Stundum eiga stjórnmálamenn beinlínis að taka sér frí, skreppa til útlanda, ganga fjöll á Vestfjörðum, eða eitthvað álíka. Bara láta sig ,,hverfa“. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, er einn þeirra. Við höfum nefnilega ekkert losnað við hann það sem af er sumri. Sem er slæmt.
Það er nefnilega þannig að almenningur þarf stundum hvíld frá stjórnmálamönnum. Sérstaklega þegar þeir eyða sumrinu í ekkert annað en að skoða vegatolla, vegaskatta og önnur ,,vegagjöld“, til að leggja á okkur almenning. Jón er á fullu gasi í því.
Ég er búinn að skreppa af landi brott tvisvar það sem af er sumri. Og í bæði skiptin, við heimkomu, hefur eitt af því fyrsta sem ég hef heyrt í fjölmiðlum, verið fréttir og eða viðtöl við Jón Gunnarson, þar sem sagt er frá því að hann sé nú að velta fyrir sér einhverskonar veggjöldum, vegasköttum, vegatollum eða álíka, til að demba yfir okkur skattgreiðendur. Og svo kemur viðtal við Jón þar sem hann segist vera búinn að finna ,,nýjan“ veg til þess að leggja toll á. Hvað gengur manninum til?
Má vel vera að honum hafi verið sagt af ,,yfirverkstjóranum“ (forætisráðherra) að dunda sér við þetta yfir sumartímann, en þetta er bara ekkert sniðugt. Svo illa lætur að þessu að ég held að Jón Gunnarsson sitji heima hjá sér (þegar allir eru í sundi, í bústaðnum, eða útlöndum) með öll tiltæk vegakort og sé hreinlega að kortlegga þá vegi (til og frá höfuðborginni – og jafnvel fleiri) sem hann getur sett veggjald, toll eða skatt á!
Er Jón Gunnarsson sjálfsstæðismaður eða skattleggjandi vinstrimaður í dulargervi? Ekki nema von að maður spyrji sig, því helstu fréttir sumarsins það sem af er hafa annaðhvort verið einhverjar ,,skítafréttir“ eða ,,vegatollagjaldskyldufréttir“ a la Jón Gunnarsson. Nú er mál að linni. Þá má einnig benda fjölmiðlamönnum á að hætta hreinlega að hringja í Jón. Taka hann einfaldlega úr flýtivalinu.
En að öllu gríni slepptu, þá eru þessar fréttir sorgleg sönnun þess að við Íslendingar búum við ríkisvald sem hefur algerlega brugðist í samgöngumálum og byggðamálum (samgöngumál eru byggðamál). Það eru teknir af okkur fullir/hámarsskattar og samgönguráðherra landsins gerir ekki annað en að tala um gjöld og aðrar álögur! Þetta bara gengur ekki.
Í hvað fara skattarnir okkar þegar við þurfum sífellt að vera að borga meira og meira og meira í eitthvað sem á að greiðast með skattfé? Eða á að leggja á okkur tolla fyrir það að keyra vegina (sem eru að molna í sundur) bara af því það er gert einhversstaðar í útlöndum? Við þurfum ekkert alltaf að apa allt eftir því sem gert er í útlöndum. Það er engin skylda.
Að lokum: Jón, ertu til í að taka þér smá frí og hætta að tala endalaust um vegagjöld og vegaskatta. Kannski bara skreppa af landi brott og sleikja sólina pínupons. Plííís.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og keyrir bíl.