Ég er ung kona sem hef verið í íþróttum síðan ég man eftir mér. Núna hef ég verið að iðka handknattleik í nokkur ár og hef verið að spila með nokkrum mismunandi félögum á ferlinum mínum. Og það sem vekur mikla athygli hjá mér, er það að enn árið 2017 ríkir misrétti á milli kynjanna í handknattleik.
Ég er femínisti og vil að það sé jafn réttur í bæði karlaliðinu og kvennaliðinu. Í öllum þremur félögum sem ég hef spilað með finn ég kynjamun, sem er bara alls ekki í lagi. Reynslan mín af liði sem ég spilaði með í vetur fyllti mælinn og verð ég því að tjá skoðun mína.
Ég er orðin svo þreytt á því að það sé bara horft á karlmenn sem eiga framtíðina fyrir sér, jújú auðvitað eru nokkrar stelpur sem fara í atvinnumennsku eins og strákar. En þær þurfa líka að leggja sig mikið meira fram og þurfa að koma sér á framfæri. Þegar við erum í unglingaflokki er strax byrjað að spá í efnilegum strákum, hverjir gætu átt möguleika í atvinnumennsku, og er haldið vel utan um þá einstaklinga. Sumar stelpur sem eru í unglingalandsliðum yngri flokka eru ekki einu sinni skoðaðar og teknar til umhugsunar í atvinnumennsku.
Ég ætla koma með dæmi. Árshátíð liðsins var haldin, karlar fengu frítt inn á hana en ekki konur, af hverju? Jú, vegna þess að þeim gengur vel í deildinni en ekki okkur. Við þurfum að halda fjáraflanir til þess að borga fyrir þjálfarann okkar til að við getum haft meistaraflokk. Ég sé ekki fyrir mér meistaraflokk karla selja klósettpappír fyrir laun þjálfara. Og svona gæti ég haldið endalaust áfram. Af hverju viðgengst þessi mismunun kynjanna innan íþróttafélaga? Ég vona allavega að þetta fari að breytast svo við konur getum líka blómstrað eins og karlar í handbolta.