að bæta afli í núverandi vatnsaflsvirkjanir (hér má hafa í huga yfirstandandi stækkun Landsvirkjunar á Búrfellsvirkjun um 100 MW). Slíkt er góð leið til að auka raforkuframboð með hógværum tilkostnaði og óvenju litlum umhverfisáhrifum. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að æskilegt er að vindorkan verði virkjuð hér á Íslandi.
Landsvirkjun og HS Orka áhugasöm um að virkja vindinn
Þessi umræddi ávinningur af samspili vatnsafls og vindvirkjana er sennileg meginástæða þess að af stóru raforkufyrirtækjunum þremur er það fyrst og fremst Landsvirkjun sem sýnt hefur nýtingu vindorku áhuga. Landsvirkjun er jú það orkufyrirtækjanna sem er með langmest af vatnsafli og mestallt það vatnsafl fer um miðlunarlón. HS Orka og ON eru aftur á móti fyrst og fremst jarðvarmafyrirtæki.
Af síðustu ársskýrslu HS Orku (þ.e. vegna rekstrarársins 2015) má þó sjá að það fyrirtæki er einnig byrjað að huga að þeim möguleika að nýta vindorku (á Reykjanesskaga). Sá áhugi sprettur vafalítið af því hversu vindorkan er orðin hagkvæmur kostur miðað við jarðvarmann. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessar athuganir HS Orku munu þróast. Önnur fyrirtæki eru einnig að huga að byggingu umtalsverðra vindvirkjana hér, sbr. Arctic Hydro, Biokraft o.fl.
Orkuveita Reykjavíkur áhugasöm um kaup á vindorku
Lítið hefur heyrst af áhuga Orkuveitu Reykjavíkur (eiganda Orku náttúrunnar/ON) á að virkja vindinn. Á móti kemur að það er einmitt ON sem kaupir orkuna frá vindmyllunum tveimur í Þykkvabæ, sem eru í eigu Biokraft. Og ON mun einnig hafa lýst áhuga sínum á að kaupa raforkuna af fyrirhugaðri 45 MW vindaflsstöð Biokraft sem nú er áætluð við Þykkvabæ.
Hafa má í huga að fallandi framleiðsla í Hellisheiðarvirkjun veldur því að ON þarf aðgang að meiri orku. Í þessu skyni þarf fyrirtækið á næstu árum að eyða tugmilljörðum ISK í nýjar boranir eftir meiri jarðhita til þess eins að viðhalda raforkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar. Þessi fjárfesting er augljóslega mikilvæg til að ON/OR geti örugglega sinnt almannaþjónustu sinni og um leið staðið við samninga sína við Norðurál.
Eins og staðan er í dag virðist ON ekki vera farin að huga að virkjun vinds. Það er áhugavert að fyrir sömu fjárfestingu eins og þarna á nú að setja í nýjar borholur og niðurdælingu fyrir Hellisheiðarvirkjun, þ.e. ISK 20-25 milljarða, hefði ON getað reist um 150 MW vindaflsstöð. Sem sagt meira en þrisvar sinnum stærri virkjun en Biokraft áformar nú í Þykkvabæ. Þeir fjármunir fara aftur á móti í það eitt að viðhalda jarðvarmaöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun, sem er þó mjög nýleg virkjun.
Lítil og afturkræf umhverfisáhrif gera vindorku ennþá áhugaverðari
Auk lækkandi kostnaðar verður virkjun vindorku á Íslandi ennþá áhugaverðari þegar einnig er tekið tillit til umhverfisáhrifa virkjana og afturkræfni á því raski sem virkjunarframkvæmdum fylgir. Virkjun jarðvarma fylgja t.a.m. ýmsir ókostir, líkt og brennisteinsmengun og losun koldíoxíðs (auk óvissunnar um hnignun jarðvarmageymisins). Og stórar vatnsaflsvirkjanir valda verulegri umhverfisröskun; kalla oft á stór miðlunarlón, skurði og aðrar umfangsmiklar veituframkvæmdir. Auk stíflumannvirkja og uppsöfnun jökulleirs á bökkum miðlunarlóna sem svo fýkur yfir aðlæg gróðurlendi.
Virkjun vindsins er aftur á móti þess eðlis að slík mannvirki hafa oftast lítil umhverfisáhrif og áhrifin fyrst og fremst sjónræn. Þar að auki er tiltölulega einfalt að fjarlægja slík mannvirki að afloknum líftímanum og því góðir möguleikar á að varanleg ummerki verði með allra minnsta móti. Með hliðsjón af þessu, svo og kostnaði mismunandi tegunda virkjana, hlýtur virkjun vindorku á Íslandi að teljast áhugaverð. Um leið kann að vera tilefni til að við Íslendingar gætum meira hófs við að reisa nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. Og hugum þess í stað í auknum mæli að vindaflinu.
Einhæfur aflokaður raforkumarkaður er takmarkandi
Að öllu saman teknu virðist virkjun vindorku góður kostur fyrir Íslendinga. Þess vegna er líka tilefni til að reyna að spá fyrir um hversu mikið verður um að vindaflsstöðvar rísi hér á komandi árum og áratugum.
