Er það endilega neikvætt að ungt fólk búi lengur í foreldrahúsum en áður? Með þessari spurningu er ég alls ekki að gera lítið úr núverandi húsnæðisvanda þjóðarinnar heldur aðeins að velta fyrir mér hvort ungu fólki á tuttugustu og fyrstu öldinni liggi lífið á að fullorðnast, ljúka námi og flytja að heiman.
Sjálf bý ég með uppkominni dóttur og tengdasyni á fimmtíu og tveimur fermetrum undir súð. Það er frábært fyrirkomulag. Þau leigja ódýrt og ég fæ örlitlar aukatekjur. Við skiptum með okkur heimilisstörfum og deilum dýrum tækjum sem óþarfi er að ég noti ein. Ég yngist í nærveru þeirra og vona að þau þroskist af umgengni við mig. Þrengslin skapa náin tengsl sem mér finnst forréttindi að eiga við næstu kynslóð á snemmfullorðinsárum hennar.
Kunningi minn einn er ekki jafnsáttur við að hýsa enn ómegð sína. Hann notar gjarnan samlíkingar úr dýraríkinu og segir að ungum hljóti að vera ákveðin mörk sett. Það sé gangur náttúrunnar að foreldrar hætti að bera mat í ungviðið til að því lærist að standa á eigin fótum og fljúgi úr hreiðrinu. Ég tek undir það en bendi hins vegar á að samfélög fólks og fugla séu ekki að fullu sambærileg. Fólk fyllir ekki hreiður sín af nýjum ungum árlega og þekkir yfirleitt fullorðin afkvæmi sín, að minnsta kosti í sjón. Fegurð mannfélagsins felst meðal annars í því að kynslóðirnar hverfa ekki hver annarri heldur halda alla tíð áfram að hafa áhrif á líf hinna. Ég tek þó undir með kunningja mínum að æskilegt sé að hver kynslóð hefji hreiðurgerð þegar von er á fjölgun.
Öllu skal afmarka stund
Ég fæddist inn í barnmergð eftirstríðsáranna. Jafnaldrar mínir fóru sumir að heiman um fermingu, jafnvel alfarnir. Aðrir voru komnir með eigin fjölskyldur á aldri sem við skilgreinum nú sem barnsaldur. Slíkt gætum við varla hugsað okkur í dag. Um tvítugt voru flestir jafnaldrar mínir byrjaðir að búa enda gáfu ættingjar okkar snemma upp alla von um að við gengjum út á sama hátt og þeir efuðust um frjósemi okkar ef ekki kom bráðlega barn undir. Mín kynslóð fjölgaði sér á meðan hún menntaði sig. Mín kynslóð fjölgaði sér og menntaði sig á meðan hún byggði sér hús. Þessi athafnasemi er svo sem ekkert leiðinleg í minningunni en ekki óska ég börnum mínum þess að þurfa að lifa á slíkum hraða. Yngri kynslóðir hafa blessunarlega tileinkað sér siði nágrannaþjóðanna sem afmarka öllu stund og láta sérhvern hlut undir himninum hafa sinn tíma.
Þegar ég stóð á tvítugu var meðalaldur íslenskra kvenna sjötíu og sjö ár. Ég skipulagði líf mitt með þær lífslíkur í huga en með hverju árinu sem ég hef lifað hefur ólifað líf mitt lengst. Nú býst ég allt eins við að verða aldargömul og börnin mín gætu hæglega orðið hundrað og tuttugu. Hví skyldi þeirri kynslóð sparkað úr hreiðrinu um tvítugt? Hún er hvort sem er ekki að fara að fjölga sér að ráði fyrr en á fertugs-, ef ekki fimmtugsaldri.
Fyrir hverja eru húsin?
Margir af minni kynslóð búa enn í stórum húsum með pláss fyrir fleiri en gamla settið. Ungviðið getur vel reynt vængina þótt það búi í foreldrahúsum enda er víðar hægt að hefja sig til flugs. Hér vil ég taka það fram að ég veit að það geta ekki allir hýst börnin sín og auðvitað finnst mér súrt að hvorki sé hægt að kaupa né leigja sér þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði vegna þess að allar íbúðir eru fullar af túristum. En gætum við kannski séð skort á íbúðum sem vaxtarverki nýrrar atvinnugreinar og sætt okkur við hann um skeið? Þar sem ég hef ferðast í Asíu og Mið-Ameríku er heimagisting algengur gistimáti. Mér skilst að stjórnvöld hvetji íbúa til að opna hús sín til að koma í veg fyrir að draugaborgir auðra hótelbygginga standi sem minnisvarði um ferðamannastraum sem breytti um stefnu eins og virðist náttúrulögmál að gerist.
