Að búa við stöðugan ótta um að missa þakið yfir höfuðið, heimilið, öryggið. Að finna aldrei langtímaleigu. Að óttast að verða sagt upp leigunni eftir bara ár. Að þurfa að skipta um skóla fyrir börnin eða eyða smáskömmtuðum frítímanum í strætó örþreytt börn vegna þess að ekkert húsnæði finnst þar sem áður var búið. Að velja að ferðast klukkutímum saman á milli sveitarfélaga til að börnin geti haldið áfram að vera með vinum sínum í sama skóla eða þurfa að byrja upp á nýtt í aðlögun og öllu sem því fylgir. Að verða sérfræðingur í að mæla út fullkomna kassa undir búslóðina. Að þvælast með húsgögn sem liðast í sundur vegna stöðugra flutninga. Að óttast að lenda á götunni með börnin vegna þess að það finnst ekkert húsnæði í borginni, bænum, þorpinu. Fjárhagsskellurinn þegar flytja skal. Það kostar helling að flytjast á milli heimila og það rofna rætur. Það rofna tengsl.
Að þora ekki að biðja um stuðning frá samfélaginu til að geta fest rætur, vegna þess að nýjasta mannvonskan sem fátækt fólk þarf að berjast gegn eru hótanir um barnaverndaryfirvöld taki börnin frá foreldri og setji í fóstur ef það finnur ekki húsnæði. Hvers konar barnavernd er það?
Svona aðför að fólki sem er að reyna sitt besta í ómögulegum aðstæðum er óþolandi og þarf að taka fyrir strax áður en þetta þykir eðlileg lausn. Þau yfirvöld sem láta sér detta í hug að slík aðför að grundvallaröryggi barna og fjölskyldna þeirra sé lausn eru hreinlega ekki hæf til að sinna sínum embættum. Slík yfirvöld eiga frekar að þrýsta á hina valdameiri til að koma með nauðsynlegar langtíma úrbætur í stað þess að ráðast að öryggi þeirra sem þau eiga að vernda.
Ef það eru slíkar glufur í kerfinu að fólk á ekki í nein hús að venda þá hlýtur það að kalla á tafarlausar aðgerðir. Ég skora á ráðherra félags- og húsnæðismála að stíga strax inn í þessa atburðarás og koma með langtímalausnir á húsnæðisvanda þeim sem æðir áfram stjórnlaust inn í sjálfskaparvíti sem leiðir af sér stjórnvaldsaðgerðir sem eru ekki bara á jaðri mannréttindabrota heldur eru með sanni gróf brot á mannréttindum þeirra sem við sem samfélag eigum að standa vörð um.
Höfundur er þingmaður Pírata