Sú mikla kúvending sem orðið hefur á stöðu þjóðarbússins á undanförnum árum er nú farin að renna upp fyrir mörgum sem hrein ógn við stöðugleika í hagkerfinu.
Það er ekki af ástæðulausu. Gengi krónunnar hefur styrkst hratt og augljóst að það mikla gjaldeyrisinnstreymi sem fylgt hefur miklum vexti í ferðaþjónustu er grunnástæðan að baki þessari þróun.
Bandaríkjadalur kostar nú um 100 krónur, evran 111 krónur og pundið 130. Fyrir innan við tveimur árum var allt annað uppi á teningnum: Bandaríkjadalur á 140 krónur, evran á 150 og pundið á 206 krónur, en dramatískar breytingar hafa orðið á stöðu pundsins gagnvart alþjóðlegum myntum eftir Brexit kosninguna í júní í fyrra.
Hálaunastörf?
Sé rýnt í tölur Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnunar þá má glögglega sjá hvar hinn mikli vöxtur hefur verið í hagkerfinu á undanförnum misserum. Störfin sem verða til eru nær öll í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Í ljósi hins breytta gengisveruleika eru flest störf á Íslandi „hálaunastörf“ í alþjóðlegum samanburði.
Þetta minnir á það þegar Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hóf að skrifa greinar um að íslenskar landbúnaðarafurðir væru ódýrar í samanburði við stöðuna í Evrópu. Það þurfti hrun í fjármálakerfinu, neyðarlög, frjálst fall krónunnar og fjármagnshöft, til að skapa þann veruleika sem hann lýsti.
Stjórnmálamenn á Íslandi hafi valið að endurskoða ekki peningastefnuna, til þessa, á þessum tæpa áratug sem liðinn er frá því að Íslandi beitti neyðarrétti - eitt þróaðra ríkja í heiminum - til að bjarga fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Ef honum hefði ekki verið beitt þá hefði orðið efnahagslegt altþjón, að öllum líkindum.
Inngrip ríkisvaldsins
Í skjóli þessara ótrúlegu aðgerða - sem margir þeirra sem tala stundum fyrir því að frjáls markaður geti staðið óstuddur gleyma að nefna - var íslenskur efnahagur reistur við. Þetta voru mestu forréttindi í Íslandssögunni, án nokkurs vafa. Það voru forréttindi að geta gripið til þessara aðgerða, því engin önnur þjóð í heiminum gat það.
Einn fylgifiskur þessara risavöxnu ríkisaðgerða til að rétta af „frjálsan markað“ virðist hafa verið sá að stjórnmálamenn hafa komist upp með að endurskoða ekki undirliggjandi peningakerfi þjóðarinnar, sjálfa uppsprettu rússíbanareiðarinnar.
Stjórnmálamenn þakka sjálfum sér
Þeir þakka sér oft fyrir allt sem gott er og flagga oftar en ekki upplýsingum um að Ísland sé best í heimi í svo til öllum þáttum sem hægt er að mæla, einkum og sér í lagi þegar örsamfélagið okkar er borið saman við stórþjóðir út í heimi og gengið hagstætt til samanburðar.
Núna er nefnd að störfum fyrir ríkisstjórnina sem er að vega og meta til hvaða bragðs er hægt að taka, til að styrkja peningastefnuna, en í ljósi reynslunnar hlýtur almenningur að stilla væntingum í hóf. Ekki vegna þess að nefndin muni ekki fjalla um það sem máli skiptir, heldur fyrst og síðast vegna þess að stjórnmálamenn eru ólíklegir til mikilla breytinga. Meiningarmunurinn milli Sjálfstæðisflokksins annars vegar, og síðan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar, er augljós öllum. Á meðan aðeins eins mann meirihluti er fyrir hendi þá er óbreytt eða lítið breytt kerfi langsamlega líklegasta niðurstaðan. Við það getur Sjálfstæðisflokkurinn sætt sig, en ekki hinir flokkarnir tveir.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, virðist vera sá ráðherra í ríkisstjórninni sem áttar sig einna best á þessum hlutum, enda hefur hann árum saman talað fyrir því að Ísland marki sér nýja stöðu í alþjóðavæddum heimi. Nú er tækifæri fyrir hann og flokkinn að taka þátt í bardaganum um krónuna, og hvort hún eigi að vera það sem komandi kynslóðir búa við.
Ég lít svo á að Björt framtíð og Viðreisn eigi framtíð sína undir því að ná fram einhverju af sínum helstu stefnumálum í þessari vinnu. Myntráð er þar einn möguleiki, sem var yfirlýst stefnumál Viðreisnar. En líklega koma líka fleiri hlutir til greina, eins og einhliða upptaka annarrar myntar, en aðstæður til að framkvæma slíkt hafa aldrei verið betri en núna, með stóran gjaldeyrisforða og betri aðstæður þegar kemur að skuldsetningu og fleiru, en oft áður.
Þá færi fram rökræða um hvernig væri best að stilla af gengið við slík skipti. Þetta er vel hægt, eins og dæmin sanna, og Seðlabankinn hefur sjálfur rakið ágætlega í ítarlegri skýrslu sinni um valkosti í peningamálum. En við þetta færi peningaprentunarvopnið og sjálfstjórn á stöðu mála, þegar vandamál kæmu upp, úr vopnabúrinu.
Falskur veruleiki
Þetta eru ekki einföld mál. En það ætti samt að vekja stjórnmálamenn til umhugsunar, að tal þeirra um að lækkun vaxta sé lykilatriðið við að bregðast við styrkingu krónunnar, virðist ekki eiga við nein rök að styðjast. Að litlu leyti hafa vextirnir áhrif á gengið, við núverandi aðstæður, eins og vaxtalækkunin nú síðast ( úr 5 í 4,75 prósent) sýnir glögglega. Vaxtamunarviðskipti eru lítil sem engin, skuldsetning erlendis lítil en innflæðið er stöðugt. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 155 milljarða í fyrra, og hann hefur verið mikill það sem af er þessu ári einnig. Þrýstingurinn til styrkingar er stöðugur og verður það áfram, nema að ríkisvaldinu verði beitt kerfisbundið, sem varla getur verið stefnan til lengdar.
Undirliggjandi er vandinn sá, að gengið hefur verið „falskt“ árum saman inn í haftabólunni sem varð til vegna þeirra meðala sem beitt var, af illri nauðsyn, eftir hrunið. Ef stjórnmálastéttin hræðist það að láta markaðinn búa til þann veruleika sem raunverulega er í hagkerfinu, þá ætti það að vekja hana til umhugsunar um að hugsanlega sé vandinn stefnan sjálf sem hún ber ábyrgð á. Margt bendir til þess að svo sé. Allt sem þarf til að breyta er vilji. Einbeittur vilji.