Að undanförnu hefur átt sér stað umræða um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi í samhengi við gang efnahagsmála í hagkerfinu. Ekki er það undarlegt í ljósi þessa mikla vaxtar sem einkennt hefur greinina.
Vaxtartölurnar eru með ólíkindum. Árið 2010 komu ríflega 450 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en á þessu ári er áætlað að þeir verið 2,3 milljónir. Fyrstu tölurnar frá því byrjun árs, gera ráð fyrir miklum vexti, þrátt fyrir að verðmiðinn á öllu sem fæst á landinu hafi hækkað hratt, sökum styrkingar krónunnar.
Stjórnvöld hafa komið þeim skilaboðum á framfæri, endurtekið upp á síðkastið, að verið sé að vinna gegn styrkingu krónunnar með því að stöðva vöxt ferðaþjónustunnar, eða í það minnsta að reyna að hægja á vextinum. Þar er einkum nefnt til sögunnar að hækka þurfi skatta á greinina og hefja almenna gjaldtöku, til að styrkja innviði greinarinnar.
Hver er vandinn?
Eitt er það sem gleymist oft, að mínu mati, þegar rætt er um ferðaþjónustuna og stöðu hennar á Íslandi almennt.
Það er að kafa dýpra ofan í svarið við þessum spurningum: Eru erlendir ferðamenn á Íslandi of margir? Hvert er vandamálið?
Ég held að svarið við þessum spurningum sé óþægilegt fyrir eina stétt á Íslandi, og það er stjórnmálastéttin.
Vandi ferðaþjónustunnar er sá sami og almenningur glímir við alla daga, hvort sem það er í atvinnurekstri eða daglegu lífi. Hann snýr beint að þeim takmörkunum sem fylgja þeirri peningastefnu sem stjórnmálamenn á Íslandi hafa kosið að notast við. Vandinn felst í rússíbanareið krónunnar.
Gjaldeyrisáhættan bara tekin út
Ef Bandaríkjadalur væri notaður á Íslandi almennt (sleppi evrunni, umræðan verður oft svo æst þegar hún er nefnd), þá myndi það ekki skipta öllu máli hvort það kæmu 2 eða 5 milljónir ferðamanna til landsins. Hagkerfi landsins myndi ekki ofhitna, með viðlíka hætti, vegna innstreymis gjaldeyris ef við værum að notast við Bandaríkjadal. Svo dæmi sé tekið. Vextirnir væru lægri, en bakbeinið í gjaldmiðlinum - sem 65 prósent gjaldeyrisvaraforða heimsins er í - gerir það að verkum að hann myndi ekki sveiflast eins og lauf í vindi, t.d. ef Easy Jet myndi ákveða að hefja flug til landsins og ferja hingað fjölda erlendra ferðamanna.
Með góðum innviðum - sem stjórnmálastéttin hefur því miður ekki náð að byggja nægilega vel upp eins og hún á að gera - er vel hægt að taka á móti miklu fleiri ferðamönnum. Mörg dæmi eru um það að litlir áfangastaðir, hvort sem er í náttúrunni eða inn í borgum, taki á móti milljónum ferðamanna á ári, án þess að það ógni stöðugleika einhverra þjóðríkja.
Tíu ára afmæli mestu bólu sögunnar
Um þessar mundir, nánast upp á dag, er 10 ára afmæli mestu efnahagsbólu sem myndast hefur í mannkynssögunni hjá einu og sama þjóðríkinu. Það er þegar efnahagsbólan á Íslandi var útþanin til hins ítrasta. Þá var Ísland eitt dýrasta land í heimi og innstreymi gjaldeyris í algleymingi, meðal annars vegna vaxtamunarviðskipta. Ríkissjóður var svo gott sem skuldlaus, og almenn staða var góð - einkum og sér í lagi að mati stjórnmálamanna. Það sem við tók er þekkt: Stöðvun á innstreymi fjármuna til landsins, vantraust á fjármálakerfinu, neyðarlög og fjármagnshöft - stórkostlega mikil ríkisinngrip - björguðu landinu frá altjóni.
