Ég held að það sé mikilvægt að við spyrjum okkur: Af hverju kjósum við núna? Ástandið er ekki eðlilegt og að sjálfsögðu á ekki að þurfa að kjósa hér árlega á þing.
Ástæða þess að við kjósum nú, er einfaldlega að enn einu sinni er fólki nóg boðið. Enn einu sinni fær fólk nóg af því hvernig valdinu er beitt hér á landi og hvernig þeir sem eiga, þykjast allt mega. Þannig sýnist mér best að það sem við gerum upp í þessum kosningum, og ræðum í aðdraganda þeirra, er nákvæmlega hvernig stjórnarhætti við viljum.
Það sem olli þessum kosningum var ekki eitthvað „áhlaup að vel athuguðu máli“, eins og Björt framtíð vill meina (sjá hér). Við kjósum einfaldlega af því fólki ofbauð og þá skapaðist færi fyrir Óttarr Proppé og stjórn BF til að fá nóg. Fólki ofbauð aftur hvernig Sjálfstæðisflokkurinn umgengst valdið sem hann hefur verið handhafi að nærri allan lýðveldistímann. Leyndarhyggja, pukur, plott og handstýrðar atburðarásir er það sem er að springa í loft upp, enn eina ferðina. Kosningar nú eru þær fjórðu í röð, þar sem Bjarni Ben leiðir Sjálfstæðisflokkinn niðurlægðan í gegnum kosningabaráttu. Í kosningum 2009 þurfti að gera upp við hrunið, í kosningum 2013 þurfti að gera upp við viðskiptafléttur formannsins, í kosningum 2016 þurfti að gera upp við Panamaskjölin og lekamálið. Og nú þarf að rekja upp þræði samtryggingar, leyndar, pukurs og valdbeitingar. Í öllum tilfellum fer af stað kunnuglegur farsi þar sem málinu er drepið á dreif, eins og kollegi minn í Norðurþingi rakti vandlega (sjá hér). „Karlar sem passa karla“ sagði hann og hitti naglann á höfuðið og einhvernvegin sleppur Bjarni í gegn og Sjálfstæðisflokkurinn kemst í oddastöðu. Jafnvel enn á ný heyrast raddir sem vilja meina að þetta sé nú allt Jóhönnu og Steingrím að kenna, svo langt er seilst í að drepa öllu á dreif.
Í umræðuþáttum og fréttum er spurt hvaða mál eigi nú að ræða í aðdraganda kosninga. Hvað varðar stóru málin sem brenna á fólki og snúa að velferð, menntun, samgöngum og byggðamálum þá blasir alveg við fyrir hvað Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð standa. Rétt áður en stjórnin féll var lagt fram fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar og þar má glögglega lesa hvernig þessir flokkar forgangsraða fjármunum og alger óþarfi að hlusta á einhvern fagurgala í kosningabaráttu. Samantekið birtist þar áhersla á að skapa kunnuglegt „svigrúm til einkareksturs“ á öllum sviðum, með því að svelta allt sem tilheyrir hinu opinbera kerfi (lítið dæmi hér). Þar hefur fólk einfaldlega val og þorri landsmanna virðist vilja öfugri velferð en þessir flokkar vilja bjóða.
Hinsvegar til að forðast það að kosningar verði árlegur viðburður í kjölfar berjatínslu, þá þarf að gera upp við Sjálfstæðisflokkinn. Það þarf að gera upp við hvernig þeir beita valdi sínu leynt og ljóst. Það þarf að gera upp við hefð samtryggingar, yfirgangs og hroka. Það þarf að gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá völdum í allavega tvo heil kjörtímabil, eitt er ljóslega ekki nóg. Með því að gefa samfélaginu og stofnunum okkar andrými í nokkur ár, án kæfandi yfirgangs Sjálfstæðisflokksins, þá fáum við heilbrigðara samfélag. Ég virði skoðanir þeirra sem eru á hægri væng stjórnmála, þó ég sé þeim ósammála, en þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um að losa okkur við valdastofnun sem ítrekað hefur misbeitt valdi sínu og er svo kyrfilega vafin í allt sem miður fer í okkar samfélagi. Þetta veit ég að Sjálfstæðismenn með sjálfsvirðingu skilja, en nú þarf að sýna það í verki.
Höfundur er varabæjarfulltrúi VG á Akureyri.