Það fór líkt og flesta grunaði. Ágreiningi um lykilforsendu fjármálaáætlunar, hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu, var frestað fram á síðari hluta árs. Ekki vegna þess að vonir standi til þess að sátt náist um málið innan stjórnarliðsins, heldur vegna þess að um er að ræða svo mikið vandræðamál að ekki er víst að ríkisstjórnin muni lifa það af.
Andstaðan við hina boðuðu hækkun kemur úr þingflokki Sjálfstæðisflokks. Að minnsta kosti fimm þingmenn flokksins eru á móti henni. Þótt sátt sé um að samþykkja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir þinglok þá liggur líka ljóst fyrir að fjölmargir úr þeirra röðum muni gera slíkt með þeim fyrirvara að þeir muni leggjast gegn sérstöku frumvarpi um hækkaðar álögur á ferðaþjónustu þegar sérstakt frumvarp um slíkt verður lagt fram í haust.
Nokkrar stórar ástæður
Af hverju er þetta stórmál? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er fjármálaáætlun ríkisstjórnar algjört grundvallarmál sem býr til þann ramma sem hún starfar eftir út kjörtímabilið. Þar skiptir hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu augljóslega miklu máli á tekjuhliðinni, enda meta stjórnvöld að sú skattaívilnun sem greinin nýtur i dag sé um 22 milljarðar króna á ári. Auk þess er það gríðarlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega að hann lækki skatta. Það er markmið í sjálfu sér í pólitískri stefnu hans, þótt tilgangurinn sé ekki alltaf augljós og afleiðingarnar oft þær að skera þurfi niður í mikilvægum samfélagslegum verkefnum.
Í öðru lagi hefur Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, staðið mjög fast á sínu, þrátt fyrir mikil mótmæli frá ferðaþjónustunni og harmakvein þeirra stjórnarþingmanna sem eru á móti hækkuninni. Hann hefur ítrekað sagt að þetta sé ákvörðun sem stendur. Frá henni verði ekki kvikað, og þar með lagt sinn pólitíska trúverðugleika undir.
Í þriðja lagi hefur Bjarni Benediktsson forsætisráðherra líka staðið að fullu á bak við ákvörðunina. Hann kynnti áformin á ársfundi Samtaka atvinnulífsins seint í mars. Þar sagði hann: „Það er ekki sama ástæða og áður var til að ívilna ferðaþjónustunni með því að hafa hana í lægra þrepinu. Þess utan er það mikilvægt frá hagstjórnarlegu sjónarhorni að bregðast við gríðarlegri aukningu ferðamanna til landsins.“ Í viðtali á Bylgjunni í lok apríl sagði Bjarni að með hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu væru heildarhagsmunir almennings teknir fram yfir sérhagsmuni. Þá hefur hann látið hafa eftir sér að það síðasta sem vert sé að hafa áhyggjur af sé samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu. Ekki komi til greina að draga í land með að hækka virðisaukaskatt á greinina. Trúverðugleiki hans sem forsætisráðherra og sem formaður Sjálfstæðisflokksins er því að veði í málinu.
Illa dulbúin tilraun til gengisfellingar
Þá er auðvitað eftir að telja upp þá ætlun ríkisstjórnarinnar að vinna gegn styrkingu krónunnar með því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Það þýðir á einföldu máli að ríkisstjórnin vill hægja verulega á aukningu ferðamanna með því að gera Ísland að dýrari áfangastað fyrir þá. Innflæði gjaldeyris vegna greinarinnar sé einfaldlega þegar of mikið.
Krónan hefur enda styrkst ævintýralega á mjög skömmum tíma. A einu ári hefur hún styrkst um 29,05 prósent gagnvart breska pundinu, um 19,51 prósent gagnvart Bandaríkjadal og 19,54 prósent gagnvart evru.
Í þessum tölum er ekki tekið tillit til þess að Seðlabanki Íslands keypti gríðarlega mikið af gjaldeyri með inngripum í fyrra. Án þeirra væri krónan enn sterkari, en raungengi hennar hefur ekki verið sterkara frá því í kringum 1980.
Sterk króna er afleit fyrir þá geira sem eru í alþjóðlegri starfsemi. T.d. sjávarútveg, iðnað, sprotafyrirtæki og auðvitað ferðaþjónustuna. Hún gerir það að verkum að Ísland verður miklu dýrara. Vinnuafl verður dýrara, verðlag verður hærra osfr. Og færri og færri krónur fást fyrir gjaldeyrinn sem starfsemin aflar. Á móti nýtur launafólk á Íslandi auðvitað ástandsins, að minnsta kosti þar til að það þrýstir fyrirtækjum úr landi. Það er ódýrara að fara í vegleg sumarfrí og öll innflutt neysluvara er á mun skaplegra verði en hún hefur verið lengi, svo dæmi séu tekin.
En ríkisstjórnin ætlar sér koma á stöðugra efnahagslífi. Lykilatriði í því er að koma böndum á styrkingu krónunnar. Það verður vart hægt að halda því fram að það meginmarkmið náist ef samkeppnisstaða annarra greina en ferðaþjónustu fær að versna vegna áframhaldandi hömlulauss vaxta ferðaþjónustu.
Ríkisstjórnin í hættu
Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa ekki verið sérstaklega átakalitlir. Varla hefur liðið sú vika að ekki hafi komið upp ágreiningur milli stjórnarflokkanna og hluti þingmanna Sjálfstæðisflokks virðast skæðari í andstöðu en stjórnarandstöðuflokkarnir.
Um er að ræða ríkisstjórn sem enginn vildi sérstaklega, heldur var mynduð þegar ekkert annað mynstur gekk upp. Hún hefur minnsta mögulega meirihluta, nýtur sögulega lítils stuðnings á meðal almennings og virðist vera saman sett af fólki og flokkum með afar mismunandi nálgun og áherslur í stjórnmálum.
Nú þegar hefur stjórnarliðum tekist að vera ósammála um Reykjavíkurflugvöll, um hvernig ætti að leysa sjómannaverkfallið, áfengisfrumvarpið, endurskipun á nefnd um endurskoðun búvörusamninga, jafnlaunavottun og um sölu á hlut í Arion banka til erlendra vogunarsjóða, einkarekstur í heilbrigðis- og menntakerfum, svo fátt eitt sé nefnt.
Þrátt fyrir mesta góðæri Íslandssögunnar er ríkisstjórnin líka ein sú óvinsælasta sem setið hefur. Kannanir sýna að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing ef kosið yrði í dag, að Viðreisn gæti átt á hættu að ná heldur ekki inn manni og að Sjálfstæðisflokkurinn fengi einungis um 25 prósent atkvæða, sem yrði þá næst versta útreið hans í kosningum í sögunni. Það segjast einungis 31,4 prósent landsmanna styðja ríkisstjórnina.
Allt ofangreint hefur stjórnin þó getað staðið af sér. Ef sú staða kemur upp að nokkrir áhrifamiklir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stöðva hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu er nokkuð ljóst að það mun hafa afdrifaríkari áhrif. Þeir væru þá á móti þeim grundvallarramma sem ríkisstjórnin ætlar utan um verk sín á kjörtímabilinu. Þeir væru á móti einu stærsta máli fjármála- og efnahagsráðherra, sem hann hefur hengt pólitískan trúverðugleika sinn við. Og síðast en ekki síst eru þeir að rísa upp gegn eigin formanni.
Mjög erfitt er að sjá ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar lifa slíkar aðstæður af.