Stundum er eins og stjórnmálamenn gleymi þessum kafla í hinni árangursríku „hagsögu“ Íslands.
Nú þegar framundan er aðlögun hagkerfisins af nýju raungengi krónunnar - eftir að falska hafta gengið var tekið úr sambandi - þá ætti það að vekja stjórnmálastéttina til umhugsunar um hvort það geti verið, að það sé rétt hjá henni að bjóða íslensku hagkerfi upp á þessa rússíbanareið, aftur og aftur, sem felst í peningastefnunni.
Núna blasir það við - og stjórnmálamenn beinlínis segja það - að það sem helst ógnar íslenska hagkerfinu, er að það er ekki hægt að framþróa fyrirtæki og þjónustu í landinu nægilega hratt. Ef það er gert hratt, þá ógnar það lífvænleika hagkerfisins sem er með aðeins 200 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði.
Það dettur engum öðrum þetta í hug
Það er vissulega klisja að nefna það, að engri annarri þjóð, af þessari stærðargráðu - sem reiðir jafn mikið á alþjóðleg viðskipti - dettur í hug að halda úti sjálfstæðri peningastefnu með örmynt. Ef stjórnmálamenn treysta ekki íslensku hugviti til að byggja upp alþjóðleg viðskipti með alþjóðlegri mynt, þá er best að segja það berum orðum, í stað þess að forðast að ræða hið augljósa vandamál. Myntráð og fastgengisstefna er skammtímalækning, og getur aðeins virkað ef markmiðið er á endanum að hætta að notast við kerfið sem er fyrir hendi. Annars er sú leið bæði peninga- og tímaeyðsla.
Vonandi hafa stjórnvöld, sem nú eru að endurskoða peningastefnu landsins, hugrekki til að taka á vandamálinu. Það er líka mikilvægt að þau horfi eftir viðhorfum frá öðrum en elítu Íslands, sem að stóru leyti eru karlar yfir fimmtugu, sem hafa mikla reynslu af því að vinna innan stjórnmálaflokka eða hjá hinu opinbera. Vonandi prófa þeir til dæmis að ræða við tæknimenntað fólk með alþjóðlega reynslu, sem er aðeins yngra og með reynslu úr einkageiranum. Þau viðhorf skipta líka máli, ekki síst til framtíðar litið.
Fór illa
Það má svo nefna, að Seðlabanki Íslands verður ekki sakaður um að taka ekki þátt í umræðu um þessi mál, því ítarleg skýrsla hans um valkosti í peningamálum gefur gott yfirlit um kosti og galla þeirra leiða sem eru í boði. Hún dregur fram mikilvægan sannleika um það, að það eru aðrar leiðir í boði en að halda í krónuna.
Það heyrir fyrst og fremst upp á stjórnmálastéttina að svara spurningum um þessi mál, afdráttarlaust með stefnu. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, þekkir vel raunir þeirra sem búa við ójafnvægi vegna gengisfalls og snöggra sveiflna. Það fór illa fyrir rekstrinum sem hann stýrði sem stjórnarformaður fyrir hrun, eins og hjá mörgum öðrum. Rússíbanareið krónunnar kom þar við sögu. Milljarðagjaldþrot með tilheyrandi tjóni fyrir kröfuhafa og hluthafa. Mitt inn í þeirri stöðu skrifaði Bjarni um mikilvægi þess að taka upp evru með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem enginn hefur gert, hvergi. Hugsanlega voru það eðlileg viðbrögð við því að horfa beint inn í miðju stormsins, að miklu leyti í boði galla krónustefnunnar.
Stjórnmálamenn verða að opna augun.
Það er ekki náttúrulögmál að viðhalda þessu kerfi, og vonandi dettur engum stjórnmálamanni í hug að þannig eigi það að vera.