Kjarninn hefur fjallað um skipan dómara í Landsrétt og á margan hátt tekið forystu í þeirri umfjöllun. Hlutur Viðreisnar við afgreiðslu málsins hefur verið reyfaður og gagnrýndur. Það hefur einnig verið gert í öðrum fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna.
Nýr dómstóll og jafnrétti
Mikilvægt er að hafa í huga að um nýtt áfrýjunardómstig er að ræða, nýjan dómstól sem byggður er frá grunni. Við dómstólinn starfa 15 dómarar. Hér er um einstæðan atburð að ræða og kjörið tækifæri til þess að sinna kalli nútímans um sem jafnast hlutfall karla og kvenna, úr hópi hæfra umsækjenda, auk annarra góðra kosta sem prýða dómara við nútímalegan dómstól.
Viðreisn hefur sterkar skoðanir á jafnréttismálum og beitir sér fyrir því að jafna hlut karla og kvenna í þjóðfélaginu. Það gildir líka um dómstóla.
Umfjöllun áður en umsóknarfrestur var úti
Þann 2. febrúar 2017 var útbýtt þingmáli á Alþingi sem er ætlað að taka af öll tvímæli um að nefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti dómara taki einnig til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt og veiti ráðherra umsögn um umsækjendur.
Málið var til fyrstu umræðu í þingsal þann 7. febrúar. Við það tækifæri sagði undirritaður:
„Hér er verið að fjalla um hæfisreglur og skipan dómara í hinn nýja Landsrétt. Af því tilefni langar mig til að spyrja hæstvirtan dómsmálaráðherra hvort ekki sé ástæða til að setja sérstök ákvæði um skipan dómara sem feli í sér að auk almennra hæfisskilyrða skuli sérstaklega horft til sjónarmiða um jafnrétti kynjanna. Tilgangurinn væri auðvitað að vinna markvisst að því að jafna kynjahlutföll meðal dómara. Hér er nýr dómstóll í fæðingu, 15 dómarar sem koma þar til starfa. Manni sýnist að hér sé einstakt tækifæri til að ná jöfnuði þegar þessi nýi dómstóll verður settur á laggirnar.“
Allmargir aðrir þingmenn tóku til máls og gerðu flestir jafnréttissjónarmið að umtalsefni. Má þar nefna Andrés Inga Jónsson sem sagði m.a. við umræðurnar:
„Háttvirtum þingmanni er tíðrætt um að hæfni eigi að ráða skipan mála og má alveg taka undir það. En ekki má loka augunum fyrir því að þessi hæfni er ekki hlutlaus gjöf náttúrunnar. Eins og dæmið sem ég nefndi áðan um að hæstaréttardómarar hefðu eingöngu kallað til karla sem varadómara þennan veturinn. Þetta er reynsla sem telur inn í hæfni þegar kemur að skipan í dómaraembætti. Þetta viðheldur skekkju í kerfinu ef ekkert er að gert.“
Málinu var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar. Nefndin skilaði tveimur álitum. Nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um málið frá því 23. febrúar endurspeglar þessa miklu umræðu um kynjasjónarmið við skipan dómara við Landsrétt, en þar segir m.a:
„Samkvæmt nýjum lögum um dómstóla, nr. 50/2016, er gert ráð fyrir að Landsréttur taki til starfa 1. janúar 2018 en í réttinum skulu eiga sæti 15 dómarar. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var rætt almennt um gagnrýni á fyrirkomulag við skipun dómara. Í því samhengi var m.a. rætt um mat dómnefndar á hæfni umsækjenda um dómaraembætti, kynjahlutfall við dómstóla og hvernig sjónarmið um jafnrétti koma til skoðunar við skipun dómara. ... við ákvörðun ráðherra um skipun dómara og leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara“.
Nefndarálit minni hlutans kveður enn fastar að orði um mikilvægi jafnréttissjónarmiða:
„Minni hlutinn telur að samhljómur hafi verið um markmiðið að jafna hlut kynjanna innan dómskerfisins meðal nefndarmanna, en er ósammála meiri hlutanum um þær leiðir sem mætti beita til að ná því markmiði. Minni hlutinn telur að sú afstaða meiri hlutans að árétta að líta þurfi til jafnréttislaga við skipun dómara í nefndaráliti sé ekki nægjanleg. Minni hlutinn telur að þó að eðlilegt hljóti að teljast að dómsmálaráðherra starfi í samræmi við jafnréttislög sé full ástæðu til að hnykkja á þeirri afstöðu í lagatextanum sjálfum. Minni hlutinn telur að nú sé sögulegt tækifæri til að ná jöfnu hlutfalli kynjanna hjá dómurum á nýju dómstigi strax frá fyrsta degi og það tækifæri er mikilvægt að verja með skýru ákvæði sem nær yfir þessa fyrstu skipan dómara“.
