Heiðar Guðjónsson birti nýlega grein í Kjarnanum sem nefndist „Dómsdagur og Marxismi“ og hefur vakið nokkra athygli. Grein Heiðars er því miður skrifuð af yfirgripsmikilli vanþekkingu og slæmum ályktunum og ætlum við hér að gera gangskör að því að segja honum til í sumu, en því miður ekki öllu, sem hann fer rangt með.
Áður en lengra er haldið er líklega best að nefna að flest af því sem Heiðar kallar „marxisma“ hefur lítið sem ekkert með marxisma að gera— og það að hann skuli blanda saman marxisma og almennum skoðunum vinstri manna (og loftslagsvísindamanna, af einhverjum ástæðum), sem ekki allar eru af marxískri rót, bendir því miður til þess að hann viti ekkert hvað hann er að tala um. Skoðum þetta nánar.
Falskar forsendur Heiðars
Í fyrsta hluta greinar sinnar gagnrýnir Heiðar Karl Marx fyrir falskar forsendur í gagnrýni sinni á kapítalismann og markaðshagkerfið. Vandinn við þessa gagnrýni er að hún sjálf byggir á fullkomlega fölskum forsendum um hvað gagnrýni Marx felur í sér og hverjar kenningar hans voru.
Vanþekking Heiðars á þessu sést vel þegar hann fullyrðir að Marx hafi ekki stuðst við tölulegar staðreyndir. Það nægir að opna rit Marx, t.d. Das Kapital, hvar sem er til að sýna fram á hversu röng sú fullyrðing er— eitthvað sem við getum verið örugg um að Heiðar hefur aldrei gert í ljósi þessa, því röksemdafærsla Marx er full af „tölulegum staðreyndum“ og greiningu á raunverulegri stöðu efnahagsmála. Það er þó ekki þar með sagt að greining Marx sé rétt, en að segja að hún styðjist ekki við tölulegar staðreyndir er fráleitt.
Greining Heiðars nær þó hámarki þegar hann fullyrðir að ein af forsendum Marx væri sú að gróði eins væri tap annars og að það brjóti gegn kenningu hans þegar laun á vinnumarkaði hækka og hagur fyrirtækja batnar. Hér gerum við ráð fyrir að Heiðar sé að vísa til kenningar Marx um að hagnaður skýrist af arðráni á verkafólki. Nú er sú kenning vissulega umdeild, og hægt er að færa ýmis rök gegn henni.
En það að laun hækki og kjör vinnufólks batni eru þó ekki slík mótrök—þetta er grundvallarmisskilningur. Í þessu sambandi nægir að benda á að Marx sjálfur skrifaði um og spáði fyrir um þetta fyrirbæri, sem nauðsynlegt viðbragð kapítalismans, þar sem einhver þyrfti jú að hafa efni á að kaupa allar þær vörur sem kapítaliskt hagkerfi framleiðir, annars myndi kerfið hrynja—og að það er grundvallaratriði í kenningum hans um kapítalisma að hann sé sífellt að þróa og bæta framleiðslutækin.
Annar vandi við þetta er að þetta ruglar saman frjálsum viðskiptum—sem Marx var í öllum meginatriðum sammála Adam Smith um—og kapítalismanum sem samfélagsskipan, en þetta tvennt er ekki hið sama í huga Marx. Ef verkamaður samþykkir að vinna eitthvert starf fyrir lúsarlaun vegna þess að hann óttast að verða heimilislaus og svelta má vissulega segja að bæði hann og atvinnurekandinn hafi af starfi hans gagnkvæman ávinning—verkamaðurinn forðast jú hungrið og kuldann. En þá er ekki þar með sagt að verkamaðurinn hefði ekki getað borið meira úr býtum ef hann tæki þátt í stéttabaráttu, eins og Marx mælir með.
Þá er það einnig undarlegt að fullyrða í því samhengi sem Heiðar gerir að „Marx byggði á fráleitum forsendum um vinnuafl sem hlutlægan mælikvarða verðmæta“. Hér gerum við ráð fyrir að Heiðar eigi við vinnugildiskenninguna. Það er rétt að hún er ekki samþykkt meðal hagfræðinga dagsins í dag og er oftast sá punktur sem Marx er gagnrýndur fyrir—kannski réttilega—en það hefur lítið sem ekkert að gera með hugmyndina um gagnkvæman ábata viðskipta, sem Marx var ekki á móti.
