Í dag kom fram enn ein hugmyndin um tæknilega leið fyrir konur til að forðast það að karlar nauðgi þeim. Hún er vond, rétt eins og allar hinar.
TL;DR
Það felst í því frelsi og ómetanleg lífsgæði að vera ekki hrædd þótt þú vitir af ógninni. Og með því að finna upp svona tæki og prómótera þau erum við að gera eftirfarandi:
- Veita falskt öryggi.
- Velta ábyrgðinni af gerendum yfir á þolendur.
- Segja konum að þær eigi að passa sig.
- Segja konum að þær beri ábyrgð á að vera ekki nauðgað.
- Segja konum að þær eigi að vera hræddar.
- Í hnotskurn að normalísera ofbeldi karla gegn konum; að segja að ofbeldið sé partur af menningunni og við getum ekki breytt því en við getum varið okkur.
Hugmyndin um límmiða sem stoppa nauðgun er í eðli sínu slæm. Alveg eins og allar hinar hugmyndirnar sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur undanfarin ár um klaka og varaliti og naglalökk og allskonar. Við eigum ekki að senda konum þau skilaboð að þær geti komið í veg fyrir að vera beittar kynferðisofbeldi. Við eigum ekki heldur að senda konum þau skilaboð að það sé í þeirra verkahring að koma í veg fyrir að verða beittar kynferðisofbeldi.
Faraldurinn sem er ofbeldi karla gegn konum er samfélagslegt vandamál sem þarf að tækla með samfélagslegum úrræðum en ekki tæknilegum.
Markaðssetning á tækjum og tólum sem eru hugsuð til þess að konur geti varið sig fyrir kynferðisofbeldi er hættuleg. Framboðið eitt og sér á slíkum vörum er skaðlegt konum. Þegar markaðurinn er orðinn fullur af ísmolum, prikum, naglalökkum og límmiðum sem konur „mega“ nota og „geta“ notað, þá er orðið mjög stutt í að við förum að spyrja spurningarinnar: „af hverju notaði hún það ekki?“
Það er ekki heilbrigt og það skerðir lífsgæði kvenna að vera í sífellu að gera ráðstafanir til að forðast kynferðisofbeldi. Ef slíkar ráðstafanir eru bara eðlilegar, hvar drögum við mörkin? Tennti smokkurinn, var hann góð hugmynd? Hvað með að vera bara alltaf heima? Sleppa því algjörlega að drekka áfengi?
Á persónulegum nótum: Ég geri mjög lítið af ráðstöfunum til að forðast kynferðisofbeldi miðað við margar kynsystur mínar. Ég skil glasið mitt eftir á allskonar stöðum, ég er stundum ein og drukkin úti eftir myrkur (þó aldrei óhrædd), ég klæði mig nákvæmlega eins og mér sýnist og ég haga mér nokkurn veginn nákvæmlega eins og mér sýnist. Því fylgir svo gríðarleg frelsistilfinning að átta sig á því að kona getur kosið að lifa lífinu án þess að vera sífellt að passa sig.
Þetta er eitthvað sem karlar þekkja venjulega ekki, enda þekkja þeir óttann við kynferðisofbeldi ekki eins og konur gera. En það er ótrúlega frelsandi þegar kona fattar að hún má og getur hagað sér eins og hún kýs og ótti og varúðarráðstafanir munu ekki koma í veg fyrir að hún verði beitt ofbeldi nema að vera tekin svo langt að það svipti hana öllum lífsgæðum.
Framboð á svona vörum gerir miklu miklu meiri skaða en gagn. Það sendir þau skilaboð til kvenna að þær eigi að vera að passa sig. Og það eykur á sjálfsásakanir og samviskubit kvenna sem passa sig ekki eða ekki nógu vel og verða fyrir ofbeldi. Jafnvel konurnar sem passa sig og verða samt fyrir ofbeldi upplifa endalausar sjálfsásakanir vegna þess að þær pössuðu sig greinilega ekki nóg. Þessar hugmyndir eru alveg nægilega háværar og útbreiddar í samfélaginu. Það er engin þörf á að bæta þar á.