Ég er bláeygur og barnalegur bjáni. Maður sem hefur ekki opnað augun fyrir raunveruleikanum, heldur lifir í einhvers konar sápukúlu. Og gott ef ég er ekki á móti Íslendingum sem búa við skort, eru fátækir. Allt þetta, og meira til, má lesa út úr þeirri orðræðu sem verður sífellt háværari, nefnilega að þau sem telja að Ísland eigi að leggja meira af mörkum til að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur séu á móti Íslendingum sem lifa við fátækt.
Þetta, kæri lesandi, er bull. Lýðskrum. Ein af stærstu lygum samtímans eingöngu sett fram til að spila á tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Jákvæðar tilfinningar um samhug gagnvart löndum okkar sem lifa við skort. Neikvæðar tilfinningar um ótta við breytingar, hið óþekkta.
Ef einhver segir þér að það sé einhver tenging á milli þess sem við sem samfélag eyðum í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur og þess að við eyðum ekki nægu fjármagni í húsnæði, félagsaðstoð og stuðning við fátæka Íslendinga, þá er viðkomandi að ljúga að þér. Hann, eða hún, er á lymskulegan máta að tengja saman mál sem tengjast ekki á nokkurn einasta hátt. Ekki frekar en það hvað stjórnarráð Íslands eyðir í ljósritunarkostnað tengist því hvort malbikað er í Berufjarðarbotni eður ei.
Við eigum ekki að líða það að fólk lifi á lúsarlaunum eða enn lægri bótum. Við eigum að berjast með kjafti og klóm fyrir því að allir hafi aðgang að mannsæmandi húsnæði, eigi í sig og á og meira en það.Sá, eða sú, sem heldur þessu fram, hefur hins vegar rétt fyrir sér með annan hluta þessarar fáránlegu jöfnu; nefnilega það að við sem samfélag stöndum okkur ömurlega í því að huga að þeim verst settu. Við eigum ekki að líða það að fólk lifi á lúsarlaunum eða enn lægri bótum. Við eigum að berjast með kjafti og klóm fyrir því að allir hafi aðgang að mannsæmandi húsnæði, eigi í sig og á og meira en það; hafi tóm til að sinna sjálfum sér og sínum, ekki bara skrimta. En þetta hefur nákvæmlega ekkert að gera með flóttafólk og hælisleitendur, ekki neitt.
Eyðum smá tíma til að fara yfir söguna. Ætli einhvern tímann hafi verið það skeið á Íslandi að einhverjir bjuggu ekki við sult og seyru, áttu ekki þak yfir höfuðið, þurftu að þræla fyrir lúsalaun, voru fátækir? Hvernig skýrum við húsnæðiseklu síðustu áratuga og alda? Hvernig stóð á því að fátækt fólk bjó í bröggum og kartöflugeymslum um miðja síðustu öld? Í hreysum um miðja þar síðustu öld? Voru þrælar vistarbandsins þar á undan? Hefur þetta eitthvað með flóttafólk og hælisleitendur að gera? Nei, nákvæmlega ekki neitt, ekki frekar en sú ömurlega staðreynd að enn lifir fólk við fátækt hefur ekkert með flóttafólk og hælisleitendur að gera í dag. Ekki neitt.
Þetta hefur hins vegar allt með ósanngjarna samfélagsgerð að gera. Með launamun. Aðstöðumun. Með það að skattkerfinu sé ekki beitt til jöfnuðar. Með það að sumir græða á tá og fingri, á meðan aðrir lifa við fátækt. Með það að það þyki eðlilegt að launamunur sé mældur í margfeldi tuga í verstu tilfellunum. Með stjórnvöld sem með aðgerðum sínum ýta undir þau sem best hafa það.
Með síðustu ríkisstjórn, sem breytti skattkerfinu í þágu þeirra sem best stóðu. Með núverandi ríkisstjórn, sem viðheldur skattkerfi Sjálfstæðisflokksins, hönnuðu fyrir þau ríku.
Með þá stjórnmálaflokka sem hafa ekki áhuga á að hafa þrepaskipt skattkerfi, svo t.d. ég sem þingmaður borgi hærra hlutfall af laununum mínum í skatt en kennari. Með þá ríkisstjórnarflokka sem dettur ekki í hug að setja upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt svo þau sem hafa tugmilljónir króna í tekjur af fjármagninu sínu borgi hærra hlutfall í skatt en ungmennið sem erfði hlutabréf í Diskókúluframleiðslu Dalvíkur frá afa gamla.
Þetta hefur allt með það að gera að stjórnmálaflokkar sem eru við völd og hafa verið við völd vilja ekki vinna að auknum jöfnuði. Finnst í lagi að sjúklingar borgi fyrir að vera veikir. Að biðlistar séu eftir félagslegu húsnæði. Að húsnæðiskostnaður sé að sliga fólk. Að leigjendur verði að treysta á velvilja leigusala. Og þetta hefur allt með þá kjósendur sem kjósa umrædda flokka að gera.
Fátækt er ekki náttúrulögmál, þó hún hafi fylgt manninum ansi lengi. Hún byggir á þeirri staðreynd að gæðum samfélaga er misskipt, að sumt fólk hefur meira á milli handanna en annað fólk. Það er hlutverk ríkisvaldsins að sporna gegn fátækt, að vinna að jöfnuði, að stuðla að velferð. Til þess þarf vilja og kjark.
En það hefur nákvæmlega ekkert að gera með það fólk sem hrekst hingað yfir hálfan heiminn og leitar hælis. Ekki neitt.
Ef þú trúir því, ertu nefnilega að viðhalda því kerfi ójöfnuðar sem við búum við í dag. Þú ert að ýta undir þá skoðun að afkoma fátæks fólks á Ísland, möguleikar þeirra á betra lífi, hafi eitthvað með flóttafólk og hælisleitendur að gera. Þú ert að draga úr umfangi vandans, þú ert að gefa stjórnvöldum afsökun til að gera ekki neitt. Til að stuðla ekki að auknum jöfnuði. Til að leggja ekki auknar álögur á þau sem best hafa það, á útgerðina, á stærri iðnfyrirtæki, á þau sem eiga nóg af peningum. Þú ert að gefa afsökun fyrir þessu öllu saman. Þú ert að viðhalda ástandinu.
Og þú ert að fara með bull og fleipur. Bull sem byggist á hættulegri afstöðu, því að flóttafólk og hælisleitendur eru útlendingar. Hafðu í það minnsta döngun í þér til að halda fátæku fólki utan við þína fordóma. Því að þessi skoðun ýtir undir útlendingaandúð.
Skömm þeim sem það gera, hvort sem er í stefnu stjórnmálaflokka eða spjalli fólks sín á milli.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna