Auglýsing

Valdataka lýðskrumara víða um heim hefur á mjög skömmum tíma sett hlutina í nýtt samhengi. Ljóst er að fundin hefur verið leið til þess að virkja kraft þeirra sem upplifa sig fórnarlömb nútímalifnaðarhátta, telja sig ekki vera að njóta afraksturs þeirra, hræðast breytingar og kalla eftir einföldun lausnum á flóknum vandamálum. Í vegferðinni felst algjört skeytingarleysi fyrir sannleikanum og staðreyndum. Og þegar kafað er í skrumið kemur oftar en ekki í ljós að hagsmunirnir sem drífa það áfram eru í hróplegri andstöðu við þá hagsmuni sem látið er að liggja að séu í fyrirrúmi.

Þótt það sé erfitt að sjá það í fljótu bragði þá hefur þessi afturför líka jákvæðar hliðar. Ein þeirra er sú að fjölmiðlar, sem árum saman hafa háð mikla varnarbaráttu, eru að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Mikilvægi þeirra er að opinberast fyrir almenningi og hann er að átta sig á að leitin að sannleikanum innan um offramboð af steypu er mun auðveldari ef hæfir blaða- og fréttamenn eru að vinna að honum alla daga með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Stærstu rótgrónu fjölmiðlar hins enskumælandi heims – miðlar á borð við The New York Times, The Washington Post og The Guardian – hafa brugðist við þessari stöðu með því að leita til almennings um að styðja við stafrænan fréttaflutning sinn. Og það hefur leitt af sér þá stöðu að áskrifendum hefur fjölgað gríðarlega. Þeir sem borga fyrir þjónustu The New York Times hafa til að mynda aldrei verið fleiri. Og í hvert sinn sem Donald Trump kallar fjölmiðlafyrirtækið „The failing New York Times“ þá fjölgar áskrifendum.

Auglýsing

Skilaboðin eru skýr. Alvöru fréttir og staðreyndir skipta máli. Og þær kosta.

Hið óeðlilega ástand

Ástandið á íslenskum fjölmiðlamarkaði er mjög óeðlilegt. Nær öll einkarekin fjölmiðlafyrirtæki eru rekin með tapi ef leiðrétt er fyrir þeim sem annað hvort fjármagna sig með síaukinni skuldsetningu þar sem afskriftir eru tekjufærðar og þeim sem fá óbeina styrki frá völdum atvinnuvegum í gegnum auglýsingar í systur-syllumiðlum.

Stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins er 365 miðlar. Það félag, sem hét einu Rauðsól, keypti alla fjölmiðla „gamla“ 365 í nóvember 2008 á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku skulda. Gamla 365 ehf., sem var end­­ur­­nefnt Íslensk afþrey­ing ehf., fór í þrot og kröf­u­hafar þess töp­uðu 3,7 millj­­örðum króna. Á meðal kröfuhafa þess voru íslenskir lífeyrissjóðir og ríkisbankinn Landsbanki Íslands.

Þeir stjórnarmenn gamla 365 sem samþykktu snúninginn greiddu sjóði í eigu ríkisbankans Landsbanka Íslands óuppgefna upphæð fyrir að falla frá skaðabótamáli á hendur sér vegna þessa snúnings. Í málinu höfðu dómkvaddir mats­menn komist að þeirri nið­ur­stöðu að gamla 365 ehf. hefði verið ógjald­fært á þeim tíma sem fjöl­miðl­arnir voru seldir til Rauðsólar og því hefði átt að gefa félagið upp til gjald­þrota­skipta sam­kvæmt lög­um. 365 hefur því fengið að komast upp með að brjóta lög og borga sig frá afleiðingum þess, með tilheyrandi afleiðingum fyrir samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Hið opinbera hefur haft beina aðkomu að þessu ferli, t.d. með því að banki sem er að öllu leyti í eigu ríkisins heimilaði það.

365 miðlar töpuðu 1,4 milljarði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skattaskuld sem það hefur þegar verið dæmt til að greiða í rekstrarreikning 2015 hefði tapið verið 350 milljónir króna það árið. 365 skuldaði tíu milljarða króna í lok árs 2015 og þær skuldir hafa farið hratt vaxandi, sérstaklega eftir að félagið var endurfjármagnað hjá Arion banka haustið 2015, án sýnilegra viðskiptalegra forsendna.

