Það eru mjög áþreifanleg umskipti í íslenskri tónlistarmenningu um þessar mundir. Hip hop hefur hertekið Reykjavík og krúttkynslóðin hörfar undan. Eru þetta kynslóðaskipti? Eru allir sem kunna á hljóðfæri farnir að vinna á skrifstofu til að sjá fyrir fjölskyldum sínum á meðan ungdómurinn fær útrás fyrir sýniþörf sína með því að klæða sig úr að ofan, ýta á play á tölvunni sinni og hoppa um sviðið með autotune á röddinni?
Ég hef mjög gaman að hip hoppi. (Ég hef meira að segja oft hoppað um ber ofan með autotune á röddinni). Mér finnst líka frábært að maður þurfi ekki endilega að hafa lært á hljóðfæri eða kunna að syngja til að geta tekið þátt. Að því leitinu til er hip hop mjög opin tónlistarstefna. Það sem truflar mig hinsvegar við þessa stefnu er viðhorfið í kringum hana. Í íslensku hip hoppi þykir mjög kúl að skilja útundan og aðeins sérvalið lið fær að vera með í „crewinu“ eins og kristallast í lögum á borð við Þér er ekki boðið með XXX Rottweiler hundum og Bara ég og strákarnir með Emmsjé Gauta. Þá er einum hópi umfram öðrum alls ekki boðið: stelpum.
Í fráfarandi krúttkynslóð voru stelpur mun sýnilegri: Emilíana Torrini, múm, Ólöf Arnalds, Seabear, Sóley, Pascal Pinon og fleiri. Stelpur voru í víglínunni sem hæfileikaríkir tón-og textasmiðir sem höfðu eitthvað að segja. Krúttkynslóðin bauð einnig nördum og þeim sem voru öðruvísi opinn faðminn. Það var ómetanlegt fyrir fimmtán ára, feimna stelpu sem passaði ekki inn í hópinn í grunnskóla að eiga fyrirmyndir eins og þessar. En nú er öldin önnur. Í stað þess að klæðast furðulegum heimasaumuðum flíkum úr munstruðum gardínum eða einhverju sem þú fannst í Rauðakrossbúðinni þá skulu allir gjöra svo vel og ganga í Adidas.
Aftur að stelpum. Smá tölfræði. Af þeim 162 tónlistarmönnum sem munu spila á hátíðinni Secret Solstice í sumar eru sextán konur á móti hundrað fjörutíu og fimm körlum. Það eru rúmlega níu sinnum fleiri karlar en konur. Af þeim fjörtíu og fimm sem komu fram á þjóðhátíð í fyrra voru aðeins þrjár konur. Það eru fimmtán sinnum fleiri karlar en konur. Á nýafstaðinni AK-Extreme hátíð á Akureyri var hljómsveit með stelpum að spila sama kvöld og fimm strákahljómsveitir. Emmsjé Gauti endaði svo kvöldið á því að bjóða öllum strákunum sem höfðu spilað um kvöldið að koma upp á svið og taka þátt í laginu Bara ég og strákarnir. Stelpurnar sem höfðu spilað um kvöldið fengu að horfa á úr áhorfendaskaranum á meðan allir hinir fóru upp á svið að fagna. Þeim var ekki boðið.
Ný kynslóð hiphopmenningar í Reykjavík færir okkur allskyns skemmtilega tónlist, en hún færir okkur líka marga áratugi aftur í tímann hvað varðar stöðu kvenna í tónlist. Iceland Airwaves á hrós skilið fyrir fjölbreytt úrval hljómsveita á hátíðinni en ég skora á aðra skipuleggjendur tónlistarhátíða að vera meðvitaðri næst þegar verið er að bóka hljómsveitir á hátíðina. Ég skora á fjölmiðla að fjalla meira um íslenskar tónlistarkonur, fá þær í viðtöl og spila þær oftar í útvarpinu. Ég skora á almenning að kynna sér íslenskar tónlistarkonur og mæta á tónleika hjá þeim. Við eigum óteljandi hæfileikaríkar tónlistarkonur sem eru jafnvel brjálæðislega frægar erlendis, en það er varla talað um þær hér heima.
Sunna Axels vinkona mín benti mér á það nýverið að strákarnir í íslensku senunni eru
búnir að fatta að með því að styðja við bakið á hver öðrum mun þeim sjálfum ganga
betur. Getur verið að stelpur eigi það aftur á móti til að verða afbrýðissamar þegar
stöllum þeirra gengur vel? Og ef svo er, gæti það stafað af því að það sé ekki pláss fyrir
jafn margar stelpur í bransanum? Að það sé bara pláss fyrir einn stóran kvenkyns
plötusnúð í einu, einn kvenkyns grafískan hönnuð, einn kvenkyns rappara o.s.frv? Ef
svo er þá munum aldrei breyta því nema með því að standa saman. Ég hvet allar
stelpur til að vera duglegri að styðja við bakið á hvor annarri. Mæta á tónleika hjá hver
annarri, fara í samstarf við hver aðra og peppa hver aðra á samfélagsmiðlum. Hjálpum
hver annarri að skapa tækifæri. Og strákar þið megið líka vera með.