Árið 2015 varð yngsta systir okkar fyrir alvarlegu heimilisofbeldi af hálfu þáverandi sambýlismanns síns (X) sem hún hafði kynnst einu og hálfu ári áður. Ástæðan fyrir þessum skrifum okkar er sú að benda á hvað það var í kerfinu sem brást. Biðin eftir að málið væri tekið fyrir var rúm tvö ár. Þann 1. júní 2017 vísaði Hæstiréttur máli ákæruvaldsins S-162/2017, gegn X frá Hæstarétti en héraðsdómur hafði áður vísað máli á hendur honum frá. Ofbeldismaðurinn X getur fagnað og haldið áfram að snúa sér að næstu fórnarlömbum þar sem „kerfið" sem átti að vernda og verja systur okkar sem þolanda alvarlegs heimilisofbeldis brást henni gjörsamlega.
Í úrskurði héraðsdóms er ofbeldinu lýst en X hafði „...ýtt höfði hennar á hurðarkarm, rifið í hár hennar og dregið hana á hárinu inn á skrifstofu þar sem hann sagði henni að setjast í stól, ýtt stólnum þannig að A féll á gólfið, hrækt ítrekað í andlit hennar, slegið hana í andlit, tekið um eyru hennar og lamið höfði hennar ítrekað í stólbakið, potað fingrum fast í bringu og háls hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli víða í hársverði, eymsli aftan á hálsi beggja vegna, fimm litla marbletti hægra megin ofarlega á hálsi og tvo marbletti vinstra megin á hálsi sem voru 1-1,5 cm í þvermál, mar á hægri eyrnasnepli og blæðingu í vinstri hljóðhimnu, grunna rispu á vinstra kinnbeini og mar þar í kring, marbletti á handleggi, eymsli í brjóstkassa og um bæði herðablöð, mar yfir brún vinstra herðablaðs, rispu aftanvert yfir spjaldbein, rispu og mar hliðlægt á hægri mjöðm og eymsli þar."
Þetta er ekki tæmandi lýsing á þeim atvikum sem gerðust en þessa sömu nótt ógnaði hann systur okkar með borvél, tók í fótlegg hennar og hótaði að bora í fótinn á henni. Leitaði að vopni því hann langaði svo að gera eitthvað - „..eitthvað til að hún hyrfi". Þetta er hluti lýsingar systur okkar á líkamsárásinni um kvöldið: „Þegar ég fékk að fara á klósettið um 2 klukkustundum eftir að atburðurinn byrjaði tók hann sér pásu og fékk sér að reykja í anddyrinu sem var við hlið klósetthurðarinnar. Þegar ég reyndi að hlaupa í burtu af klósettinu og vonast til að komast út um dyrnar í enda hússins þreif hann í hár mitt og henti mér í hornið á anddyrinu. Ég setti hendur yfir höfuð mér og settist á hækjur mér en hann dró þá fram regnhlíf sem var í anddyrinu og reisti hana upp, skipaði mér að standa upp en ég gat mig ekki hreyft. Þegar ég hlýddi ekki sagði hann að ef ég stæði ekki upp eins og skot myndi hann sýna mér hvað hann geti gert við mig með regnhlífinni. Ég stóð upp og þá tók hann um hár mitt og dró mig aftur í stólinn inn á skrifstofunni, hélt um eyru mín og öskraði eitthvað að mér sem ég heyrði ekki þar sem hann hélt svo fast um eyrun. Þegar öllu var lokið, þar sem ég sat í rifnum nærfötum, hló hann framan í mig og spurði hvort ég hafi í alvöru trúað því að hann hafi ætlað að drepa mig".
Allt þetta átti sér stað meðan að börnin hans af fyrri samböndum og synir systur okkar voru inni í svefnherbergi þeirra en ofbeldið átti sér stað langt inn í nóttina.
En hvað er það í kerfinu sem brást?
