Langvinsælasti drykkur í heimi að vatni frátöldu er að sjálfsögðu te. Mannkyn drekkur á hverjum degi um sex milljarða tebolla. Fimm þeirra drekk ég, stundum á veitingahúsum. Það þarf ekki að fara langt út fyrir landsteinana til að geta pantað sér a nice cup of tea. Bretar kunna að hella vatni yfir telauf svo að úr verði dásamlegur drykkur. Farir þú lengra, til Austurlanda nær og fjær, er sjaldnast spurt hvort þú viljir te eða kaffi. Þér er fært te.
Hér heima hef ég á fimmta áratug tilheyrt minnihlutahópi tedrykkjufólks. Okkur fer þó fjölgandi og varan sem okkur er boðin fer að sumu leyti batnandi. Samt gerðist það nýlega að ég missti þolinmæðina og ákvað að láta veitingamann finna til tevatnsins þegar mér var boðinn óþverri. Ég ákvað líka að skrifa grein um skort okkar á fagþekkingu á sviði tegerðar vegna þess að ekki er ólíklegt að erlendum gestum okkar sé mörgum misboðið vegna þess sem þeim er boðið þegar þeir panta langvinsælasta drykk í heimi.
Hvað er te og hvað ekki?
Ég ætla ekki að tala illa um kaffi, það er bara ekki minn tebolli. Um tvítugt voru allir jafnaldrar mínir skyndilega komnir með uppáhelling í bolla og þar sem mér var í mun að falla inn í hópinn gerði ég ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að ánetjast þessum beiska drykk sem olli mér verkjum í vöðum og truflaði svefn minn. Í stað þeirrar félagslegu einangrunar sem fylgir því að hafa ekkert heitt í bolla valdi ég te.
Flestir vita að kaffi er gert úr kaffibaunum en fæstir að allt te er unnið úr sömu jurtinni sem heitir á latínu Camellia sinensis. Svört, hvít og græn te auk pu´erh og oolong tes eru unnin úr laufum tejurtarinnar. Te úr öðrum jurtum eru kölluð jurtate en nær væri að nefna þau jurtaseyði til aðgreiningar frá tei. Einnig eru til svokölluð rauð te, til dæmis hinn öflugi drykkur sem unninn er úr rooibos-runnum Suður-Afríku. Lengra en þetta ætla ég mér ekki út í hin flóknu fræði um uppruna og nöfn tesins.
Fjölbreytileiki afurða tejurtarinnar felst í mismunandi aðferðum sem notaðar eru við vinnslu laufanna. Svart te er gerjaðra en önnur te og því bragðsterkara og heldur bragðinu lengur sem gerði það að eftirsóttri verslunarvöru á nýlendutímunum. Enn í dag fylla svört te líklega níutíu prósent þeirra sex milljarða tebolla sem drukknir eru daglega.
Út úr flóði
Sólardag nokkurn í sumar flæddi þolinmæðin yfir barma tebollans míns. Ég sat á smartasta útiveitingahúsi lítillar borgar norðarlega í Svíþjóð en hinar Norðurlandaþjóðirnar er jafnmiklir skussar í tegerð og við. Þjóninn rétti okkur heilt hefti um kaffidrykki staðarins og vinkona mín pantaði sér möndlulatte úr handtíndum, indónesískum kaffibaunum með akasíuhunangi og kanelsýrópsskreyttum, þeyttum rjóma. Ég spurði hins vegar hvaða drykkir væru í boði aðrir en kaffi.
- Heyrðu, þetta er sko ekkert kaffihús, hér einbeitum við okkur að mat, faktiskt, svaraði þjónn með höfuðhorgarhreim, svo háleitur að hefði rignt hefðu droparnir lent í nösum hans.
- Nú, áttu ekki te? spurði ég og hann hélt að einhvers staðar mætti kannski finna Earl Grey poka. Ég var sátt við það enda er það oftast Grár jarl sem endar í bollanum mínum.
Vinkona mín var að renna niður síðustu dropunum af fljótandi tertunni sinni þegar þjónninn henti tómum kaffibolla á borðið ásamt stálkönnu sem notuð er til að flóa mjólk í latte. Í könnunni var poki sem reyndi af fremsta megni að verða te þótt hitastig vatnsins væri slíkt að til þess hefði þurft kraftaverk. Á þeirri stund brast fjörutíu ára stífla og í uppsöfnuðum pirringi spurði ég þjóninn:
- Hvað er þetta?
Þjónninn taldi að hér væri um te að ræða en ég hélt því fram að volgt vatn með tepoka félli ekki undir skilgreininguna á langvinsælasta drykk heims.
- Hér sjóðum við tevatnið í kaffivélinni við áttatíu gráður, faktiskt, svaraði þjónninn háleitur sem fyrr.
- Og við hvaða hitastig sjóðið þið kartöflurnar? spurði ég.
Kaupið hraðsuðuketil!