Í því sambandi skiptir auðvitað máli að Ísland er einangrað raforkukerfi og raforkuframleiðsla hér hefur ekki aðgang að stórum áhugaverðum mörkuðum líkt og flest önnur Evrópulönd hafa. Og vegna þess hversu hlutfall stóriðju í raforkunotkuninni hér er gríðarlega og óvenjulega hátt, þarf raforkuframboðið hér að vera afar stöðugt. Í slíku raforkukerfi eru möguleikar stórra vindaflsstöðva takmarkaðir.
Það er því svo að óstöðugleiki vindorkunnar frá einum degi til annars í litlu raforkukerfi, sem fyrst og fremst framleiðir fyrir stóriðju, er þröskuldur fyrir nýtingu vindorku á Íslandi. Aðstaðan yrði allt önnur og áhugaverðari ef við hefðum aðgang að miklu stærri raforkumarkaði.
Sæstrengur gæti gert íslenska rokið afar verðmætt
Sú fremur þrönga staða sem hið einangraða og stóriðjumiðaða raforkukerfi hér veldur vindorku, myndi breytast verulega ef/þegar Ísland tengist Evrópu með sæstreng. Slík tenging við stóran raforkumarkað, t.d. þann breska, gæti skapað grunn að því að íslensk vindorka yrði ný og mikilvæg útflutningsvara. Þess vegna kann að verða áhugavert fyrir landsmenn að vinna að því að auka gjaldeyristekjur sínar í framtíðinni með því að fanga orkuna í „íslenska rokinu“.
Áhugaverð tækifæri í samningum um nýja græna orku
En jafnvel þó svo íslenski raforkumarkaðurinn sé í dag hóflega áhugaverður fyrir vindorkufjárfestingar, þá eru til staðar athyglisverð tækifæri fyrir íslenska vindorku jafnvel án sæstrengs. Þar kemur m.a. til áðurnefnt hagkvæmt samspil vindorku og vatnsafls. Ekki síður skiptir hér máli að nokkur Evrópulönd eru áhugasöm um samninga sem fela í sér að auka hlutfall endurnýjanlegrar kolefnislausrar raforku innan markaðssvæðis ESB/EES. Þannig samningar eru t.d. að tryggja nýjum norskum vindorkuverum góðar aukatekjur.
Ámóta fyrirkomulag mun í framtíðinni efalítið flýta fyrir uppbyggingu vindafls og mögulega annarra virkjana á Íslandi og verða til þess að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum. Þarna er um að ræða mjög áhugaverða möguleika fyrir íslensk orkufyrirtæki. Til samanburðar má hafa í huga að aukagreiðslurnar einar, sem nýjar vindvirkjanir í Noregi njóta vegna umrædds fyrirkomulags, eru oft hærri heldur en það sem stóriðja hér greiðir íslensku orkufyrirtækjum fyrir raforkuna! Þetta á t.d. bæði við um raforkuverðið sem Elkem og Norðurál greiða.
Pöyry spáir allt að 1.600 MW í vindvirkjunum á Íslandi fyrir 2035
Samkvæmt skýrslu sem Kvika banki og Pöyry unnu nýlega fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið er gert ráð fyrir því að skv. hárri sviðsmynd kunni vindvirkjanir á Íslandi að verða með 1.600 MW af uppsettu afli árið 2035 (þ.e. ef sæstrengur verður lagður milli Bretlands og Íslands). Samkvæmt miðspá eða mið-sviðsmynd með sæstreng gera Kvika/Pöyry ráð fyrir 550 MW af vindafli.
Til samanburðar má hafa í huga að samanlagt afl allra virkjana á Íslandi núna er um 2.800 MW. Ef til sæstrengs kemur eru því, að mati Kviku/Pöyry, geysimikil vaxtartækifæri í því að beisla vindinn hér á landi. Og það jafnvel þó svo miðað sé við miðspá fyrirtækjanna, en ekki háu sviðsmyndina.
Umfjöllun Kviku og Pöyry um íslenska vindorku var mjög almenn
Í umræddri skýrslu Kviku/Pöyry kemur einnig fram það mat skýrsluhöfunda að miðað við miðspá verði vindorka ekkert nýtt til raforkuframleiðslu hér nema með tilkomu sæstrengs. Ólíklegt virðist að sú ályktun eða spá skýrsluhöfunda gangi eftir; þarna virðast möguleikar íslenskrar vindorku hafa verið vanmetnir (og/eða hröð uppbygging nýrra jarðvarmavirkjana ofmetin). Enda er augljóst að skýrsluhöfundar huguðu lítt að því hvað ódýrustu kostir í vindafli á Íslandi eru líklegir til að kosta. Þess í stað virðist sem Kvika/Pöyry hafi látið nægja að setja meðalverð á virkjun vindorku og það verð er enn sem komið er nokkuð hátt.