1. Ofbeldismanninum X tilkynnt að rannsókn málsins sé formlega hætt
Þegar systir okkar varð fyrir líkamsárásinni af hálfu sambýlismanns síns þurftum við og fjölskylda okkar að horfast í augu við eigin fordóma og vanþekkingu á þessum málaflokki. Hvernig gat systir okkar sem er vel menntuð, reglusöm, á sínar eignir, með allt sitt á hreinu, yndisleg mamma, systir og dóttir og á stóran og góðan vinahóp, látið bjóða sér svona? Þegar maður les sér til um málefnið þá kemur fram að heimilisofbeldi er óháð stétt og stöðu en rannsóknir greina samt frá því að konur sem búi við minni menntun, fátækt, atvinnuleysi og veik félagsleg tengsl eru líklegri en aðrar að verða fyrir heimilisofbeldi. Það eru hins vegar meiri líkur á því að kona með sterkt félagslegt net og fjárhagslegt sjálfstæði geti komið sér út úr ofbeldissambandi.
Mál systur okkar er skólabókardæmi um það sem gerist oft í kjölfar ofbeldis og er það nefnt þriðja stig ofbeldishringsins. Þegar viðkomandi hefur lokið sér af með ofbeldi tekur við tímabil sem einkennist af friði, elsku og iðrun. Strax um morguninn reyndi X að hafa samband og biðjast fyrirgefningar og hét því að ofbeldið endurtæki sig ekki. Á þessu stigi þjáðist systir mín af líkamlegum og andlegum einkennum áfalls. Vegna sívaxandi ofbeldis í sambandinu hafði hún misst öryggistilfinningu sína og um leið færni sína til að setja mörk. Hún tapaði sjálfsmynd sinni og missti tilfinningu fyrir því að hafa stjórn á́ eigin lífi því að stjórn X yfirtók allt. Hún hafði gengið í gegnum alvarlega líkamsárás, flúið heimili sitt með börn sín, skoðun og mat á bráðamóttöku Landspítalans og skýrslutöku hjá lögreglunni þar sem hún kærði X.
Nokkrum dögum síðar óskaði lögreglan eftir því að hún kæmi og staðfesti kæruna því að lögreglan hafði gleymt að kveikja á upptökutækinu við skýrslutökuna. Á þessum tímapunkti treysti hún sér ekki til að staðfesta kæruna aftur og leit lögreglan svo á að hún hefði dregið kæruna til baka. Í framhaldi af þessu fékk systir okkar bréf frá lögreglunni þar sem henni var gefinn nokkurra vikna tímarammi til að endurskoða þá ákvörðun. Áður en sá tímarammi var liðinn sendi lögreglan X bréf um að rannsókn málsins væri hætt.
Þetta er óskiljanleg ákvörðun en úrskurður héraðsdóms byggir aðallega á þessari ákvörðun lögreglu. Systir okkar, sem á þessum tímapunkti var ekki kunnugt um að rannsókn málsins hefði verið hætt, mætti fyrir lok tímarammans til lögreglunnar til þess að staðfesta kæruna. Þegar það kom í ljós hvað lögreglan hafði gert og hver staðan var á málinu, sagði rannsóknarlögreglumaðurinn sem tók á móti henni að það myndi hvort eð er vera „svo erfitt og óþægilegt fyrir framtíðar kærasta systur minnar að ganga í gegnum það að kærasta hans væri í málaferlum“. Þegar hún hringdi nokkrum dögum síðar til að spyrjast aftur fyrir um stöðuna fékk hún þær skýringar að það væri erfitt að eiga við þessi mál, sér í lagi þar sem „það eru svo fáir sem hafa áhuga á þessum málaflokki".
