Það er merkileg upplifun að kaupa sér lausasölulyf í lyfjaverslun á Íslandi. Engu er líkara en að maður sé kominn marga áratugi aftur í tímann.
Að standa fyrir framan búðarborðið og stynja upp hvaða tegund af gyllinæðarkremi, hausverkjatöflum eða súrmagalyfjum maður vill fá að kaupa minnir auðvitað mest á krambúðir danskra kaupmanna hérlendis á tímum einokunarverslunar. Að við séum ekki löngu búin að nútímavæða þetta er með ólíkindum.
Nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir mörgum áratugum síðan tekið þessi lyf og sett í hillur fram í búðinni þar sem menn geta sjálfir valið að eigin geðþótta í ró og næði án þess að þurfa að auglýsa það fyrir öðrum viðskiptavinum verslunarinnar að maður sé með súran maga eða einhvern annan þann smákvilla sem gjarnan þjakar nútímamanninn. Lyf sem keypt eru samkvæmt lyfseðli eru þó allavega í lokuðum poka svo fólk sem viðkvæmt er fyrir hnýsni náungans þurfi ekki að auglýsa hvaða kvilla það sé haldið.
Meira að segja Svíar sem eru líklega heimsmeistarar í forræðishyggju með sína „Socialstyrelse“ eru síðan fyrir fjöldamörgum áratugum komnir með lausasölulyf í sjálfval frammi í búðinni. Þeir skilja að lágmarks verslunarfrelsi eru mannréttindi.
Sú umræða sem nú á sér stað í fjölmiðlum og manna á meðal um hvort að lausasölulyf eigi að vera til sölu í almennum verslunum er í sjálfu sér athyglisverð. Ýmsir finna þeirri hugmynd til dæmis það til foráttu að þar muni vanta leiðsögn lyfjafræðinga. Það er að sjálfsögðu rétt, lyfjafræðingar starfa í apótekum en ekki í matvöruverslunum. Þó virðist það vera svo ef marka má fréttir að apótekin mættu taka sig á þegar kemur að upplýsingamiðlun til viðskiptavinanna.
Ég skora á forsvarsmenn lyfjabúða að snúa vörn sinni í sókn og fá reglugerðum breytt svo hægt verði að kaupa lausasölulyf í sjálfvali eins og hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Þeim er svo í lófa lagið að bæta ráðgjöfina með sínu góða starfsfólki úti á gólfinu meðal viðskiptavinanna.