Í ársskýrslu Alþjóðagreiðslubankans í Basel, BIS, sem birt var í gær, er stórum hluta skýrslunnar eytt í varnarskirf fyrir alþjóðavæðinguna, og sá augljósi sannleikur dreginn fram að hún hefur vegið þyngst í því að draga úr fátækt í heiminum.
Ástæðan fyrir þessum skrifum í ársskýrslunni virðist augljós; alþjóðavæðingin hefur átt undir högg að sækja með uppgangi lýðskrumara og vinsældarbröltara eins og Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem berst fyrir því að losa Bandaríkin út úr alþjóðasamningum og berst einnig fyrir bandarískum hagsmunum eingöngu, en ekki hagsmunum heildarinnar, sem er innsti kjarni hugsunarinnar með alþjóðlegum samningum um viðskipti, þvert á landamæri.
Stríðsyfirlýsing
Þessi stefna Trumps og félaga er risavaxin stríðsyfirlýsing gegn alþjóðavæddum heimi viðskipta og þróunar og eins víðsfjarri nokkrum hugmyndum um frjálsan markaðsbúskap eins og hugsast getur. Yfirlýsingar um að Bandaríkin muni beita sérhagsmunum - það er tollum, múrum og aðgangshindrunum af ýmsu tagi - geta einar og sér valdið stórtjóni jafnvel þó alþjóðleg fyrirtæki reyni eftir fremsta megni að berjast gegn þessari stefnu í starfsemi sinni.
Stefnubreyting eins og þessi hefur ekki verið framkvæmd ennþá með lagabreytingum eða nýrri áætlun, nema þá að litlu leyti, en nú þegar hafa Bandaríkin verið dregin út úr gerð alþjóðasamninga, sem meðal annars ná til helstu vaxtarsvæða Asíu og Afríku. Auk þess er yfirlýsing Trumps um að Bandaríkin fari út úr Parísarsamkomulaginu önnur hlið á sama tening, þó margt bendi til þess að hún sé lítið annað en orðin tóm.
Ýmislegt mætti vafalítið segja um það, hvað býr að baki þessu, en það alvarlega er að raunveruleg hætta er nú á því að það muni hægja á ótrúlegum árangri sem náðst hefur í baráttunni við sára fátækt í heiminum.
Tollamúrar og sérhagsmunastefnur, sem hindra aðgang fátækra svæða að mörkuðum, eru alvarlegt mál, og við Íslendingar - sem smáríki sem er algjörlega háð erlendum mörkuðum - ættum að taka virkan þátt í að því að mótmæla öllum áformum sem vinna gegn alþjóðavæddum heimi. Opnir markaðir og alþjóðlegt samstarf er undirrót framfara og Ísland þarf að marka sér skýra stefnu með slíkri stöðu til framtíðar litið.
Alþjóðlegt samstarf er lykillinn
Í grein frá 18. maí síðastliðnum segir Bill Gates, stofnandi Microsoft og ötull baráttumaður alþjóðavæðingar og alþjóðasamstarfs, að framlög Bandaríkjanna til þróunarstarfs þurfi að vera miklu meiri, en ekki minni, eins og nú er ráðgert. Rökin hans eru tiltölulega einföld. Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt til að berjast gegn vandamálum sem eru alþjóðleg, og geta áhrifin komið fram með ýmsum hætti, og haft áhrif á margar þjóðir. Samstarf, samvinna og alþjóðavætt efnahagslíf er lykillinn að árangri.
Hann nefnir sem dæmi viðbrögð við náttúruhamförum og hvernig áhrifin geta komið fram ef ekki er brugðist hratt og vel við. Í Sýrlandi, árið 2007, leiddu gríðarlega alvarlegir þurrkar í landinu til mikilla fólksflutninga úr dreifbýli í borgir. Þar gerði fólk - meira en ein milljón manna - ráð fyrir því að geta nálgast mat, en of sein viðbrögð alþjóðasamfélgsins, meðal annars vegna of lítils fjármagns í málaflokkinn, leiddu til mikilla vandamála.
Gates segir þessa atburði, sem fóru tiltölulega hljótt á alþjóðavettvangi í fyrstu, hafa leitt til enn meiri spennu og félagslegra erfiðleika, sem mögnuðu upp eldfimt ástand sem síðar braust út í borgarstyrjöld með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa Sýrlands og raunar heiminn allan, sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Gates segir að fjárfesting í þróunarverkefnum margborgi sig til baka með öruggari heimi og meiri líkum á efnahagslegum ávinningi heildarinnar. Alþjóðlegt hjálparstarf sé skýrt dæmi um mikilvægi þess að þjóðir vinni saman.
Baráttunni fyrir bættum og opnum heimi lýkur aldrei og það stórkostlegasta sem hefur gerst í þeirri sögu er aukið alþjóðlegt samstarf og opnun markaða með alþjóðavæddum heimi. Ársskýrsla BIS dregur þetta vel fram og Gates minnir okkur á þetta með sértækum dæmum, meðal annars á sviði hjálparstarfs og efnhagsmála. Framlag smáríkis eins og Íslands í umræðum um mál eins og þessi, ætti að hafa þann rauða þráð að berjast fyrir opnum alþjóðavæddum heimi. Vonandi er það „tækifærið“ sem íslenskir stjórnmálamenn sjá í breytingum á alþjóðavettvangi sem sumir þeirra hafa rætt um að undanförnu.