Hún var bara sextán ára þegar hún kom heim til mín, mömmu sinnar, og sagði: mamma ég þarf aðeins að tala við þig, eina.
Hún var föl og alvarleg, það var angist í augunum og ég hélt í fyrstu að hún væri búin að koma sér í einhver vandræði.
En annað kom á daginn og eftir þetta samtal varð lífið aldrei samt.
Hún var sextán, hann orðinn afi, kominn fast að sjötugu, embættismaður í búning, verndari, yfirvald, æðri öðrum.
Honum fannst hún falleg, hafði haft orð á að hann vildi svo oft óska þess að hann væri orðinn yngri. Til hvers? Hvað hefði honum langað að gera við hana sem yngri maður?
Hann vildi að hún kæmi heim til hans. Hann vildi gera hana að betri manneskju. Hvernig þá?
En það varð sem betur fer ekkert af því, enda engu við að bæta. Barnið var til fyrirmyndar, stundaði sitt nám, lífsglöð og söngelsk að eðlisfari.
Hvað gerir barn? Það treystir þeim fullorðnu, sem eru í þeirri stöðu að eiga að vernda og hlúa að.Áreitið hafði byrjað þegar hún var á fjórtánda ári. Stunur í eyra hér og þar, káf, einkennilegar athugasemdir um hana sem kynveru. Hún, sem var þá aðeins þrettán ára en hann kominn vel yfir sextugt.
Hvað gerir barn? Það treystir þeim fullorðnu, sem eru í þeirri stöðu að eiga að vernda og hlúa að.
En í ungum huga býr samt efi og svo vissan um að svona hegðun og talsmáti sé ekki eðlilegur og loks þegar ákveðnum punkti er náð og áreitið orðið líkamlegt, dregur sextán ára gamalt barn móður sína inn í herbergi og segir henni alla söguna.
En hvað gerist svo? Það fara allar sveitir af stað, móðir, faðir, nefndir og ráð. Embættismanni er stefnt fyrir dóm, loksins. Eftir mjög svo grýtta leið fyrir sextán ára barn. Samræmd próf eru ónýt vegna andlegs álags, göturnar í litla bænum eru ekki lengur öruggar. Embættismaðurinn hefur unnið heimavinnuna sína, hann safnar í herinn sinn, jábræðrum og systrum sem segja hann ekki geta haft gerst sekur um slíkt athæfi og hann er ásakaður um. Menn og konur banka á dyr í húsum bæjarins með stuðningslista honum til heiðurs, líka í hús barnsins þar sem móðirin er beðin um að skrifa nafn sitt.
Sextán ára barn er borið ofurliði af ókunnugu fólki sem trúir henni ekki. Hún er lituð ljótum litum. Samfélag í litlum bæ er tilbúið að fórna sálartetri og heiðri barns vegna embættismanns sem það í raun þekkir ekki nema að litlu leyti. Þrátt fyrir þetta allt er barnið staðfast í sinni frásögn og móðir og dóttir sammála um að svona athæfi eigi ekki að líðast og vilja því ekki láta kyrrt liggja. Ef ekki hennar vegna þá þeirra vegna sem á eftir koma. Vinslit verða, barnið og móðirin þurfa að byrgja á þeim bitra kaleik að ekki eru allir vinir í raun. Viðtöl eru boðuð, lögreglan, barnahús, héraðsdómur og svo vitnaleiðslur.
Dómur kemur saman í héraði, síðar í hæstarétti, embættismaður er sýknaður, barnið fær þó þann vitnisburð að hafa verið trúverðugt í vitnisburði sínum, sannanir hafi bara ekki reynst nægar.
Þetta er fín lína. Við viljum ekki dæma fólk án sannanna en þó sannanir séu af skornum skammti þá þýðir það ekki alltaf að einstaklingur sé saklaus. Saklaus uns sekt er sönnuð á ekki alltaf við.
Sannað þótti þó að embættismaðurinn braut allar þær siðareglur sem til voru í hans starfi. Hann áreitti stúlkur á unglingsaldri, ekki eina og ekki tvær heldur miklu fleiri. Það þótti því við hæfi að færa hann til í starfi. Það var ekki hægt að svipta hann embættisréttindum sínum né titli því starfssamningur embættismanna er æðri siðareglum. Sérstaklega ef embættismaðurinn er orðinn gamall með gamlan starfssamning. Samningur embættismannsins vóg þyngra en sálartetur barna sem reyndu allt sem þær gátu til að standa á sínu, fórnuðu heilsu sinni, námi, tómstundum, vinum, til að sækja fram réttlæti, sem svo brást þegar upp var staðið. En svona fór. Lög eru lög og reglur reglur. Samfélagið í litlum bæ bregst barni, sem verður þess vart að upplifun þess er að engu gerð. Orðspor barnsins, sem aldrei hafði snert á áfengi eða tóbaki var litað auri.
