Kæra Sveinbjörg,
Árið 1994 urðu þáttaskil í Suður-Afríku þegar allir íbúar ríkisins fengu rétt til að kjósa óháð húðlit og kynþætti. Þessi réttindi spruttu ekki upp af sjálfum sér heldur komu í kjölfar þrotlausrar baráttu litaða meirihluta ríkisins. Í aldanna rás hafði sá meirihluti verið beittur kúgun af hendi hvíta minnihlutans þar í landi. Sú stefna sem hvíti minnihlutinn beitti til þess halda völdum kallast aðskilnaðarstefna og byggist á þeirri hugmyndafræði að aðgreina íbúa ríkisins út frá húðlit þar sem litaðir borgarar eru álitnir óæðri kynstofn með takmörkuð réttindi. Í kjölfar fyrstu aðskilnaðarlaga Suður-Afríku um bann við hjónabandi hvítra og litaðra einstaklinga spruttu upp allskonar reglugerðir sem aðskilja borgara ríkisins, allt frá aðskildum vatnsbrunnum yfir í aðskilda skóla.
Svipaða sögu er einnig hægt að finna í Bandaríkjunum fram til ársins 1964. Á þeim tíma var óheimilt fyrir börn af afrískum uppruna að sækja nám með hvítum jafnöldrum sínum. Líkt og í Suður-Afríku voru svartir borgarar taldir óæðri. Börn þeirra fengu lakari kennslu í skólum sem fengu mun minna fjármagn, enda var ekki talið nauðsynlegt af hálfu menntayfirvalda að eyða peningum ríkisins í að veita „óæðri börnum“ góða grunnmenntun eða raunveruleg tækifæri til framhaldsnáms.
Ummæli þín sem þú lést falla í þætti hjá Útvarpi Sögu 31. júlí síðastliðinn eru því ekki fyrstu sinnar tegundar. Þar sem börn hælisleitenda eru talinn vera baggi fyrir menntakerfið, að þau ættu að vera í öðrum skólum því það kemur niður á menntun hinna barnanna að hafa þau saman í tíma. Að það taki því ekki að mennta þau þar sem þau verða hvort sem er send í burtu með valdi, að við séum að henda peningum skattgreiðenda út um gluggann með því að hleypa þeim í almenna skóla.
Ísland er aðili að barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna þar sem stendur að: „aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðun þeirra.“
Þessi ummæli þín eru því á algjörri skjön við markmið barnasáttmálans enda eiga börn rétt á því að vera börn óháð stöðu forráðamanna, uppruna, húðlitar, kyns, trúarbragða og fötlunar. Orðum fylgir ábyrgð og sérstaklega orð kjörinna fulltrúa. Ég hvet þig því til að sína ábyrgð, draga ummælin til baka og biðjast afsökunar.
Sagt er að þeir sem ekki læra söguna séu dæmdir til að láta hana endurtaka sig. Því er mikilvægt að gæta þess að þessi kafli mannkynssögunnar fái ekki að endurtaka sig, þess þá heldur í jafn opnu og frjálsu samfélagi og Ísland er.
Höfundur er félagsfræðingur og viðburðastjóri Ungliðahreyfingu Viðreisnar.