Fyrir vikið virðast ályktanir skýrsluhöfunda um tækifærin í íslenskri vindorku vera mjög almenns eðlis og ónákvæmar. Ekki verður framhjá því litið hversu hagkvæm og ódýr vindorkutæknin er orðin og að nokkrir eða jafnvel margir staðir á Íslandi eru líklegir til að geta skilað óvenju góðu nýtingarhlutfalli. Að auki er líklegt að kostnaður í vindorkutækninni eigi eftir að lækka ennþá meira á komandi árum. Það virðist því hæpið að miðspá Kviku/Pöyry um litla sem enga virkjun vindorku hér án sæstrengs gangi eftir. En vissulega dregur hinn einhæfi aflokaði íslenski raforkumarkaður úr tækifærum þess að virkja hér vindinn, líkt og nefnt var fyrr í þessari grein.
Sæstrengur er ekki forsenda þess að virkja vindinn á Íslandi
Tekið skal fram að Kvika/Pöyry álíta sæstreng ekki algera forsendu þess að vindur verði virkjaður á Íslandi. Í s.k. hárri sviðsmynd fyrirtækjanna án sæstrengs er gert ráð fyrir að um 400 MW af vindafli rísi hér fyrir 2035. Skýrsluhöfundar eru því bersýnilega meðvitaðir um að hér eru tækifæri til að byggja upp samkeppnishæfar vindaflsstöðvar án sæstrengs - að því gefnu að eftirspurn eftir raforku verði sterk. Enda segir beinlínis í skýrslunni að vindorka gæti „orðið hagkvæmari kostur en jarðvarmavirkjanir í náinni framtíð“. Skýrslan var vel að merkja að mestu unnin á árinu 2015 og það vill svo til að nú árið 2017 virðist sem þessi „nána framtíð“ kunni að vera runnin upp.
Rísa hér 400 MW af vindafli á næsta áratug?
Að mati greinarhöfundar er rökrétt að hér rísi u.þ.b. 300-400 MW af vindafli innan eins til tveggja áratuga, jafnvel þó svo engin ákvörðun verði tekin um sæstreng. Spá af þessu tagi má t.d. rökstyðja með því, að á þeim svæðum á Íslandi þar sem vindaðstæður eru óvenju hagstæðar er líklegt að meðalkostnaður framleiddrar raforku á líftíma vindvirkjunar sé lægri en sambærilegur kostnaður sumra þeirra jarðvarmavirkjana sem fyrirhugaðar eru skv. Rammaáætlun. Þess vegna eru góðar líkur á að hér verði töluverður áhugi á að virkja vindorku jafnvel án sæstrengs.
Talan 300-400 MW er að sjálfsögðu óviss og hún gæti orðið eitthvað lægri eða eitthvað hærri. Komi til sæstrengs yrði svo ennþá meiri íslensk vindorka virkjuð. En einnig þá er óvissan mikil; mögulega myndi þetta gerast mjög rólega líkt og lágspá Kviku/Pöyry gerir ráð fyrir. Miðspá Kviku/Pöyry hljóðar upp á um 550 MW og háspá þeirra um 1.600 MW. Svo er ekki heldur útilokað að talan yrði ennþá hærri.
Vert er að hafa í huga að vindorkuverkefni kalla á ýmsar rannsóknir og afar vandaðan undirbúning. Og hætt er við að uppbyggingin verði ansið hæg ef Skipulagsstofnun eða Alþingi hyggst verða erfiður þröskuldur á þeirri leið að Íslendingar nýti þetta hagkvæma náttúruafl sem vindurinn er. Slíkt myndi einkum verða vatn á myllu kostnaðarsamra jarðvarmaverkefna, sem er ekki endilega hagkvæmasta né umhverfisvænsta leiðin til að auka hér raforkuframboð.
Framtíð íslenskra vindaflsstöðva kann að vera björt – en er vissulega óviss
Þegar litið er til bæði hagkvæmni og umhverfisáhrifa - og vindorka þar borin saman við vatnsafl og jarðvarma - virðist líklegt að hér á Íslandi verði vindorka talsvert virkjuð og það jafnvel þó svo ekki verði af sæstreng í bráð. Á vef Icelandic Energy Portal má sjá hvernig skiptingin í uppbyggingu einstakra tegunda af raforkuframleiðslu á Íslandi á næstu tveimur áratugum gæti litið út. Að mati greinarhöfundar er sú sviðsmynd sem þar er sýnd, líklegri til að rætast heldur en miðspáin í skýrslu Kviku/Pöyry.
Lesendur skulu þó minntir á að mögulega og kannski mjög líklega mun hvorki umrædd spá greinarhöfundar né spá Kviku/Pöyry fyllilega rætast. Veruleikinn verður vafalítið eitthvað öðruvísi og jafnvel allt öðruvísi. Þetta ættu einmitt að vera lokaorðin í öllum spám um þróun efnahagslífs - og þá ekki falin í örletri. En hvað sem því líður er ástæða til bjartsýni um að vindurinn skapi Íslandi senn ný og góð verðmæti.
Höfundur er sérfræðingur á sviði orkumála.