Hva..., embættismenn mega nú vera kvensamir eins og aðrir, var þetta nokkuð til að tala um?Var hún ekki alltaf drukkin að þvælast um allar trissur? Í stuttu pilsi? Hva..., embættismenn mega nú vera kvensamir eins og aðrir, var þetta nokkuð til að tala um? Gat hún ekki bara sagt kallinum að fara í rassgat? Hvað var hún annars alltaf að þvælast í kringum hann? Þetta bara getur ekki hafa átt sér stað, hann sem alltaf er svo næs og almennilegur við hana ömmu. Enda var hann sýknaður, gleymum þessu bara...
En vondir menn eru víða, í öllum samfélögum og öllum stéttum. Og vondir menn geta líka gert góða hluti. Gleymum því þó ekki að þeir eru ekkert betri menn fyrir vikið! Ég vona svo innilega að ekkert af þessu fólki, sem hrópaði hæst honum til handa, þurfi að ganga í gegnum það með sínum börnum, sem ég gekk í gegnum með minni dóttur.
Ég er búin að vera móðir sem hefur þurft að horfa upp á embættismann hafa betur í samfélaginu. En innst inni veit ég að hann er ræfill og aumingi. Barnið mitt er hetja, hún gerði það sem hún gat, gerði allt rétt. Og þó það hafi ekki dugað í dómssal, þá allavega stoppaði það aðgengi embættismannsins að fleiri stúlkubörnum. Og það gerði hana að sterkari manneskju, mig að sterkari móður. Núna eru liðin næstum tíu ár. Móðirin, ég, bíður þess að embættismaðurinn detti niður dauður. Því fyrr verður dóttirin ekki frjáls til að ganga um götur síns gamla bæjar óhrædd. Embættismaðurinn hefur margoft stoppað móðurina út á götu, komið að máli við hana á hennar gamla vinnustað og spurt hana um barnið, hvernig hún hafi það, hvort hún sé ekki hress. Móðirin er ekki samræðufús og hefur einu sinni látið það eftir sér að hrækja framan í hann. Ég, móðirin, kem aldrei til með að sleppa tökum á reiðinni í garð þessa manns. Reiðin er réttlát og hún gerir mig öfluga. Ég veit nákvæmlega hvað ég get, hvað ég geri og hvers ég er megnug ef slíkt kemur aftur upp í minni fjölskyldu. Ég veit líka upp á hár hvað mín dóttir gerir ef hennar börn lenda í vondum mönnum.
Ég, móðirin, kem aldrei til með að sleppa tökum á reiðinni í garð þessa manns. Reiðin er réttlát og hún gerir mig öfluga.Þegar að börnin koma til okkar, þá verðum við að hlusta. Þegar barn nágrannans, vinnufélagans, barn einhvers segir frá, þá verðum við að hlusta og taka mark á, leyfa barninu að njóta vafans. Ef barn er áreitt af einstaklingi þá skiptir engu einasta máli þó sá einstaklingur hafi gefið okkur gull og græna skóga, við eigum að hlusta og taka afstöðu MEÐ barninu! Og aldrei nokkurn tíma gleyma því sem gert er á barnsins hlut. Maður sem brýtur gegn barni og fær dóm fyrir er ekki búinn að bæta fyrir brot sitt með því að öðlast samfélagslegt samþykki á bættri hegðun. Það er ekki hægt að þurrka út gjörðir fólks þó einhver ákveðinn tími sé liðinn, það er gert sem er gert og við verðum öll að lifa með okkar gjörðum.
Ég finn til með börnum sem hafa þurft að kyngja óréttlætinu sem fellst í ónægum sönnunum og uppreist æru sakamanna. Ég finn til með mæðrum og feðrum allra barna sem hafa verið órétti beitt. Samfélagið okkar má aldrei taka afstöðu gegn börnum, það er okkar að styðja þau og hjálpa þeim við að ná fram réttlæti. Og það er algjörlega óviðunandi að sakamenn sem hafa svívirt börn geti gengið um götur með hreint borð.
#höfumhátt