Nú þekki ég ekki vel hugmynda- og hagfræði heimagistingar í ólíkum heimsálfum né vankanta fyrirkomulagsins en mér hefur alltaf þótt einkennilegt hvað þessi aðferð þjóðarinnar til að létta undir við uppbyggingu ferðaþjónustunnar – þessi aðferð almennings til tekjuöflunar og gjaldeyrissköpunar – er lítils virt. Reynsla mín er sú að fátt sé eins fræðandi á ferðalögum og að búa á heimilum annarra og ég geri fastlega ráð fyrir að tilgangur fólks með ferðalögum sé að fræðast og uppræta eigin fordóma um framandi samfélög.
Til hvers er menntunin?
En talandi um fræðslu og menntun, þar er ég á heimavelli. Ég hef lagt stund á hagnýta fræðigrein sem heitir námskrárfræði (curriculum studies) og spannar allt skólastarf, frá vali á töflutússi til ákvarðana stjórnvalda. Nýlega var hér tekin stór námskrárákvörðun um að stytta framhaldsskólann og einnig virðast stjórnvöld vilja skerða aðgang fullorðinna að því skólastigi. Í ljósi þess hve þjóðin er að eldast finnst mér þessi stefna nokkuð skammsýn. Af hverju þarf fólk sem verður ævagamalt að útskrifast úr framhaldsskóla átján ára? Hvað liggur ungu fólki á? Hvað liggur okkur á að láta það fullorðnast?
Framan af ævi stóð ég í þeirri trú að eini viðurkenndi vegurinn til mennta lægi beinn og breiður um Hagaskóla Íslands og Menntaskóla Íslands og lyki með embættisprófi úr Háskóla Íslands. Þetta væri grunnstef menntunar og annað ómerkileg tilbrigði. En svo kynntist ég mislægum gatnamótum menntakerfa heimsins. Ég hef í þrjátíu ár starfað við fullorðinsfræðslu, menntastigið sem endurmenntar fólk í takt við sífelldar breytingar á þörfum einstaklinga og vinnumarkaðar en hvorki einstaklingar né atvinnulíf haga sér alltaf eins og opinber mennta- og atvinnustefna býður. Segja má að það sé eitt af hlutverkum fullorðinsfræðslunnar að leiðrétta ákvarðanir sem fólk hefur tekið um námsval sitt og ákvarðanir sem yfirvöld hafa greypt í stein í aðalnámskrám og annarri reglusetningu um menntamál.
Atvinnulífið er ég og þú
Blessunarlega eru námsbrautir ekki jafneinstefnulegar nú og þær voru þegar ég valdi mitt fyrsta nám. Í dag er í senn flóknara og einfaldara að velja nám, flóknara af því að úrvalið er meira en auðveldara af því að vel hefur tekist að opna blindgötur og gera fólki þannig kleift að skapa samfellu úr menntun sem aflað er á ýmsum æviskeiðum í ólíkum menntastofnunum og jafnvel utan þeirra. Ég held að það hljóti að vera þjóðhagslega hagkvæmt að fólk sé sveigjanlegt á vinnumarkaði og okkur bjóðist að mennta okkur eftir aðstæðum í hvikulum heimi.
Æðri máttarvöld greyptu ekki atvinnulífið í gullnar töflur í fornöld. Hjól atvinnulífsins er tvíhjól sem snýst annars vegar um þarfir fólksins og hins vegar þekkingu þess. Annað hjólið snýst um það sem hvert og eitt okkar hefur að fram að færa í formi menntunar, reynslu og þekkingar en hitt um það sem okkur vantar í formi þjónustu og framleiðsluvara. Þar á milli liggur drifkerfi sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi.
Í árþúsundir hafa námskrárkenningar um tilgang og markmið menntunar verið smíðaðar. Sumar leggja höfuðáherslu á menntun í þágu atvinnuveganna á meðan aðrar telja meginmarkmið menntunar vera að færa menningarauð frá kynslóð til kynslóðar. Enn aðrar segja að hlutverk menntunar hljóti að vera að stuðla að auknum persónuþroska einstaklinganna. Opinber menntastefna er oftast blanda þessara þátta. Mikilvægt hlýtur að teljast að skólinn færi menningarverðmæti milli kynslóða en einnig að menntakerfið tryggi að hæft fólk fáist til að sinna grunnþörfum samfélaga. Í mínum huga renna hins vegar saman þau markmið að mennta fólk fyrir atvinnulífið og að efla persónuþroska einstaklinganna. Þetta er eitt og sama markmiðið af því að atvinnulífið er einstaklingarnir. Mér finnst mikilvægasta verkefni menntakerfisins vera að hjálpa hverjum og einum að finna sterkar hliðar sínar og styrkja þær enn fremur til að fólk geti staðið föstum fótum í einkalífi, atvinnulífi og samlífi þjóðar.