Stærstu hluthafar fyrirtækisins, félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og aðilar þeim tengdum hafa mætt botnlausu tapi með hlutafjáraukningum úr aflandsfélögum. Í lok árs 2015 var til að mynda greiddar 550 milljónir króna úr slíkum inn í félagið fyrir nýtt hlutafé. Raunar er uppistaðan af eignarhaldi fyrirtækisins í gegnum aflandsfélög. Og skuggastjórnandi þess situr á sakamannabekk í hrunmáli.

Nú ætla stærstu lífeyrissjóðir landsins, að hluta til þeir sömu og töpuðu milljörðum króna á gjaldþroti gamla 365, að verðlauna sama fólk með því að gera það að stærstu einstaklingsfjárfestunum í Vodafone. Fjarskiptafyrirtæki sem LSR, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi eiga saman um þriðjung í. Lífeyrissjóðirnir eru að kaupa aftur eignirnar sem teknar voru af þeim í snúningi haustið 2008. Enn og aftur truflar það stjórnendur lífeyrissjóðanna lítið að strjúka kvalara sínum.

Næst stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins er Árvakur, sem gefur m.a. út Morgunblaðið og heldur úti mbl.is. Árvakur hefur tapað umtals­verðum fjár­hæðum á und­an­förnum árum. Rekstr­­ar­tap félags­­ins er að minnsta kosti 1,5 milljarði króna frá því að nýir eigendur tók við félaginu árið 2009. Sömu eigendur (96 prósent þeirra eru tengdir útgerðarfyrirtækjum) hafa sett að minnsta kosti 1,2 milljarða króna inn í félagið og fengið samtals 4,5 milljarða króna afskrifaða hjá Íslandsbanka, sem er nú í eigu ríkisins, í tveimur lotum.

Þriðja stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins er Pressan/Vefpressan, sem rekur ýmsa vefi, DV, sjónvarpsstöðina ÍNN, tímaritaútgáfuna Birting og allskonar svæðismiðla. Í ársreikningum má sjá að skuldir þess sexfölduðust á milli áranna 2013 og 2015 og stóðu í lok þess árs í 444 milljónum króna.

Engar upplýsingar eru aðgengilegar um hverjir það eru sem lána fyrirtækinu þetta fé, skráðir eigendur þess hafa ekki viljað upplýsa um það og Fjölmiðlanefnd telur sig ekki hafa heimildir til að krefjast þeirra upplýsinga.

Sérhagsmunir kaupa sér leið að almenningi

Ástæða þess að þetta er rifjað upp hér er til þess að skerpa á því hversu óeðlileg staða þessara þriggja fyrirtækja er á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Fyrir því má færa sterk rök að öll óeðlilegheitin í kringum rekstur, afskriftir og fjármögnun 365, afskriftir og meðgjöf útgerðar til Árvakurs og skuldafen Vefpressunnar sem enginn fær að vita hver stendur að baki, séu rót þess vanda sem íslenskur fjölmiðlamarkaður á við að etja.

Þessi þrjú fyrirtæki taka til sín þorra þeirra tekna sem eru í boði á íslenskum fjölmiðlamarkaði og þar af leiðandi súrefni frá fyrirtækjum sem eru að reyna að reka sig með eðlilegum hætti á rekstrarlegum forsendum. Til viðbótar tekur RÚV til sín risastóran skerf af auglýsingamarkaði, helstu fjármögnungarleið íslenskra fjölmiðla. Tekjur þessa ríkisrekna fyrirtækis af samkeppnisrekstri voru 2,9 milljarðar króna á árinu 2015. Fyrir þá upphæð mætti reka Kjarnann í sirka eina mannsævi.