Það er svo í sjálfu sér óljóst hvað Heiðar á við með að segja að verðgildi sé huglægt en ekki hlutlægt, og hvernig það á að vera gagnrýni á kenningu Marx að öðru leyti. Það má vel vera að virði hluta sé mismunandi eftir mismunandi einstaklingum. Það er einfaldlega ekki það sem Marx var að tala um—en hann var að reyna að komast að því hvernig samfélagið í heild lagði mat á virði og hugtakaparið huglægt/hlutlægt virðist passa illa til að hugsa um það.
Með öðrum orðum þá er það hvorki kenning Marx að eins dauði sé annars brauð í þeim skilningi að kjör verkafólks í heild geti ekki batnað né að í einstökum viðskiptum sé alltaf einhver sem tapi. Í raun og veru var Marx mjög trúr lærisveinn Adams Smith þegar kom að hagfræðilegum efnum, jafnvel, ótrúlegt en satt, þegar kom að gildi verkalýðsfélaga og stéttabaráttu til að hækka laun verkafólks.
Heiðar og Piketty
Fullyrðingar Heiðars um franska hagfræðinginn Thomas Piketty eru álíka furðulegar (en hann er alls ekki marxisti og raunar frekar borgaralegur hagfræðingur). Um hann segir Heiðar: „Piketty áttar sig ekki á að sagan og öll hagfræði sem snýr að fjármálum hefur fyrir löngu afsannað kenningu hans. Ef fjármagn yxi af sjálfu sér væru ættir landnámsmanna Íslands gríðarlega ríkar og þrælarnir hefðu aldrei komist til bjargálna.“
Þessi tilvitnun er frekar dæmigerð fyrir grein Heiðars og er í raun og veru frekar vandræðaleg. Það er til merkis um alveg ótrúlegan hroka og sjálfsálit að Heiðar haldi að hann geti slegið eina helstu hagfræðikenningu síðari ára út af borðinu með því að benda á algjörlega augljósa og ómerkilega staðreynd—að ríkt fólk geti tapað peningum. Lítillátari maður hefði líklega dregið þá ályktun að fyrst hann gæti fellt kenningu Pikettys með einni setningu, augljósri í þokkabót, að þá væri eitthvað athugavert við skilning hans á henni, en ekki Heiðar. Nei, ríkt fólk getur tapað peningum. Skák og mát, Piketty!
Skýringin á þessu—og þetta ætti ekki að koma á óvart—er auðvitað að þetta er bara alls ekkert kenning Pikettys. Hann heldur því fram að almennt sé arður af fjárfestingum meiri en hagvöxtur (r > g) en ekki að allar fjárfestingar skili slíkum arði, og allra síst að tilteknir einstaklingar eða fjölskyldur geti ekki tapað fé. Af þessari almennu kenningu leiðir ekki að einstakar fjárfestingar geti ekki verið óskynsamlegar né að ekki sé hægt að sólunda fé á annan hátt, eins og Heiðar virðist halda. Allra síst heldur Piketty því fram að einstök svæði eða tímabil geti ekki verið undantekningar frá þeirri reglu sem hann þykist sjá. Þetta eru einfaldlega rangar ályktanir hjá Heiðari, byggðar á einfeldningslegum skilningi á kenningu Pikettys.
Þetta tengist svo því sem Heiðar telur vera skoðanir Marx og Pikettys á rekstri fyrirtækja en samkvæmt skilningi hans telja þeir að „fjármagn vaxi af sjálfu sér“ og að fyrirtækjarekstur sé „nokkurs konar kaffiklúbbur þar sem skipulagðar eru næstu árshátíðir og laxveiðiferðir“ þar sem engir ytri þættir hafi áhrif á starfsemina. Eins og við höfum séð er það fráleitt, enda er eðli samkeppni eitt af því sem Marx hugsaði hvað mest um og sjónarhorn Pikettys er ekki á einstök fyrirtæki eða einstaklinga.
Heiðar, náttúruvernd og raunveruleikinn
Þrátt fyrir allt þetta eru skoðanir Heiðars á náttúruvernd (sem hann vill endilega tengja við nasisma af einhverjum furðulegum ástæðum) og loftslagsbreytingum eitt það skrýtnasta í grein hans. Samkvæmt honum eru áhyggjur umhverfisverndarsinna og vísindamanna af loftslagsmálum annars vegar marxismi og hins vegar ekki á rökum reistar, vegna þess að einn vísindamaður, Freemann Dyson—sem ekki er loftslagsvísindamaður, heldur stærðfræðingur og eðlisfræðingur—heldur því fram að jörðin geti orðið grænni vegna aukins koltvísýrings í andrúmsloftinu (en það skiptir raunar litlu, því koltvísýringur er ekki flöskuháls í vexti plantna, heldur vatn og næring).
Þessi málflutningur er svo snælduvitlaus að það er erfitt að trúa því að Heiðari sé alvara. Í fyrsta lagi viðurkennir Dyson sjálfur að hann viti lítið um tæknilegar hliðar loftslagsmála, auk þess að trúa raunar á loftslagsbreytingar. Í öðru lagi gengur þessi skoðun gegn yfirgnæfandi meirihlutaáliti vísindasamfélagsins alls og öllu sem við best vitum um þetta efni í dag.
Það er eitthvað meira en lítið furðulegt að gera lítið úr áhyggjum fólks vegna loftslagsbreytinga (marxista eða annarra) og hafa svo ekkert upp á að bjóða nema orð eins vísindamanns sem ganga gegn orðum vísindasamfélagsins alls—vísindamanns sem trúir á loftslagsbreytingar af mannavöldum í þokkabót! Heiðar segir bókstaflega ekkert annað til að styðja þá skoðun sína að loftslagsbreytingar séu ekki raunverulegt áhyggjuefni en lætur samt eins og þeir sem hann stimplar sem marxista, en ekki hann sjálfur, séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Það væri ekki hægt annað en að hlæja að svona málflutningi—væri þetta ekki svona alvarlegt.
Fortíðin og framtíðin
Í lok greinar sinnar heldur Heiðar því fram að nú liggi marxistar sjúkir af áhyggjum vegna aukinnar vélvæðingar og telji hana af hinu illa, rétt eins og lúddítar 19. aldar sem brutu vefstóla vegna þess að þeir töldu þá ógn við lifibrauð sitt. Þeir skilja ekki að það er aukin tæknivæðing og framþróun sem hafi fært okkur betri lífsgæði, meðal annars 40 stunda vinnuviku (en Heiðar sleppir að minnast á alla þá baráttu verkalýðsfélaga sem leiddu til hennar).
Líklega á Heiðar hér við háværar áhyggjur um að aukin sjálfvirkni og gervigreind muni koma til með að útrýma mörgum hefðbundnum störfum sem myndi leiða til mikils atvinnuleysis. Þessar raddir koma úr öllum áttum, bæði frá hægri og vinstri, meðal annars frá hagfræðingum úr röðum frjálshyggjumanna, til að mynda Tyler Cowen. Hins vegar eru það ekki marxistar sem líta svona á málin, enda sjá þeir slíkt sem eðlilega framþróun kapítalismans og gera byltinguna sem þeir vonast eftir mun líklegri.
Það er hins vegar rétt hjá Heiðari að í fortíðinni hefur það ekki gerst að tækniframfarir leiði til atvinnuleysis. Það þýðir hins vegar ekki að slíkt geti ekki gerst í framtíðinni—það er einföld rökvilla. Heimspekingurinn Bertrand Russell líkti henni, í öðru samhengi þó, við kjúkling sem heldur að bóndinn komi alltaf að fóðra sig—þangað til bóndinn snýr hann úr hálsliðnum. Vel má þó vera að Heiðar hafi rétt fyrir sér um þetta en hann hefur hins vegar ekkert gert til að sýna fram á það (og eins gleymir hann að lúddítarnir höfðu rétt fyrir sér um eitt: þeir misstu vinnuna).
Leiðarstefið í grein Heiðars er að leggja marxisma að jöfnu við dómsdagsspár. Það er mjög skrýtinn skilningur. Aðdráttarafl og áhrifamáttur marxisma á 20. öld lá einmitt í voninni sem hann boðar—voninni um betri heim. Marxisminn boðar vissulega byltingu en fáir marxistar myndu líta á hana sem dómsdag, nema hugsanlega yfir forréttindum mikils minnihluta mannkyns, sem vill svo til að Heiðar tilheyrir.
Ásgeir Berg Matthíasson, rökfræðingur og doktorsnemi í heimspeki við háskólana í St Andrews og Stirling.
Jóhann Helgi Heiðdal, þriggja barna faðir og marxisti.