Það er með ólíkindum að lögreglan, sem á að vita nákvæmlega í hvaða stöðu þolendur heimilisofbeldis eru, hafi lokað málinu með þessu hætti. Þetta er jafnframt þvert á verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldis frá 2. desember 2014. Þar kemur m.a fram að ofbeldisbrot séu rannsökuð óháð því hvort þolandi leggi fram kæru og að ákæra kunni að vera gefin út án þess að þolandi leggi fram kæru sjálfur. Þá kemur fram að lögregla haldi rannsókn áfram ef fyrir liggja skýrar vísbendingar um að heimilisofbeldi, þrátt fyrir að þolandi vilji ekki aðstoða við rannsóknina eða hann hafi afturkallað kæru sína. Að okkar mati eru þessi atriði grundvallaratriði fyrir þolendur heimilisofbeldis þar sem það á ekki vera á þeirra ábyrgð hvort ofbeldismaðurinn er kærður eða ekki. Á þetta treysti systir okkar meðan hún var að reyna að koma sér út úr ofbeldissambandinu og reyndi að fá X til að greiða sér til baka amk hluta af þeim fjárhæðum sem hann hafði fengið lánaðar hjá henni vegna framkvæmda á húsnæði hans, vinnustofu, rekstri á fyrirtæki og uppihaldi.
Innan lögreglunnar eru sterkir aðilar sem leggja mikinn metnað í að breyta viðhorfum til heimilisofbeldis. Þurfa þeir að fá stuðning frá öllum aðilum sem að þessum málum koma. Mikilvægt er að heimilisofbeldismál séu tekin föstum tökum og verklagsreglum fylgt.
2. Ný gögn í málinu ekki talin vera grundvöllur endurupptöku málsins að mati héraðsdómara
Ný sakargögn komu til sögunnar í málinu, sem lögregla taldi að væri grundvöllur fyrir endurupptöku málsins og þess vegna var rannsókn málsins tekin upp að nýju. En hvað úrskurðar dómari héraðsdóms? Hann úrskurðar að það hafi hvorki komið fram ný gögn sem geti verið grundvöllur endurupptöku málsins né að lögreglan hafi sýnt fram á það að sennilegt sé að þau komi fram. Þetta mat dómarans á hvort um hafi verið að ræða ný gögn eða ekki er enn eitt dæmi um hvernig kerfið bregst systur okkar.
3. Kæra ákæruvaldsins barst ekki héraðsdómi innan kærufrests
Ákæruvaldinu bar lögum samkvæmt að kæra úrskurðinn innan þriggja sólarhringa frá því að það fékk vitneskju um úrskurðinn. Ákæruvaldið gerði mistök og sendi ekki inn fullnægjandi kæru innan tímamarka. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var því lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins að hann „verði“ kærður til Hæstaréttar í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi þannig að málið hljóti efnismeðferð. Ákæruvaldið taldi líklega að þessi yfirlýsing saksóknara í þinghaldi hafi verið nóg, en Hæstiréttur vísar málinu frá á þeim grundvelli að fyrrgreind yfirlýsing sóknaraðila hafi ekki falið í sér kæru heldur aðeins fyrirætlan um hana. Þar sem kæran barst ekki héraðsdómi innan þessara þriggja sólarhringa var málinu vísað frá Hæstarétti.
4. Að upplifa að þú skiptir ekki máli
Saga systur okkar og reynsla hennar og okkar fjölskyldunnar af kerfinu sýnir að gera þarf mikilvægar breytingar á því, hvort sem það er í löggjöf eða innan þeirra embætta sem að málunum koma.
Hér að ofan eru talin upp nokkur atriði sem dæmi um það hvernig kerfið sem átti að vernda systur okkar brást. Í tvö ár hefur systir okkar verið að vinna markvisst að því að byggja upp sjálfsmynd sína og ná aftur stjórn á lífi sínu. Afglöp og viðhorf aðila sem að málinu hafa komið eru alvarleg og valda því að ofbeldismaður X gengur laus og þarf ekki að svara fyrir þau alvarlegu brot sem hér hefur verið lýst. Hvernig eiga þolendur heimilisofbeldis að treysta á kerfið þegar það bregst svona?
Þegar systur minni tókst með hetjuskap og þrautseigju að enda ofbeldissambandið hafði hún upplifað í langan tíma að hún skipti engu máli og hún á allan hátt háð ákvörðunum X. Loksins þegar hún komst út úr þessu og í fang þeirra aðila sem áttu að vernda hana og verja, varð upplifunin sú hin sama - að hún skipti ekki máli.
Höfundar eru systur þolanda.