Ég greip eintak af The Hindi þegar ég lenti á Kochi flugvelli. Á forsíðu blaðsins sagði að þann dag, 1. apríl síðastliðinn, hafi lög gengið í gildi á Indlandi sem banna sölu bjórs, víns og sterkra drykkja í verslunum, veitingahúsum og á hótelum í ákveðinni fjarlægð frá hraðbrautum landsins. Í umfjöllun á innsíðum voru tölur og töflur sem sýndu annars vegar samfélagsleg áhrif ölvunaraksturs en hins vegar efnahagsleg áhrif sem bannið er talið hafa á ferðaþjónustu og áfengisiðnað. Einnig var vitnað í ráðamenn sem sögðu að lýðheilsa vegi þyngra en viðskiptahagsmunir þegar teknar eru ákvarðanir um svo alvarleg mál. Ég staldraði við þessi ummæli enda óvön því að heiman að heilsa lýðsins sé tekin fram yfir hagsmuni viðskiptalífsins.
Bannað að drekka undir sjötugu!
Á Íslandi er hópur fólks sem talar fyrir breytingum á áfengislöggjöfinni og leggur ítrekað fram frumvörp þess efnis sem virðast þó ekki geta orðið að lögum. Stundum ímynda ég mér að söguskilningur þeirra sem vilja breytingar sé línulegur, að þeir haldi að í gamla daga hafi allt verið bannað en nú séu breyttir og betri tímar sem stefna stöðugt í frjálsræðisátt. Árþúsunda löng saga áfengisneyslu og tilrauna til að stemma stigu við henni er þó engan veginn svona einföld fremur en saga nokkurs annars fyrirbæris mannlegrar hegðunar. Sagan fer sífellt í hringi og endurtekur sig líkt og öldutoppur sem breytist í öldudal til að verða aftur að öldutoppi.
Áfengi var lengi talið guðsgjöf enda aðallega notað í tilbeiðslu- og lækningaskyni eða til almennrar neyslu á stöðum þar sem drykkjarvatn var ónothæft. Í tæplega níu þúsund ára langri sögu áfengra drykkja hefur margvíslegum takmörkunum verið beitt til að draga úr neyslu þeirra. Aztekar bönnuðu til dæmis fólki undir sjötugu að drekka gerjað pulpque og líklega hefur sú neyslustýring ekki verið að ástæðulausu! Á ýmsum tímabilum sögunnar hefur drykkjuskapur verið skelfilegt samfélagsmein og ekki er óþekkt að almenningur verði fórnarlamb þeirra sem græða á framleiðslunni.
Í byrjun nýaldar var óhemju magns af áfengi neytt um gjörvalla Evrópu. En sagan finnur alltaf ráð til að taka í taumana og breyta stefnunni. Drykkjuskapur minnkaði mjög með iðnbyltingunni og talið er að það hafi verið vegna þess að fólk gat ekki sinnt sérhæfðum störfum sífullt. Áður þótti synd í Evrópu að verða ölvaður en með iðnbyltingunni varð það ógn við framleiðni og hagvöxt, fyrirbæri sem flytjendum áfengisfrumvarpsins eru að góðu kunn. Á nítjándu öld urðu bindindishreyfingar sterkt pólitískt baráttuafl og greiddu meðal annars götu kvenna til samfélagslegra áhrifa.
Líklega eru það bannárin, sem voru hérlendis 1915-1935, sem vekja þá hugmynd að í gamla daga hafi allt verið bannað. Vissulega hefur bann við sölu og neyslu áfengis, sem og annarra vímuefna, ekki reynst happadrjúg aðferð til neyslustýringar en hins vegar höfum við hér á landi fundið fyrirtaks leið til að lágmarka skaðann sem áhjákvæmilega fylgir áfengisneyslu. Það vill svo vel til að stærstur hluti þjóðarinnar er ánægður með núverandi áfengislöggjöf.