Svo hafa sprottið upp fyrirbæri eins og skráði fjölmiðillinn Veggurinn.is. Hann er hluti af fyrirtækjasamsteypunni Markaðsmönnum sem sinnir einnig markaðsstörfum, ráðgjöf og vefumsjón, m.a. fyrir stjórnmálamenn og erlend stóriðjufyrirtæki. Það sem birtist á þeim miðli er oft á tíðum hreinn áróður og þá oftast í takti við málstað þeirra sem kaupa aðra þjónustu af samsteypunni.

Svona er staðan. Að baki öllum ofangreindum fyrirtækjum, að RÚV undanskildu, liggja sérhagsmunaöfl sem vilja hafa áhrif í gegnum miðlanna. Það er því miður staðreynd. Með því er ekki verið að segja að sú fjölmiðlun sem stunduð sé á miðlunum sé öll vegna sérhagsmuna. Því fer fjarri og á þeim vinnur fullt af stálheiðarlegu og færu fjölmiðlafólki sem vinnur frábært starf. En öll hafa sýnt af sér afbrigði sérhagsmunagæslu fyrir þá sem að baki þeim standa.

Það hefur meira að segja verið opinberað að eigendur Morgunblaðsins hafi sett sér pólitíska stefnuskrá sem pólitískir ritstjórar voru svo ráðnir til að fylgja. Sú pólitík og hagsmunagæsla hefur meðal annars birst skýrt í nýloknum kjaradeilum sjómanna og útvegsmanna. Hjá 365 eru dæmin um afskipti eigenda, og venslamanna þeirra, af ritstjórn og málum þar sem þeir sjálfir eru andlag frétta orðin svo mörg og þekkt að óþarfi er að telja þau öll upp. Um það má t.d. lesa hér og hér.

Hin barnalega en nauðsynlega hugsjón

Það eru brátt fjögur ár síðan að vinna Kjarnans hófst. Síðan þá höfum við reynt mismunandi útgáfuform, gert ótal mörg mistök og reynt að læra af þeim. Markmið okkar hefur hins vegar aldrei breyst. Við viljum upplýsa almenning um það sem er að gerast í samfélaginu og styðjast við staðreyndir, ekki tilfinningu, á meðan að við gerum það. Við viljum greina hlutina og setja þá í samhengi þannig að almenningur átti sig á mikilvægi þeirra og umfangi.

Við höfum notið stuðnings frábærra hluthafa á þessum tíma. Um er að ræða hóp sem er með mikla reynslu úr nýsköpunargeiranum hérlendis sem ákvað að takast á með okkur við það ótrúlega krefjandi verkefni að byggja upp stafrænan fjölmiðil sem leggur áherslu á umfjöllun um stjórnmál, efnahagsmál og viðskipti á ör- og fákeppnismarkaðnum Íslandi. Stuðningur þeirra hefur gert okkur kleift að byggja upp það sem við höfum nú í höndunum. Sterkt vörumerki sem nýtur trausts, sterkar dreifileiðir, mikilvægan lesendahóp og erindi í íslensku samfélagi. Þetta höfum við getað gert án þess að stofna til neinna skulda og án þess að sleppa því að greiða einn einasta reikning.

En skilaboð hluthafa hafa líka verið mjög skýr um að við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti. Markmiðið er alltaf sjálfbærni í rekstri, því ekkert tryggir betur sjálfstæði fjölmiðils en nákvæmlega það. Starfsfólkið hefur þess vegna unnið þrekvirki á fyrst engum, svo lágum launum árum saman. Það hefur gengið í öll störf sem þarf og fórnað ótrúlega mörgu, meðal annars fjölmörgum betur launaðri atvinnutækifærum, fyrir uppbyggingu Kjarnans.

Höfum gert gagn

Og við höfum gert hellings gagn. Við upplýstum um Borgunarmálið, eitt mesta viðskiptahneyksli Íslandssögunnar. Fyrir það fékk Magnús Halldórsson rannsóknarblaðamannaverðlaunin á síðasta ári. Við höfum gert úttektir um að karlar stjórni nær öllum peningum á Íslandi, fjallað ítarlega um menningarlegan rasisma sem hefur fest rætur hérlendis og skrifað meira en nokkur annar fjölmiðill um skiptingu gæðanna í samfélaginu okkar. Við höfum birt trúnaðargögn sem áttu skýrt erindi við almenning þrátt fyrir að eftirlitsstofnanir eða hagsmunaaðilar hafi hótað okkur kærum fyrir lögbrot sem fela í sér fangelsisdóma. Við höfum veitt stjórnvöldum skýrt og sterkt aðhald á fordæmalausum tímum þar sem fjölmiðlar sátu undir stanslausum ásökunum um loftárásir og óheiðarleika.

Við höfum krafist birtingar á skýrslum og upplýsingum sem reynt hefur verið að fela og síðan greint þær upplýsingar fyrir lesendur okkar. Við höfum fjallað mest allra fjölmiðla um aflandsfélög, eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum og fjárfestingaleið Seðlabankans sem leyfir þeim að koma með þær eignir heim á afslætti. Við höfum verið leiðandi í umfjöllun um húsnæðismál og haft það að leiðarljósi að skýra flókna stöðu þar fyrir lesendum. Við höfum lagt áherslu á nýjungar í fjölmiðlun á Íslandi á borð við morgunpóstinn okkar, Staðreyndavaktina, Kosningaspá, Þingsætaspá, Í beinni og Tíu staðreyndir. Svo fátt eitt sé nefnt.

Þú ræður

Forseti Bandaríkjanna sagði í gær á Twitter að gagnrýnir fjölmiðlar væru óvinir almennings. Sú staðhæfing kemur í kjölfar þess að fjölmiðlar hafa sýnt gríðarlega nauðsynlegt aðhald gagnvart þeim lygum og afbökunum sem einkennt hafa stjórnartíð hans. Við þekkjum sömu orðræðu hérlendis. Á síðasta kjörtímabili voru fjölmiðlar beinlínis skilgreindir sem óvinir ráðandi afla af þáverandi forsætisráðherra og hirðinni í kringum hann. 

Í þessu ljósi verður að skoða þá stöðu sem hefur teiknast upp á íslenskum fjölmiðlamarkaði eftir bankahrun, og rakin var hér á undan. Stöðu sem felur í sér að sérhagsmunaaðilum hefur verið leyft að sölsa undir sig nánast allan einkarekinn fjölmiðlamarkað samhliða því sem kerfisbundið hefur verið ráðist á RÚV til að grafa undan tilveru þess. Nauðsyn frjálsra og óháðra fjölmiðla hefur því líkast til aldrei verið meiri en nákvæmlega núna.

Á þeim tíma sem Kjarninn hefur verið til hefur engum tekist að tengja okkur við sérhagsmunagæslu með málflutningi sem á sér einhverja stoð í raunveruleikanum. Hægri menn kalla okkur vinstri miðil og vinstri menn kalla okkur hægri miðil. Það er í raun varla til sá merkimiði sem ekki hefur verið reynt að hengja á okkur. En þeir merkimiðar eiga það sameiginlegt að festast ekki, enda ómögulegt að rökstyðja ávirðingarnar með vísun í skrif okkar. Og það er kannski mesta hól sem við getum fengið.

Við erum ekki fullkomin. Við munum áfram gera mistök og reyna að læra af þeim. En við erum að þessu af hugsjón. Og við ætlum að halda áfram. Í ljósi þess ástands sem ríkir á íslenskum fjölmiðlamarkaði þá þurfum við á þeim sem við vinnum fyrir, þér, að halda til að geta vaxið. Annars verður sérhagsmunaöflunum, sem berjast fyrir eigin framgangi gegn almenningi, eftirlátið þetta mikilvæga svið. Þau eru mjög til í að borga fyrir það.

Hægt er að styrkja Kjarnann með því að ganga í Kjarnasamfélagið og greiða fast mánaðarlegt framlag til að efla starfsemi hans. Það gerir þú með því að smella hér.

Á endanum er það í höndum almennings að ákveða hvernig fjölmiðlaumhverfi hann vill.

Yfir til þín, takk fyrir stuðninginn og lesturinn hingað til.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Árni Jensson
Viðhorfskönnun Gallup – Trúmál
Kjarninn 18. september 2021
Jón Baldvin Hannibalsson
Land tækifæranna
Kjarninn 18. september 2021
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None