Deila sjómanna og útgerða er nú komin inn á borð Ríkissáttarsemjara, eins og kunnugt er, og virðist staða mála vera viðkvæm.
Ég benti á það á dögunum, að það væri eðlilegt að standa með sjómönnum í deilunni, og að útgerðirnar þyrftu nú að leysa deiluna með því að gefa frá sér örlítinn hluta af arðseminni. Meginkröfur sjómanna snúast um að útgerðin borgi aðstöðukostnað við vinnu, t.d. fatnað, internetkostnað, og fleira. Til viðbótar kemur síðan að skipta gróðanum með öðrum hætti, en þó er ekki um neinar dramatískar hugmyndir að ræða, eftir því sem gefið hefur verið upp.
Skaðinn af verkfallinu, sem staðið hefur frá 14. desember, er mjög mikill. Atvinnuleysi, vinnustöðvun, stopp á gjaldeyrisstreymi inn í okkar örsmáa hagkerfi og versnandi tengingar við alþjóðalega markaði. Svo fátt eitt sé nefnt. Skaðinn þegar reiknað er á verðmæti afla úr sjó er metinn á bilinu 500 til 700 milljónir á dag.
Eitt atriði ættu stjórnamálamenn að lögfesta sem allra fyrst. Það er að kröfur deiluaðila í málum, sem fara inn á borð Ríkissáttasemjara, séu strax birtar opinberlega. Þá falla öll tjöld niður og áróðursstríðinu lýkur. Upplýsingar liggja þá fyrir og auðveldara er fyrir almenning að glöggva sig á því um hvað er nákvæmlega deilt og hvaða hagsmuni er verið að takast á um.
Það er aðkallandi að þetta sér gert í þessari deilu. Það á ekki að setja fjölmiðlabann á neinn, heldur á þvert á móti að gera kröfu um að allar kröfur deiluaðila verði birtar, þegar fulltrúi skattgreiðanda í deilumálum, Ríkissáttasemjari, er kominn að borðinu og byrjaður að stýra viðræðunum.
Lausnin er því frekar að opna upp á gátt frekar og leggja öll spil á borðið, frekar en að skipa fólki að fara í fjölmiðlabann. Það kann ekki góðri lukku að stýra og endar yfirleitt í rifrildi um það hver rauf bannið. Samanber staðan eins og hún er núna.