Frelsi frá áfengi
Hugur minn var bundinn við áfengi daginn sem ég rak augun í umfjöllun The Hindi. Þann dag átti ég nefnilega fimm ára edrúafmæli og í edrúsamfélaginu er slíkum tímamótum fagnað með því að minnast gamla leiðindalífsins þegar sterkara afl en eigin vilji var við völd. Ég var hvorki í erfðafræðilegum né félagslegum áhættuhópi þegar ég missti tökin um fimmtugt heldur sötraði í mig sjúkdóminn í hvítvíninu með humrinum.
Eftir fimm ár í bata er ég nú stödd á Indlandi að rækta minn andlega garð og skapandi hliðar. Þessir viðkvæmu þættir fara fyrstir forgörðum þegar líkami og sál eru lögð í vínanda, jafnvel þótt hann sé af fínustu sort. Þegar ég losnaði úr viðjum vínandans og vandans varð ég fyrst um sinn afar upptekin af neyð þeirra sem eiga verulega um sárt að binda vegna eigin neyslu og annarra. Þótt ég væri komin á sextugsaldur hafði ég ekki þekkt nema af afspurn átakanlegar afleiðingar þessa viðurkennda vímuefnis. Í dag er hugur minn hins vegar meira hjá öðrum afar stórum hópi; öllum þeim sem lifa undir getumörkum bak við fínpússaða framhlið hversdagslífsins, þeim sem aldrei geta orðið verulega hamingjusamir né náð fullum árangri í lífi og starfi vegna þess að orkan fer í drykkjuna og feluleikinn sem henni fylgir. Rannsóknir sýna að fyrirhugaðar breytingar muni auka enn ógæfu þessa hóps en jafnframt að rýmkun á aðgengi eykur alltaf vandann mest þar sem hann er verstur.
Tölfræði og tilfinningar
Eftir klukkutíma dvöl á Indlandi hafði ég með lestri dagblaðs fengið gleggri tölfræðilega mynd af afleiðingum breytinga á áfengislöggjöf en ég hef fengið í endalausri umræðunni heima. Í fyrra skrifaði ég grein í Kjarnann í tilefni þáverandi frumvarps og síðan hef ég ítrekað lent í því að ókunnugt fólk leitar til mín eftir tölfræðilegum gögnum um áfengisneyslu. Á því sviði er ég enginn sérfræðingur enda langar mig meira til að varpa tilfinningalegu ljósi á vandann en tölfræðilegu. Ég bendi fólki samt á þann fróðleiksbrunn sem er að finna í athugasemdum við frumvörpin á vef Alþingis, fróðleik sem ég sé sjaldan flíkað í almennri umræðu. Má þar nefna rannsóknir Hildigunnar Ólafsdóttur, afbrotafræðings, sem stundað hefur áfengisrannsóknir frá árinu 1972 og skoðað sérstaklega erlendar rannsóknir um áhrif einkavæðingar á sölu áfengis. Helstu niðurstöður Hildigunnar eru þær að nær allar rannsóknir sýni að áfengisneysla vex með einkavæðingu. Annaðhvort hafa flutningsmenn frumvarpanna ekki kynnt sér málið eða þeim er sama. Mér finnst ég höfð að fífli.
Ég hef á tilfinningunni að þeir sem vilja breytingar á áfengislöggjöfinni haldi að skerðingar á aðgengi séu aðeins þekktar á Norðurlöndum auk Arabalandanna. Svo er auðvitað ekki heldur gilda margvísleg lög og reglur víða um heim eins og einnig kemur fram í rannsóknum Hildigunnar. Í Washington-fylki Bandaríkjanna var sala áfengis til dæmis ekki einkavædd fyrr en árið 2012 eftir atkvæðagreiðslu árið 2011. Í könnun sem gerð var tveimur árum síðar kom í ljós að íbúar hefðu ekki kosið einkavæðingu aftur yfir sig að fenginni reynslu. Ástæðan sem flestir gáfu upp fyrir breyttri afstöðu var sú að þeir vildu ekki hafa áfengi stöðugt fyrir augunum. Fólk vill frelsi frá áfengi.
