Um 24,5% Grikkja eru atvinnulausir. Um 21,4% Spánverja. Í Kýpur er tæplega 16% atvinnuleysi, 13% í Króatíu, 12% í Portúgal, 10% í Austurríki, 8% í Finnlandi. Allir borgarar þessarra ríkja hafa rétt á því að flytja til Íslands og starfa hér. Þó eru ekki tugir þúsunda Grikkja, Spánverja, Kýpurbúa, Króata, Portúgala, Austurríkismanna og Finna að flæða inn á vinnumarkaðinn hérna. Það koma einhverjir til Íslands frá einhverjum löndum í leit að nýju lífi til lengri eða skemmri tíma, en yfirgnæfandi meirihluti þeirra 500 milljón manna sem mega koma til Íslands og starfa hér án þess að uppfylla sérstök skilyrði gera það ekki.
Þrátt fyrir þessi sannindi er tilhneigingin á Íslandi að líta svo á að allir sem komi hingað séu sjálfkrafa byrði á kerfinu; að þetta séu vammlausir aumingjar sem þurfi ölmusu sem við erum ekki endilega tilbúin til að veita. Atvinnuleysi á Íslandi var 1% í júlí 2017, og líklega mun lægra í reynd þar sem kerfið okkar neyðir marga öryrkja til að skrá sig á atvinnuleysisskrá í veikri von um minniháttar hlutastarf, sem aldrei fæst, til að drýgja tekjur sínar.
Ergjandi þenslan
Við þurfum fleira fólk. Það eru jú einhverjir atvinnulausir á Íslandi, að einhverju leyti vegna þess að störf sem eru í boði eru ekki við hæfi og að einhverju leyti vegna þess að störfin eru ekki á sama stað og fólkið, eða eru ekki aðlaðandi, eða eitthvað, en atvinnuleysi á Íslandi er með því lægra sem þekkist. Slíkt skapar spennu.
Þegar stjórnmálamenn og hagfræðingar tala um að þensla sé svo og svo mikil þá meina þeir að hagkerfið sé að þenjast út, sem er að einhverju leyti vegna framleiðsluspennu. Framleiðsluspenna orsakast af því að það er ekki hægt að gera jafn mikið og þörf er á. Oft vegna skorts á tækjum, oft vegna skorts á fólki. Allir sem hafa reynt að ráða einhvern í vinnu undanfarin ár vita hversu ergjandi framleiðsluspenna er.
Annar þáttur í þenslu er húsnæðisskortur. Hagkerfið er ekki bara að þenjast út af því að það er svo mikið að gera, heldur vegna þess að það er ekki nóg af einhverju og þá hækkar það í verði, sem eykur magn peninga sem þvælast fram og til baka. Hæglega gengur að leysa húsnæðisskortinn, að hluta til vegna þess að framleiðsluspennan er svo mikil: það fæst ekki nógu mikið af fólki til að byggja ný hús. Allir sem hafa reynt að ráða iðnaðarmann upp á síðkastið vita hversu ergjandi þensla er.
Einn og einn og einn
Staðreyndirnar tala sínu máli: flóðgáttirnar eru opnar. Það gætu 500 milljón manns flutt hingað, löglega, á morgun. En það gerist ekki. Í staðinn birtist einn og einn frá Póllandi, Litháen og öðrum Evrópulöndum. Svo koma nokkrir frá öðrum löndum. Í einhverjum tilfellum kemur það frá löndum þar sem er mikil neyð: Sýrlandi, Írak, Suður Súdan og víðar. Í einhverjum tilfellum kemur fólkið frá löndum þar sem það er í lífshættu af einhverjum ástæðum: Nígeríu, Albaníu, Afganistan og víðar. Í einhverjum tilfellum er það frá löndum þar sem ekkert gríðarlega aðkallandi er að, en því langar til að vera annars staðar vegna þess að illmenni ræður ríkjum í heimalandinu, eða því langar bara að ferðast og sjá heiminn: Bandaríkin, Indland, Indónesía.
Það sem er líkt með þessu fólki öllu og fólkinu frá Evrópu er að það eru ekki tugþúsundir manna að flæða inn, heldur einn og einn. Munurinn er sá að við leyfum það ekki.
Fyrir vikið er tveggja ára stelpa á Íslandi, sem hefur hvergi ríkisfang og getur því ekki ferðast með foreldrum sínum. Fyrir vikið er hér hámenntaður maður frá Bandaríkjunum sem hefur búið hér í mörg ár, en þarf stöðugt að standa í endurnýjun á landvistarleyfi. Fyrir vikið er búið að varpa heilli fjölskyldu úr landi, sem upplifir martraðir daglega á flótta en vildi bara fá að vera dugleg á Íslandi. Fyrir vikið eru tvær ellefu ára stelpur sem verða bráðum reknar á flótta fyrir engar sakir aðrar en að hafa ekki náð að brjótast í gegnum hjartalausa innflytjendastefnu Íslands.
Reglurnar okkar eru ekki bara ómannúðlegar, þær eru líka efnahagslega fáránlegar. Þær ganga gegn allri skynsemi.
Ef Ísland væri skynsamt ríki, þá myndum við auðvelda fólki að koma hingað sem gæti verið gagnlegt. Við gætum til dæmis tekið upp þá reglu að bjóða fólki með haldbæra menntun eða starfsreynslu ótímabundið landvistarleyfi; það er hreinlega augljóst að það er gagnlegt fólk, sem kann hluti. Einnig gætum við farið að taka mark á fólki sem sýnir fram á þekkingu og færni. Það er bagalegt hvers konar hæfileikum við erum að sóa vegna þess að við neitum að samþykkja góða menntun frá fjarlægum löndum.
Ýmislegt gætum við gert og orðið betri fyrir vikið.
Bjánaskapur og sturlun
Á dögunum lak skýrsla innan úr breska stjórnkerfinu, þar sem skeggrætt var á 83 blaðsíðum hvernig skyldi búa um innflytjendur, jafnvel frá Evrópu, eftir að Brexit ætti sér stað. Hugmyndin virðist fyrst og fremst vera sú að fæla alla burt sem ekki eru aldir upp á tei og skonsum. Efnahagslega er þessi hugmyndafræði stórkostlega heimskuleg.
Fullt af bráðsnjöllu og vel menntuðu fólki er á flótta í dag, af ýmsum ástæðum, og fullt af bráðefnilegu fólki er að leita að nýju heimili. Sumir flýja raunverulega ánauð, aðrir flýja forheimskaða einangrunarstefnu og enn aðrir eru bara að flýja leiðindi og hversdagsleikann. En allt þetta fólk á það sameiginlegt að vilja gott líf. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að skilja mikilvægi dugnaðar. Allt þetta fólk vill hjálpa samfélaginu okkar.
Hvers konar bjánaskapur er það að hafna þeim? Alveg burtséð frá því hversu hatramt það er og sturlað, þá er það líka beinlínis gegn okkar eigin hagsmunum. Dyrnar eru opnar upp á gátt í dag, en fáir koma í gegn. Við þurfum ögn fleiri, og það eru fleiri sem vilja koma. Verum vitur. Opnum þær ögn meir.
Höfundur er þingmaður Pírata.