Ný ríkisstjórn er tekin við. Hún er líkast til ekki drauma ríkisstjórn neins og stjórnarsáttmáli hennar ber þess mjög keim að saman hafi endað flokkar með mjög ólíkar áherslur í lykilmálum. En hún hefur skýrt umboð til að sitja og er með meirihluta á þingi. Þá lýðræðislegu niðurstöðu verða allir að virða.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í útvarpsviðtali í maí 2016 að fyrsta kosningamál hans og Sjálfstæðisflokks væri að standa gegn kerfisbreytingum. Vel má færa rök fyrir því að Bjarni hafi náð því markmiði að mjög miklu leyti.
Helstu kerfisbreytingar sem ýmsir flokkar stefndu að í aðdraganda kosninga voru breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfunum og umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá. Engar útfærðar breytingar á sjávarútvegs- eða landbúnaðarkerfum rötuðu í stjórnarsáttmálann. Ekki heldur á stjórnarskránni. Þess í stað verða skipaðar nefndir til að móta tillögur að breytingum án þess að nokkurt fyrir liggi hvort ríkisstjórnin muni öll standa á bak við samþykkt þeirra. Það er enda alþekkt leið til að svæfa erfið mál að planta þeim í flóknar og margmennar nefndir árum saman.
Í Evrópumálum er eina skuldbindingin sem er skjalfest sú að Viðreisn og Björt framtíð, báðir Evrópusinnaðir flokkar sem vilja þjóðaratkvæði um áframhaldandi viðræður, samþykkja að taka ekki afstöðu til þess máls komið það upp í þinginu fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Það er í algjörri andstöðu við stefnu beggja flokka. Í grunnstefnu Viðreisnar segir: „Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu til þess að ná megi aðildarsamningi sem borinn verði undir þjóðina.“ Í áherslum Bjartar framtíðar segir: „Löndum góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Fordæmalaus ríkisstjórn
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft sitt fram í þessum veigamiklu málum er ekki þar með sagt að engra breytinga sé að vænta með nýrri ríkisstjórn.
Reyndar má búast við því að lítið verði um kúvendingar í þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir, enda kerfið sem er til staðar kerfið sem flokkurinn hefur byggt upp með þaulsetu sinni í valdastólum. En í stjórnina eru að setjast tveir frjálslyndir miðjuflokkar sem stofnaðir eru á síðustu fimm árum. Aldrei áður hafa slíkir flokkar skipað ríkisstjórn og fengið jafn mikil áhrif í formi ráðherraembætta sem fara með mjög stóra málaflokka. Í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er því hið nýja að mæta hinu gamla.
Það skiptir til að mynda miklu máli að fulltrúi flokks sem vill breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfunum sitji í ráðuneytinu sem fer með málaflokkanna. Stefnumörkun mun þar af leiðandi öll taka mið af því að landbúnaðarkerfið virki betur fyrir þá tvo hópa sem það á helst að vera til fyrir, bændur og neytendur. Milliliðir verða ekki lengur í forgrunni við mótun kerfisins. Í sjávarútvegi segir í stjórnarsáttmála að tryggja eigi „betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.“ Það er merkileg yfirlýsing og því hlýtur það að vera forgangsverkefni nýs ráðherra að ráðast í vinnu við að tryggja þjóðinni, eigendum auðlindarinnar, sanngjarnt og miklu hærra gjald fyrir nýtingu hennar samfélaginu öllu til heilla.
Í umhverfismálum eru risastór framfaraskref stigin, bæði með þeirri stefnumótun sem sett er fram í stjórnarsáttmála og ekki síður í því viðhorfi sem nýr ráðherra hefur sýnt á þeim dögum sem liðnir eru frá því að hún tók við embættinu. Stóriðjutímabili Íslandssögunnar er formlega lokið með því að skjalfest er að engir fleiri ívilnandi samningar verði gerðir við mengandi stóriðju, gera á aðgerðaráætlun í loftlagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið og koma á samræmdu kerfi grænna skatta sem feli í sér eðlilegar álögur á megnandi starfsemi. Skoða á möguleikann á samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um gerð „Borgarlínu“, sem yrði ekki einungis mesta almenningssamgönguúrbót sem ráðist hefur í heldur líka risastórt skref í átt að draga úr notkun einkabíla, og þar með mengun. Þá verður unnin sérstök áætlun um vernd miðhálendisins.
Mörg réttindamál í pípunum
Nýr félags- og jafnréttisráðherra fær nóg að gera við að framfylgja gríðarlega mörgum úrbótum á sínu sviði sem stjórnarsáttmálinn boðar. Þar ber til dæmis að nefna lögbindingu jafnlaunavottunar til að laga ólíðandi kynbundin launamun, aukin kraft í starfsendurhæfingu, upptaka starfsgetumats og hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum þannig að í því felist ekki kerfislæg mismunun milli kynja heldur hvatar til að auka fæðingartíðni, sem hefur ekki verið lægri frá því að mælingar hófust um miðja 19. öld. Þess er þó saknað að ekki sé staðfest í sáttmála að orlofið verði lengt í 12 mánuði, líkt og stefnt hefur verið á lengi. Þá á að gera þá löngu tímabæru réttarbót að börn geti átt lögheimili hjá báðum foreldrum búi þeir ekki saman.
