Frá því að olía fannst í Norðursjó, á norsku yfirráðasvæði, hefur efnahagur Norðmanna styrkst mikið. Það skal engan undra, enda stærðirnar miklar í olíuheiminum og fyrir smáríki meðal Norðurlanda þá er var olíufundur algjör vítamínsprauta fyrir efnahaginn.
Í vikunni sem leið fór eignasafn olíusjóðs Noregs í fyrsta skipti yfir þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 21 milljón króna á hvern íbúa Noregs. Þeir eru 5,1 milljón.
Sjóðurinn er stærsti fjárfestingasjóður sinnar tegundar í heiminum og á nú 1,3 prósent allra skráðra félaga í heiminum.
Tvö atriði varðandi norskan efnahag eru athyglisverð þegar horft er til stöðu mála á Íslandi.
1. Norðmenn bera virðingu fyrir markaðsbúskap en hika ekki við að láta ríkissjóð landsins stíga inn á þann vettvang sem eigandi kjölfestuhluta í stærstu fyrirtækjum landsins. Þannig á norska ríkið 68 prósent hlut í Statoil og á bilinu 30 til 50 prósent í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins, eins og Norsk Hydro, Telenor og DNB bankanum. Þá á ríkið einnig orkufyrirtækið Statkraf að öllu leyti, svo eitthvað sé nefnt.
Það sem er merkilegast við þessa stöðu, er að um þetta mikla burðarhlutverk norska ríkisins á markaði hafa í gegnum tíðina ekki verið miklar deilur. Þó vissulega séu deildar meiningar um hversu mikið hlutverkið á að vera, þá segir það mikla sögu að þessi staða hefur lítið breyst í langan tíma. Þetta er samþykkt til hægri, vinstri og á miðjunni í hinu pólitíska landslagi.
2. Norðmenn hafa passað upp á að safna olíuauðnum upp utan Noregs og líta á hann sem varasjóð. Í dag er hann geymdur að 96 prósent leyti utan Noregs, aðallega í verðbréfum af ýmsu tagi. Stjórnmálamenn geta ekki haft áhrif á sjóðinn eða fjárfestingar hans, en það er tryggt með regluverki sem heyrir undir Seðlabanka Noregs.
Stærð sjóðsins er svo yfirþyrmandi, að ef t.d. 1 prósent af innstreyminu í sjóðinn í gegnum tíðina væri búið að fara inn í norska hagkerfið beint þá gæti það yfirhitnað strax og búið til aðstæður fyrir kollsteypur, upp og niður.
Pólitísk sátt er einnig um að skattlegja nýtingu olíuauðlindarinnar með háum skatti. Um 78 prósent skattur er á hagnað Statoil, en ríkið á félagið síðan að stórum hluta. Allur hagnaður af þessari auðlind fer þannig beint og óbeint í vasa almennings í Noregi, í gegnum sameiginlega sjóði.
Yfirvöld í Noregi horfa til þess að byggja upp rafmagnsmarkað sinn með endurnýjanlegum orkugjöfum, með sambærilegum hætti. Ekki aðeins með því að eiga hlutabréfin í stærstu fyrirtækjunum, heldur líka með háum skatti á allan hagnað í orkugeiranum. Á næstu tíu árum ætla Norðmenn að leggja sex sæstrengi og selja um þá rafmagn til Evrópuríkja.
Þverpólitísk sátt hefur verið um þessa meginhugmyndafræði. Þar sem blandast saman burðarhlutverk ríkisins og markaðsbúskapur, því í mörgum tilvikum eru félögin þar sem ríkið er kjölfestuhluthafi skráð á markað sem ríkið á stóran hlut í.
Í Noregi hefur lítill kraftur farið í að rökræða um hvort það sé vitlaust að ríkið eigi auðlindasjóð eða skattleggi hagnað af auðlindum með háum skatti. Ástæðan er sú að sagan í Noregi hefur sýnt að þetta blandaða hagkerfi er skynsamlegt og frekar til þess fallið að skapa stöðugleika heldur en önnur kerfi.
Við Íslendingar mættum horfa í þessa hluti hjá Norðmönnum og læra af þeim. Velgengni þeirra snýst ekki bara um olíuna, heldur um sátt um að byggja upp stoðirnar með blönduðu hagkerfi ríkisins og einkaaðila, og auðlindanýtingu í þágu almennings. Fyrir smáríki í alþjóðavæddum heimi, þá getur þetta verið beinlínis lykillinn að velgengni. Um mikilvægustu atriðin er þverpólitísk sátt.