Svona endaði sagan sem ég heyrði í Úganda í dag, rétt við landamæri Suður-Súdan. Hún fjallaði um ung hjón með sex mánaða gamalt barn. Þessi litla fjölskylda flýði stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu Suður-Súdan en þar hefur geisað borgarastyrjöld undanfarin ár.
En það voru fleiri sem flýðu. Bara á árinu 2016 flýðu tæplega hálf milljón manna til nágrannaríkisins Úganda. Sem betur fer hafa bæði stjórnvöld og íbúar Úganda tekið vel á móti nágrönnum sínum og reynt að búa þeim vel í haginn, en til þess að það sé hægt þarf utanaðkomandi stuðning.
Þegar Rauði krossinn á Íslandi ákvað að styðja við Rauða krossinn í Úganda í haust var því spáð að um áramótin yrðu líklega 40 þúsund flóttamenn í búðum sem heita Bidibibi og eru í norður Úganda. Sú spá fór fljótt í 100 þúsund. Í dag hafast þar hins vegar við 273 þúsund manns og búðirnar eru fullar enda orðnar næst stærstu flóttamannabúðir í heimi. Þá þurfti að opna aðrar búðir. Þar eru 100 þúsund manns og þær eru fullar. Og fleiri búðir eru á svæðinu. Þær eru líka fullar. Undirbúningur er hafinn við að opna enn fleiri búðir en vonandi fyllast þær ekki. Margir óttast að það gerist – og að það gerist hratt.
Það er eiginlega ekki hægt að lýsa aðstæðunum þar sem þær eru verstar. En ég ætla að reyna. Lítið vatn er í flóttamannabúðunum og þess vegna þarf að flytja gríðarlega mikið magn af vatni með trukkum fyrir íbúanna. Rauði krossinn framleiðir vatnið, meðal annars með því að dæla upp úr ánni Níl og hreinsa, alls um tvær milljónir lítra á dag. Og það er of lítið. Við ætlum í fjórar milljónir fljótlega. Salernis- og hreinlætisaðstaða er mjög takmörkuð sem eykur líkur á alls kyns niðurgangspestum og jafnvel kóleru og þetta er mikið malaríusvæði. Það er stundum ekki hægt að dreifa malaríunetum því fólk hefur ekki skjól, margir búa undir segldúkum sem haldið er uppi af nokkrum greinum sem eru hins vegar listilega vel settar saman. Hitinn er í kringum 35 stig og rokkar jafnvel yfir 40 gráður þegar heitast er. Ein máltíð á dag.
Svo þegar myrkrið kemur er ekkert annað er að húka undir dúknum, sofa og bíða eftir birtunni. Hjálpinni. Sem lætur lítið á sér kræla. Þá er vonin ein eftir, og það fjarar undan henni. Þetta er raunveruleiki fyrir tugþúsunda flóttamanna. Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir gera sitt besta en hafa ekki undan og fá ekki nægjanlegt fjármagn til að sinna fullnægjandi hjálparstarfi.
Litla fjölskyldan sem ég minntist á áðan var ein af þeim sem var á leiðinni að kynnast þessum aðstæðum í flóttamannabúðunum. Eftir að hafa flúið skelfilegt ofbeldi og sjálfsagt í áfalli eins og svo margir aðrir. Flúið heimaland sitt með sex mánaða gamla drenginn sinn á leið yfir í annað land þar sem þau eygðu von. En þegar þau voru að komast í „skjól“ gerðist svolítið. Litla sex mánaða gamla barnið varð móðurlaust. Hjarta móðurinnar hætti að slá og hún dó. Ég veit ekki af hverju. Hún bara dó. En eftir stóð faðirinn með sex mánaða gamalt barn – og á leið í flóttamannabúðirnar.
Utanríkisráðuneytið veitti Rauða krossinum 20 milljón króna framlag til að styðja við neyðaraðgerðirnar. Rauði krossinn ætlar að veita frekari stuðning til flóttafólksins.
Höfundur er sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs hjá Rauða krossinum á Íslandi