Ég hef í áraraðir sætt mig við Melrosespoka og volgt, staðið vatn af hitahellu en ég hef aldrei orðið vör við jafneinbeittan brotavilja og á þessum fína stað. Þjónninn viðurkenndi stoltur að teið sem hann selur sé einungis aukaafurð kaffidrykkjanna. Oft hef ég beðið um að tebolla með volgu vatni af hitahellu sé skellt í örbylgjuofn til að drykkurinn minn fái lit og bragð en í þetta sinn ákvað ég að neita að greiða fyrir telíkið. Södd og sæl eftir kaffimáltíðina fór vinkona mín inn að borga en sagði við konuna á kassanum að það væri leitt að ég sem kæmi alla leið frá Íslandi hefði ekki fengið drykkjarhæft te.
- Er hún frá Íslandi? Það skýrir af hverju hún vill hafa vatnið sitt heitt eins og hveravatn, svaraði konan kumpánlega en gerði um leið vandamál staðarins að mínu.
Þegar ég gekk um miðbæinn næstu daga langaði mig að fara og sýna þjóninum You Tube myndbönd í símanum mínum þar sem ráðlagt er um suðutíma vatns og meira að segja tekið fram hvaða eiginleikar vatns henta best hverri tegund af tei. Um slíkt er mér reyndar sama, það eina sem skiptir mig máli er að vatnið sé nægilega heitt til að bragð komi af drykknum sem ég borga fyrir. Áður fyrr var hitastig vatnsins aldrei vandamál enda hraðsuðukatlar í hverju eldhúsi. Nú er ég farin að benda veitingamönnum á að fjárfesta í einum slíkum.
Tegerð og teverð
Í sumar rötuðu tveir Lipton-pokar í fréttir þegar hótelgestur var rukkaður um fjögur hundruð krónur fyrir hvorn þeirra. Gesturinn hafði sjálfur hellt vatni yfir pokana á herbergi sínu. Tepokarnir kosta tuttugu og eina krónu í búð svo að þarna var um nítjánfalda álagningu að ræða og bollaverðið svipað og á veitingahúsi. Á veitingahúsum borgum við að sjálfsögðu aðallega fyrir þjónustu og leigu á borði sem hægt væri að leigja betur borgandi kúnna. Það hlýtur að vera töluvert vandamál í veitingarekstri að nú sitjum við æ lengur yfir einum bolla og það aðeins í félagsskap snjalltækja sem ekkert panta. Ég borga með glöðu geði uppsett verð fyrir tebolla á veitingahúsum – svo framarlega sem í honum sé ósvikin vara. Hins vegar finnst mér einkennilegt að verð á kaffi- og tebolla sé oftast það sama. Mér finnst ég rukkuð fyrir vöruþróun sem sannarlega fer fram á sviði kaffiveitinga en ekki teveitinga.
Eins og fram hefur komið er það vaxandi vandamál að tevatn er ekki borið fram nægilega heitt. Annað vandamál er tekassarnir, fallegir viðarkassar með hólfum fyrir nokkrar tegundir tepoka. Sjálfsagt liggur vöruþróun að baki kössunum og rannsóknir á því hvaða te fólk kýs helst. Vandamálið er hins vegar að þegar þjónar opna kassana með tilþrifum er sjaldnast nokkuð eftir nema það sem fáir drekka. Í sumar opnaði ég tekassa á morgunverðarhlaðborði á íslensku hóteli. Úrvalið var eftirfarandi: Þrjár tegundir af grænu tei og þrjár tegundir af kamilluseyði sem neyta má sér til heilsubótar en fáir drekka sér til ánægju með morgunverði. Á öllu hótelinu var ekki að finna einn einasta poka af svörtu tei. Það er eins og veitingamenn haldi að við tedrykkjufólk kjósum helst að súpa seyðið af blómum. Sjálf drekk ég reyndar gjarnan jurtaseyði en það er allt önnur athöfn en að drekka te.
Ég skrifa þessa grein af því að ég er langþreytt og svekkt en líka af því að ég held að við bjóðum ekki alltaf túristum það sem þeir vilja. Sagt er að asískir ferðamenn nærist einkum á núðlusúpu uppi á herbergjum af því að maturinn hér sé þeim of framandi. Þá sögu sel ég án álagningar, ekki dýrari en ég keypti hana, en ég veit fyrir víst að sjaldgæft er að ferðamenn yfirgefi Ísland ljómandi af hrifningu yfir teinu. Og því væri svo auðvelt að breyta! Bjóðum ferðamönnum en ekki síst okkur sjálfum meira af betra tei. Í eftirlætisbókinni minni um tedrykkju og rökfræði, Lísu í Undralandi, spyr klikkaði hattarinn Lísu hvort megi bjóða henni meira te.
Lísa: Ég hef ekki fengið neitt ennþá svo að ég get ekki fengið meira.
Hérinn: Þú meinar að þú getir ekki fengið minna.
Hattarinn: Já, þú getur alltaf fengið meira en ekkert.