Önnur umræða um dómstólalögin hófst 24. febrúar og var fram haldið 27. febrúar. Þá sagði Pawel Bartozsek m.a:
„Við vinnu við frumvarpið kom fram sú skoðun að kynjahlutföll við nýjan dómstól ættu að vera frá upphafi sem jöfnust og endurspeglast sú skoðun meðal annars í áliti minni hluta og breytingartillögunni sem álitinu fylgir. Þingflokkur Viðreisnar deilir þeirri sýn sem þar kemur fram“.
Síðar þennan sama dag fór einnig fram þriðja umræða og frumvarpið varð að lögum eftir atkvæðagreiðslu.
Andrés Ingi Jónsson gerði við það tækifæri svofellda grein fyrir atkvæði sínu:
„Ég geri hér grein fyrir atkvæði mínu í máli um Landsrétt, svo það sé á hreinu, og vil ítreka það sem áður hefur komið fram að ég lít svo á að við öll í þessum sal, líka þið, hv. þingmenn, sem ekki samþykktuð breytingartillögu minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, séum sammála um að Landsréttur eigi að endurspegla samfélagið, hann eigi að vera jafnt skipaður körlum og konum. Ef það ferli sem nú fer í gang innan ráðuneytis dómsmála skilar ekki þeirri niðurstöðu er okkur að mæta“. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)
Síðar hefur komið í ljós að þessi atkvæðaskýring virðist hafa misst þýðingu sína og þunga.
Pólitísk skilaboð
Hin pólitísku skilaboð frá Viðreisn, og að því er virtist Vinstri grænum, voru afdráttarlaus og skýr og gátu hvorki dulist þingheimi né ráðherra dómsmála. Krafan gat ekki verið skýrari. Grípa yrði þetta einstæða tækifæri til að gæta jafnvægis kynja við þessa skipan.
Umsóknarfresti um hin nýju dómaraembætti lauk 28. febrúar og þann 2. mars var listi umsækjenda gerður opinber, nokkrum dögum eftir að umræðunni lauk á Alþingi.
Dómnefndin skilaði svo sínu mati til dómsmálaráðherra 19. maí og var það birt á vef ráðuneytisins þann 22. maí. Þá varð ljóst að nefndin mat nákvæmlega 15 einstaklinga, 10 karla og 5 konur, hæfasta til þess að taka sæti í dómnum. Þá þegar varð ljóst að pólitískar óskir a.m.k. tveggja flokka um jafnvægi milli kynja yrðu ekki uppfylltar skv. þessum lista. Þetta var öllum ljóst.
Þingflokkur Viðreisnar ítrekaði sem fyrr þá skoðun sína að gæta yrði jafnvægis milli kynja við hinn nýja dómstól, hlutfallið 10 karlar og 5 konur væri ekki ásættanlegt og myndi flokkurinn ekki standa að samþykkt listans með þessu kynjahlutfalli. Þeirri skoðun var komið skýrt á framfæri við dómsmálaráðherra. Þeim skilaboðum fylgdi alls ekkert annað. Hvorki um hvaða einstaklingar yrðu fyrir valinu né nákvæmar óskir um fjölda karla og kvenna. Einungis að listinn með núverandi kynjahlutföllum yrði ekki samþykktur.
Önnur afskipti hafa þingmenn Viðreisnar ekki haft af skipan dómara við Landsrétt og myndi aldrei detta í hug að gera. Að sjálfu leiðir að það er dómsmálaráðherra einn, að fenginni umsögn dómnefndarinnar, sem leggur tillögu sína fyrir Alþingi og ber ábyrgð á henni. Listinn sem ráðherra lagði fyrir Alþingi uppfyllti að fullu áherslu Viðreisnar um viðunandi hlutfall beggja kynja úr hópi hæfra einstaklinga við dómstólinn.
Við lokaafgreiðslu tillagna dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt sagði undirritaður m.a:
„Það er hvorki vandalaust né hafið yfir gagnrýni og skoðanaskipti hvernig ákveðið er að velja og skipa dómara við hinn nýja Landsrétt. Það endurspeglast vel í umræðum sem hafa orðið í þingsal í dag og einnig þegar fjallað var um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla fyrir nokkrum vikum ... Nú hefur það gerst að dómnefndin skilaði lista með 15 umsækjendum, tíu körlum og fimm konum, en dómsmálaráðherra nýtt sér heimild í lögum til að leggja fram eigin lista með ellefu þeirra sem dómnefndin lagði til en að auki nöfn fjögurra sem dómnefndin hafði metið hæfa en ekki sett í hóp þeirra 15 sem dómnefndin lagði til. Við þessa breytingu verða átta karlar og sjö konur á lista dómaraefna. Það er mikið fagnaðarefni og hefur mikla þýðingu fyrir hinn nýja dómstól og störf hans. Það stemmir mjög vel við mín sjónarmið í jafnréttismálum og ég veit að svo er einnig um mjög marga aðra hv. þingmenn“.
Stóðum fast á okkar
Viðreisn hefur staðið við sína pólitísku sannfæringu í þessu máli frá upphafi til enda. Sú sannfæring snýst um jafna stöðu kynjanna en ekki einstaklinga. Allir þingmenn Viðreisnar eru og voru einhuga í þessu máli, sem er mikilvægur áfangi í að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.