Mikið hefur verið rætt um áreitið frá samfélagsmiðlum og þá gjarnan unglinga í sömu andrá. Unglingarnir eru orðnir eins konar fangar snjalltækisins, þykja vart viðræðuhæfir því þeir eru öllum stundum með höfuðið ofan í símanum. Öll samskipti þeirra á milli fara að mestu í gegnum Snapchat. Þá verður „rétta“ mómentið að nást á Snapchat, og „rétta“ myndin verður að birtast á Facebook, á nákvæmlega „réttu“ augnabliki svo nógu mörg læk detti í hús. Ef lækin eru ekki nógu mörg, er myndin gjarnan fjarlægð, því fá læk geta verið merki um að þú sért ekki nógu vinamörg/margur og ekki nógu falleg/ur eða vinsæl/l.
Rannsóknirnar Ungt fólk sem unnar eru af Rannsóknum og greiningu (R&G) sýna að kvíði meðal unglingsstúlkna í efri bekkjum grunnskóla hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2000 og vaxið verulega frá árinu 2009. Í nýjum gögnum sem sýna stöðu ungs fólk í framhaldsskóla (16-20 ára) og einstaklinga á sama aldri utan hans, má sjá sömu vísbendingar. Ungt fólk sýnir aukin kvíða- og þunglyndiseinkenni og þá sérstaklega stúlkur.
Það hefur verið sýnt fram á að aukinn kvíði, tengist mikilli notkun samfélagsmiðla. Að sama skapi virðast stúlkur líka eyða meiri tíma á samfélagsmiðlum en drengir, en þrjár af hverjum tíu stúlkum á unglingastigi í grunnskóla, verja fjórum klukkustundum eða meira á samfélagsmiðlum á dag. Drengirnir eru tvöfalt færri. Þá sýna rannsóknir einnig að tengsl eru á milli mikillar samfélagsmiðlanotkunar, lítils svefns og aukinna kvíða- og þunglyndiseinkenna. Þeir sem eyða meira en sex klukkustundum á dag á samfélagsmiðlum, sofa einnig minna. Þá sýna sömu rannsóknir einnig að 40 prósent þeirra stúlkna sem sofa minna en sex klukkustundir á sólarhring eru taugaóstyrkar. Samkvæmt viðmiðum frá embætti landlæknis, þurfa unglingar um níu tíma (óraskaðan) svefn og það er vitað að lengd og gæði svefns hefur m.a. áhrif á námsgetu og minni. Það er því mikilvægt að fyrirbyggja langvarandi svefnskuld hjá unglingum, því það að leggja sig á daginn kemur ekki í staðinn fyrir tapaðan nætursvefn.
En hvers vegna sýna þeir einstaklingar sem eru mikið á samfélagsmiðlum meiri einkenni kvíða en hinir sem eyða minni tíma þar? Gæti möguleg skýring verið stanslaus félagslegur samanburður við glanslíf og glansmyndir annarra þar sem verið er að bera sig saman við óraunsæjar myndir sem segja aldrei nema hálfa söguna um líf einstaklinganna, sem í hlut eiga? Þá er einnig pressan að eiga alla hluti mikil og viðurkenningin (t.d. læk á myndina) verður að koma strax! Eins er það persónuleg móðgun og hreinn dónaskapur að „seen-a“ fólk. Það er óskrifuð regla að svara skilaboðum Facebook og Snapchat um leið og þú sérð þau! Unglingsárin eru viðkvæmt tímabil, þar sem sjálfsmyndin er að mótast og hormónar taka gjarnan völdin. Það getur því reynst erfitt og jafnvel kvíðvænlegt að lifa í stöðugum samanburði við, að því er virðist, líf annarra.
Ég er móðir tveggja stúlkna, önnur þeirra er unglingur. Af þeim ástæðum reyni ég að fylgjast með hvað er í gangi á samfélagsmiðlum. Ég viðurkenni að ég stundum hugsi yfir sumum myndbirtingum unglinganna. Á myndunum sem um ræðir eru fáklæddir unglingar, í ögrandi stellingum sem er í hrópandi ósamræmi við ungan aldur þeirra. Er tilgangurinn sá að hafa myndina nógu kynferðislega og vera nógu fáklæddur svo lækin verði fleiri? Öll speglum við okkur á einhvern hátt í umhverfinu og sækjumst líka flest eftir viðurkenningu og hrósi. Vonbrigðin geta orðið mikil ef lækin eru fá, jafnvel svo mikil að sjálfsmyndin bíður hnekki. Viljum við að sjálfsmynd unglinganna okkar mótist að miklu leyti af því að fá hrós og viðurkenningu á samfélagsmiðlum og að þau gangi eins langt og þörf er á, til þess að uppskera það? Eru þeir þá ekki að að byggja virði sitt og sjálfmynd á röngum viðmiðum og gildum? Viljum við samþykkja að þau séu með lífið í beinni á samfélagsmiðlum og að þau geri engan greinarmun á því hvað er viðeigandi og hvað ekki? En svo er alltaf spurning, hvað hverjum og einum finnst yfirhöfuð viðeigandi? Það er ekki hollt fyrir nokkurn einstakling að eiga of mikið undir hrósi og athygli annarra komið og hvernig getur slík pressa og samanburður valdið öðru en kvíða og óöryggi?
Tæknin er ekki að fara neitt, enda er hún sem slík enginn óvinur og í henni felast vissulega margir kostir. Margoft hefur verið bent á og ítrekað við foreldra að fylgjast með netnotkun barna sinna, tímanum sem eytt er á samfélagsmiðlum/á netinu, myndbirtingum og öðru þeim tengdu. Þá eru foreldrar einnig hvattir til að fræða þau um það vafasama sem leynist í netheimum. Á sama tíma höfum við sem eldri erum, líka þurft að læra að lifa með snjalltækninni og samfélagsmiðlum og ákveða hvernig við ætlum að bera okkur að þar.
Af einhverjum ástæðum er aukin vanlíðan hjá unga fólkinu okkar. Aukinn kvíði og vanlíðan ungra stúlkna er verulegt áhyggjuefni og við verðum að veita því athygli og bregðast við. Ástæðan er aldrei svo einföld að hægt sé að skella henni á eitthvað eitt umfram annað, en svona miklar breytingar á stuttum tíma hljóta að benda til þess að eitthvað í umhverfinu hafi breyst. Sem liður í slíkri vakningu, þá gætum við foreldrar kannski verið betri fyrirmyndir og eytt sjálf minni tíma á samfélagsmiðlum að safna lækum. Við ættum ef til vill að slökkva stundum á símanum og bara vera á staðnum?