Víðtæk áhrif vínsins
Áður en ég fór til Indlands heimsótti mig sænsk vinkona, Lillemor, sem ákvað að koma til Íslands af því að hún þekkti engan annan en mig sem talar opinskátt um alkóhólisma. Svíar eru ekki eins duglegir við það og Íslendingar. Lillemor er á áttræðisaldri en nýlega ákvað hún að hún vildi ekki lengur vera í hlutverki litlu mömmunnar og yfirgaf drykkfelldan lífsförunaut sinn. Hún hafði þó ekki áttað sig á því fyrr en hún var laus úr aðstæðunum hvað Bakkus hafði breytt persónuleika hennar þótt sjálf hafi hún ekki smakkað vín í áratugi. Íslenska edrúsamfélagið, hulduher alkóhólista og aðstandenda, umvafði Lillemor skilningi og vakti hana til vitundar um að drykkjuvandi fyrrverandi maka stjórnar ennþá lífi hennar. Daginn sem ég lenti í Kochi fékk ég skilaboð frá Lillemor. Hún vildi láta mig vita að hún hefði leitað sér hjálpar í heimalandinu. Áfengi hefur víðtækari áhrif en margan grunar.
Svo virðist sem tvær staðreyndir um áfengisneyslu séu fólki yfirleitt ekki kunnar. Önnur er sú að Íslendingar drekka minna en nágrannaþjóðirnar og áfengistengdir sjúkdómar aðrir en alkóhólismi eru tiltölulega óalgengir hér. Sláandi dæmi um það er tíðni skorpulifrar á Íslandi og í Danmörku. Hérlendis greinast þrjú tilvik á hverja hundrað þúsund íbúa en í Danmörku eru þau tuttugu og sex. Erfitt hefur reynst að afsanna að ekki séu bein tengsl á milli tíðni skorpulifrar og fyrirkomulags áfengisútsölu en í Danmörku er áfengi sem kunnugt er selt í matvöruverslunum.
Hin er sú að Ísland er eitt þeirra landa þar sem neysla fer vaxandi (sjá töflu á bls.10). Sala áfengis jókst í góðærinu, dróst saman við hrunið en vex nú aftur með batnandi hag og fleiri neytendum. Vaxandi neyslu fylgja alltaf kröfur um lægra verð og betra aðgengi sem aftur leiðir til aukinnar neyslu. Það væri verulega vanhugsað að leggja niður fyrirkomulag sem vitað er að lágmarkar skaðann. Fyrir því hef ég ekki séð önnur rök en að halda þurfi áfengi til Haga. Og Cosco. Vissulega eru viðskipti heilbrigt hreyfiafl en í þessu tilviki er stefnt að setningu laga til höfuðs lýðheilsu. Heill, hamingju og heilsu þjóðar er fórnað fyrir þrönga hagsmuni. Viljum við lúta stjórn Mammons og Bakkusar?
Veljum frelsið
Satt að segja veit ég ekki af hverju ég er að eyða tíma mínum hér í mildu mannlífinu undir Indíasól þar sem fólk virðist hugsa til sín heilsu og anda að sér jafnvægi í að skrifa aðra grein um áfengisfrumvarpið. Ég held að hennar sé ekki þörf af því að frumvarpið verður aldrei að lögum. Samþykki Alþingi það hljóta þau tæplega áttatíu og sjö þúsund sem skrifuðu undir bænaskjal um endurreisn heilbrigðiskerfisins að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að vitað er að fátt holar það kerfi meira að innan en aukin áfengisneysla. Ég skrifa því ekki þessa grein af því að ég hafi áhyggjur af frumvarpinu sem vill ekki verða að lögum, ég skrifa hana frekar til að hvetja til enn opnari umræðu um afleiðingar alkóhólisma. Í sögum okkar býr lausn og bati en líka forvarnir. Sögurnar eru lykill að heilbrigðara samfélagi. Segjum þær.