Vandamálið 50+
Fullorðinsfræðsla er mikilvægt skólastig sem gerir fólki kleift að víkka sjóndeildarhringinn og byggja ofan á eldri menntun. Þrennt vakti athygli mína þegar ég kynnist fullorðinsfræðslu í öðrum löndum. Í fyrsta lagi það að kollegar mínir, sem vinna í vel uppbyggðu kerfi fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum, hálföfunda okkur af þeim möguleika að geta nýtt framhaldsskólann fyrir fullorðna en þá einföldu lausn opnaði smæð samfélagsins okkur. Í öðru lagi undraðist ég þá orku sem Evrópuþjóðir leggja í aðstoð við fólk sem villst hefur af leið á menntabrautinni. Það opnaði mér nýjar víddir að kynnast fullorðinsfræðslunni og því hvernig menntun er ævilangur leiðangur með ótal útúrdúrum og síbreytilegum markmiðum.
Það þriðja sem vakti athygli mína var að kynnast fjölda átaksverkefna sem unnin eru á meginlandinu til að bæta stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði. Ég ólst nefnilega upp við að atvinnulífið væri einkum fyrir þá eldri. Nú er hið sama að gerast á Íslandi og annars staðar í Evrópu, að það þrengir að fólki yfir fimmtugu á vinnumarkaði. Hvað liggur á að pumpa inn nýjum árgöngum í atvinnulífið ef henda þarf út vel brúkanlegu vinnuafli á besta aldri?
Er æskulýðurinn lýður?
Í evrópskri menntasamvinnu er aldurshópurinn 18-40 ára skilgreindur sem youth, æskulýður. Fólk tekur því misvel hér heima þegar ég minnist á að við ættum kannski að færa efri aldursmörk æskuáranna ofar í hugum okkar. Okkur finnst gjarnan að æskulýðurinn eigi að ganga í gegnum sömu reynslu og við til að öðlast nokkurn þroska. Ég man að ég sagði oft við börnin mín að ég hefði sko verið farin að vinna í fiski fjórtán ára og gaf þannig í skyn að það væri þeirra sök að vinnumarkaðurinn þarfnaðist ekki lengur barna. Ég veit ekki af hverju ég var sífellt að nefna þetta vegna þess að ég hefði ekki sent þau í frystihús fjórtán ára fremur en ég hefði selt þau í barnaþrælkun og mansal.
Ungt fólk í dag er dásamlega laust við að reyna að sýnast ráðsett. Það er leitandi og mátar sig við margvíslegt nám eða breiðir út vængina á nýskapandi hátt á óþekktum slóðum. Æskulýðurinn ferðast um heiminn í leit að nothæfri heimsmynd á nýhöfnu árþúsundi og hefur kannski vetursetu vinnandi á kaffihúsi í borg eins og Berlín á meðan berlínskur æskulýður reynir vængina á kaffihúsum í öðrum álfum og fær að búa í foreldrahúsum einhvers annars á meðan.
Ég hef hýst farandæskulýð á meðan ungarnir mínir unnu annars staðar. Ég hef líka orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá nýlega að vinna á veitingahúsi. Ég sé því kaffihús heimsins sem gróðurreit fjölmenningar og skapandi hugsunar. Eitt sinn þegar ég skrifaði um það á vegginn minn svaraði kona og sagði að þetta væri ekki veröld sem hún vildi enda væri hún komin af harðduglegu verkafólki. Ég varð að hryggja hana með þeim fréttum að hún hefði ekkert val, þessi heimur er hér. Unga fólkið sem hleypur tólf tíma vaktir á kaffihúsi á milli þess sem það vinnur að sköpun sinni er einmitt harðduglegt verkafólk.
Blessuð framtíðin
Ungt fólk í dag býr sig undir aðra framtíð en við hin eldri gerðum. Við héldum veislu sem unga fólkið þarf nú að taka til eftir. Vissulega skiljum við margt gott eftir okkur í formi uppfinninga og gjörbreyttra hugmynda um jafnrétti og mannréttindi. Nýjar kynslóðir taka við því kefli en stóra verkefni þeirra verður að skapa vinnumarkað sem gengur minna á auðlindir jarðar. Ungt fólk virðist sem betur fer meðvitað um verðmæti hins óefnislega, um gildi hugsana og hugmynda. Í framtíðinni verða til framleiðsluvörur sem þarfnast ekki efnislegrar útfærslu enda mun innra afl einstaklinganna knýja hjól atvinnulífsins.
Skapandi greinar eru alltaf skrefi á undan öðrum atvinnugreinum. Í listinni hefur um árþúsunda skeið mátt finna vísbendingar um hvað koma skal. Litlar sprænur sem eiga upptök sín í listum sameinast í þungri undiröldu meginstraumsins sem mótar samfélagið. Listir kenna útsjónarsemi og þess vegna eru skapandi greinar hagnýtar. Um þessi árþúsundamót horfum við á listformin renna saman og leita aftur til upprunans, til vísindanna sem listin er sprottin úr. Við sjáum líka að öll samsetning menntunar er að breytast. Bráðum verða sjálfsagt gerðar kröfur um andlega iðkun læknanema og eðlilegt mun þykja að spyrða saman heimspeki og verkfræði í háskólagráðu.
Gefum ungu fólki lausan tauminn í leit sinni að nýjum lausnum í þágu okkar allra og skjótum yfir þau skjólshúsi á meðan!