Í opinberri umræðu um umferðarmál má skilja sem svo að helstu áhyggjur borgarbúa séu umferðartafir, of litlar götur og of lítill umferðarhraði. Í störfum mínum fyrir Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar hitti ég fjölda íbúa vegna þeirra mála sem ráðið snerta. Ég get auðveldlega fullyrt að í þeim samtölum sem fram fara á íbúafundum eru allt önnur sjónarmið uppi en ráða má af umræðunni í fjölmiðlum. Þegar fólk ræðir um sitt nærumhverfi, hverfið sitt, borgarhlutann sinn þá eru það ekki umferðartafir sem liggja þyngst á íbúum.
Hraðakstur
Fólk hefur áhyggjur af hraðakstri á götunum sem hindrar börn í að njóta til fulls ferðafrelsis án áhyggna foreldranna. Aðgengi að íþróttum og öðrum tómstundum þykir víða skert því börn búa „öfugu megin við veginn“ og treysta sér síður yfir. Sú framkvæmd sem oftast er stungið upp á er hraðahindrun. Það er varla til sú gata í borginni þar sem íbúar hafa ekki tekið höndum saman og óskað eftir hraðahindrun því þeim stendur uggur af hraðakstrinum. Í svipinn man ég ekki eftir hraðahindrun sem sett hefur verið niður að frumkvæði borgaryfirvalda. Að baki hverri þrengingu, öldu eða kodda er samantekin áskorun íbúa um að fara í stríð við hraðann í sínu hverfi.
Loftmengun
Fólk hefur áhyggjur af loftmengun og ekki að ástæðulausu. Bæði eitraðar lofttegundir og svifryk er mikil heilsufarsógn við alla borgarbúa. En ekki síst steðjar ógnin að þeim sem búa þar sem umferðin sker hverfið sundur, rétt utan við stofugluggann og þar sem leikskólarnir standa mitt á milli umferðaræðanna. Fólk getur farið í endalausar hártoganir um uppruna svifryks. Við þekkjum af rannsóknum að hættulegustu agnirnar, þær smæstu, koma úr vélum díselbíla. Bremsuborðaryk er stór hluti ryksins sem og salt, aska, mold og malbik. En uppruninn er samt alltaf bílaumferðin. Eftir því umferðing meiri því meira ryk og eftir sem umferðin er hraðari dreifist rykið víðar.
Hávaði
Fólk hefur áhyggjur af og kvartar yfir hávaða af bílaumferðinni. Í hverfum þar sem áður var meiri rósemd áður en umferðin tók vaxtarkipp er helsta áskorunin sem við í forsvari fyrir umferðarmálin fáum að fjárfesta í hljóðvarnarmúrum. Hávaðinn helst í hendur við fjölda bíla en aðallega helst hann í hendur við hraðann á götunum. Fyrir utan hljóðveggina sem reistir hafa verið er fjöldi íbúa sem hefur fengið styrk til að bæta einangrun í gluggum. Það er ekki að ástæðulausu því heilsufar fólks og geta til að einbeita sér að störfum sínum líður fyrir hávaðann.
Túristarútur
Fólk kvartar yfir því að túristarútur þeysi um göturnar sínar dag og nótt með tilheyrandi raski. Eitt algengasta umkvörtunarefnið sem við fáum lýtur að þessum málum. Íbúum þykir rúturnar ekki bara skapa hávaða og loftmengun heldur fari þær illa með borgarumhverfið, stansi á miðjum götum og uppi á gangstéttum. Þegar reynt er að skapa rými fyrir rúturnar heyrist oftar en ekki í almenningi að betra væri að banna þær með öllu.
Að koma vanda sínum yfir á aðra
Það er ekki fyrr en við förum að tala um umferðina í öðrum hverfum eða á ótilgreindum stað í borginni sem er ekki nálægt húsinu okkar, heldur nálægt heimilum annarra að umræðan fer að snúast upp í kvartanir yfir að umferðin fái ekki nógu mikið pláss. Sem betur fer eru þó íbúafundir yfirleitt um ástandið í því hverfi sem fólk býr í sjálft en ekki hvernig fólk myndi vilja sjá önnur hverfi þróast. Okkur sem sitjum í Umhverfis- og skipulagsráði er uppálagt að hugsa fyrir almannahagsmunum en ekki síður sjá til þess að ekki sé gengið á hlut borgarbúa í einu hverfi þegar íbúar í öðrum hverfum ásælast lífsgæðin og vilja breyta þeim í greiða umferð.
Höfundur er verkfræðingur og fulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur.