Hinn 25. febrúar síðastliðinn birti Warren Buffett, forstjóri Berkshire Hathaway og einn auðugasti maður heims, árlegt bréf sitt til hluthafa fyrir aðalfund.
Buffett er ólíkur mörgum öðrum forstjórum og forystumönnum í atvinnulífi í Bandaríkjunum að því leyti að hann rígheldur í gamlar hefðir og vill finna fyrir miklum aðhaldi frá hluthöfum, bæði stórum og litlum.
Í þessu bréfi leyfir hann sér að horfa yfir sviðið og meta hvernig landið liggur, hvað sé handan við hornið. Frá árinu 1965 hefur félagið þar sem Buffett stýrir málum einungis tvisvar skilaði neikvæðri ávöxtun. Á árinu 2001 (-6,2 prósent) og árið 2008 (-9,6 prósent). Öll hin árin er ávöxtunin á dreifðu eignasafni yfirleitt langt umfram markaðinn og að meðaltali er ávöxtunin um 15 prósent á ári.
Horfandi á stöðu mála héðan frá vesturströnd Bandaríkjanna, mitt í nær fordæmalausum deilum á hinu pólitíska sviði eftir kjör Donalds Trumps, þá er ekki hægt annað en að vera bjartsýnni á stöðu mála eftir þennan lestur.
Í stórum dráttum segir Buffett þetta:
- Við lifum á spennandi tímum þar sem miklir kraftar eru að koma úr pípunum hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, og ekkert mun hindra það að þau muni leiða tæknibreytingar komandi missera á heimsvísu.
- Buffett segir sveigjanleikann í bandaríska hagkerfi vera það sem mestu skiptir. Hagtölurnar sem nú blasa við í Bandaríkjunum hafi sjaldan verið betri, þegar kemur að atvinnuleysi, sköpun nýrra starfa og hagvexti. Hann sé ekki of mikill (1 til 2 prósent) en líklegt sé að hann aukist töluvert.
- Buffett segir við hluthafana að hugsa til þess hvað hafi áunnist í heiminum á undanförnum árum og áratugum. Aldrei hafi fleiri fengið tækifæri til betra lífs og mun færri búa við sára fátækt í heiminum en áður. Raunar er árangurinn þar með ólíkindum, og stelur ekki fyrirsögnunum.
Það sem Buffett gerði hins vegar ekki í bréfi sínu: minnast á stjórnmálin.
Þetta bréf Buffetts er ágætis áminning um það, að það er ekki gott að láta stjórnmálamenn vera fyrirmyndirnar þessi misserin. Ef eitthvað er þá eru þeir gjörsamlega að bregðast almenningi með ömurlegri móralskri rökræðu þar sem spilað er á lægstu hvatir í vinsældarbrölti. Margítrekuð della sem komið hefur frá Donald Trump, Nigel Farage í Frakklandi og Le Pen í Frakklandi - sem er svo leiðrétt jafn harðan með staðreyndum - eru kannski skýrustu dæmin um óþarfa neikvæðni og ranga forgangsröðun. En þau eru mun fleiri.
Það má líka nefna fleira sem fær mann til að efast um að horfa til stjórnmálamanna þegar kemur að fyrirmyndum. Til dæmis í umhverfismálum, en þeir hafa ekki náð að leiða fram nægilega miklar breytingar í þeim efnum. Þetta á við um Ísland og útlönd.
Þeir sem eru raunverulega að gera það sem máli skiptir eru frumkvöðlar. Þeir munu stuðla að orkuskiptum, alveg óháð því hvað stjórnmálamennirnir eru að segja og hversu svifaseinir þeir eru í sinni vinnu. Þrýstingurinn til góðra breytingar kemur þaðan en ekki frá stjórnmálastéttinni.
Ef fólk vill horfa á björtu hliðarnar þá þarf því miður að lækka niður í stjórnmálamönnunum og leita annað. Þeir eru í of mörgum tilvikum að draga upp aðra og verri mynd af heiminum en þörf er á. Hinn 86 ára gamli Buffett - sem þegar er að byrjaður að gefa frá sér nær allar eignir sínar í góðgerðar- og rannsóknarstarf eins og hann hefur opinberað - er gott dæmi um mann sem horfir yfirleitt á björtu hliðarnar og lætur gott af sér leiða.