Félagsmálaráðherrann fær líka í fangið neyðarástand á húsnæðismarkaði. Mikill skortur á framboði íbúðarhúsnæðis samhliða ótrúlegum uppgangi í ferðaþjónustu og síaukinni fjárfestingu pilsfaldarkapítalista í heimilum í þúsundatali hefur leitt til þess að húsnæðisverð hefur hækkað um 68 prósent frá miðju ári 2010. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 60,1 prósent frá byrjun árs 2011. Þessar hækkanir hafa gert það að verkum að sífellt stærri hópur glímir við bráðahúsnæðisvanda og mörg hundruð manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Í þessum málum þarf að grípa til róttækra aðgerða, enda frumforsenda í siðuðu samfélagi að fólk hafi þak yfir höfuðið fyrir viðráðanlegt verð.
Á sama tíma eru valdir hópar í samfélaginu að hagnast mjög á þessu aðstæðum, þ.e. þeir sem eiga húsnæði, sérstaklega eldra fólks. Í Efnahagsyfirliti VR, sem birt var í fyrradag, segir t.d. að á árunum 2007 til 2015 hafi eignir 67 ára og eldri aukist um tæp 58 prósent umfram eignir 30-34 ára. Eldri kynslóðir eru að eignast meira vegna aðstöðumunar gagnvart hinum yngri, sem eru í miklum vandræðum með að eignast eitthvað. Þetta er afleiðing af opinberri stefnu og aðgerðum, meðal annars hinna fjarstæðukenndu Leiðréttingu.
Fjármálaráðherra mun hafa nóg að finna leiðir til að fjármagna allt ofangreint og hjálpa Óttarri Proppé við að ráðast í stórsókn í heilbrigðismálum. Hann þarf að nota tækifærið fyrst að Hagstofa Íslands hefur verið færð undir hann til að stórauka hagtölugerð svo umræða geti byggt meira á staðreyndum og grundvöllur ákvörðunartöku geti verið betri. Þess utan ætlar hann að breyta peningastefnunni.
Vonandi verða þær breytingar til að bæta þau gölnu lánskjör og gengis- og hagsveiflur sem íslenskt launafólk þarf að búa við, en íslenskt stóreignafólk með eignir í skattaskjólum nýtir sér til að hagnast enn frekar á og sækja sér völd. Sá aðstöðumunur sem er á milli þorra Íslendinga sem tapar á gildandi kerfi, og fámennar yfirstéttar sem hagnast mjög á því, er eitt alvarlegasta þjóðarmeinið sem við glímum við. Réttindamálin verða varla stærri.
Traust vinnst með aðgerðum
Þeir sem kusu Viðreisn og Bjarta framtíð krefjast breytinga til batnaðar, að unnið verði að stórtækum úrbótum innan margra þeirra málaflokka sem flokkarnir tveir fara með og að almannahagsmunir verði hafðir að leiðarljósi við alla ákvörðunartöku. Það er ekki hægt að dæma flokkanna af fyrri verkum vegna þess að þeir hafa aldrei áður starfað á þessum vettvangi, þótt það megi gagnrýna þá báða með sanngjörnum hætti fyrir að hafa gefið óeðlilega mikið eftir við gerð stjórnarsáttmála.
En fyrst og síðast krefjast þeir kjósendur sem kusu ekki hefðbundnu valdaflokkanna að lögð verði áhersla á vönduð vinnubrögð, sem oft hefur skort verulega á. Að barist verði gegn fúski og sérhagsmunagæslu og fyrir opnari og gegnsærri stjórnsýslu þar sem réttur almennings til að vita trompar rétt stjórnmálamanna til þess að leyna.
Í stjórnarsáttmála segir að unnið verði að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum. Þetta á meðal annars að gera með því að bæta aðgengi að stjórnsýslu, stíga markviss skref í átt að opnun bókhalds ríkisins og með því að efla upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart almenningi.
Samkvæmt stefnuskrám eru Viðreisn og Björt framtíð mjög ólík Sjálfstæðisflokki. Nú reynir á að þessir flokkar sýni það í verki og verði fulltrúar þeirra sem vilja breytingar og umbætur í ríkisstjórn, á sama hátt og Sjálfstæðisflokkurinn er fulltrúi þeirra sem vilja sem minnstu breyta. Þannig eiga lýðræðisleg samfélög að virka og ef fleiri upplifa að tillit sé tekið til aðstæðna þeirra skapast meiri sátt í samfélaginu.
Með framvindunni verður fylgst mjög náið og fjölmiðlar munu veita sterkt og eftir atvikum gagnrýnið aðhald alla leið. Líkt og áður verður ekkert „fúsk“ liðið.
Yfir til ykkar. Gangi ykkur vel.