Costco er besti staðurinn fyrir nýfráskilið fólk að vera, í svoleiðis sitúasjón eru stórmarkaðir miklu skemmtilegri en listasöfn, blessuð vertu, ég er búinn að skilja svo oft, sagði lagsmaður móður minnar en hún hefur skilið við þrjá sambýlismenn og af því að þau skildu svo vel hvað það væri að skilja, þá buðu þau mér nýfráskilinni ásamt syni mínum í sunnudagsbíltúr í Costco.
Maður gleymir öllum prívat problemum meðan maður sjoppar, bætti lagsmaðurinn við þegar hann parkeraði bílnum, maður sjoppar alveg æðisgengið svona nýskilinn.
Í hauslausu landi
Ég ýlfraði í aftursætinu með taugakerfið útþanið eftir síðasta nýskilin-nú-skaltu-trítuð uppátæki vandamanna en æskuvinkona mín, verandi lögfræðimógúll, hafði þessa sömu helgi viljað gera vel við einstæðu móðurina og keypt ofan í mig kokkteila stanslaust í sjö klukkustundir á Hótel 101 Reykjavík. Ég hef ekki þjáðst svona af timburmönnum síðan níutíu og eitthvað, við höfðum drukkið ófá glösin af mjög svo örvandi kaffikokkeilum með þeim afleiðingum að fyrir rest minntum við á manninn í Trainspotting sem hvarf ofan í klósettið.
Mér var skapi næst að lögsækja hana fyrir þessa líka aðför að mannorði mínu (í krafti auðmagns) en þorði því ekki af því að hún er svo útsmoginn lögfræðingur.
Við höfðum svallað þetta meðan Róm brann og nú sat ég þarna í bílnum í hauslausu landi án ríkisstjórnar, sjálf hauslaus, nýskilin, sonurinn búinn að eyða öllum kontöktum úr símanum mínum og veðrið úti óeðlilega hlýtt miðað við árstíma. Ég hef ekki fundið til svona mikils vanmáttar síðan ég var með son minn nýfæddan á brjósti að horfa á söfnun fyrir sveltandi börn á BBC og hringdi snöktandi í fjármálastjóra Forlagsins til að biðja hann um að gefa eins og andvirði einnar metsölubókar í söfnunina. Sem hann gerði glaður (djók).
Allt fólkið í Costco
Lagsmaður móður minnar var á spariskónum og hafði því ákveðið að geyma nauðsynleg bensínkaup þangað til við rynnum í hlaðið á Costco. Í nokkra mínútur var því útlit fyrir að við yrðum bensínlaus úti í vegarkanti. Allt var þetta farið að minna ískyggilega á raunsæja kvikmynd með gamansömu ívafi á Sundance-kvikmyndahátíðinni.
Það var þó ekki fyrr en við vorum komin inn í Costco og mamma mín búin að rífa af mér fötu með ólífum með þeim orðum að einhleyp kona hefði ekkert að gera við svona stóra skammta að ég fylltist knýjandi þörf til að leggjast í gólfið og hjúfra mig upp að næsta frysti. Bara frjósa þar og horfa á fólkið sem tróðst hvert um annað með risastórar innkaupakerrur en samt eitthvað svo brjóstumkennanlegt í þessu ríkisstjórnarlausa landi.
Mér varð hugsað til pistils eftir breska konu, Caitlin Moran, sem hafði velt fyrir sér hvernig ólíkir hópar í samfélaginu upplifðu það gjarnan misjafnt þegar skipt væri um ríkisstjórn, meðan efri millistéttin upplifði helst átök um hugmyndafræði og smá núning gætu áherslur nýrrar ríkisstjórnar sett minnstu smáatriði í hversdeginum úr jafnvægi hjá viðkvæmari hópum. Óvissan um það sem koma skal verður svo mikil og reynir á. Segir sig sjálft, já, vissulega, en fékk mig samt til að finna til (taugaþaninnar) samúðar með öllu þessu allskonar fólki í Costco.
Hamfarir eða framfarir
Um daginn sat önnur vinkona mín á svölunum hjá mér þegar við heyrðum óminn af mótmælum á Austurvelli. Ég get þetta ekki lengur, sagði vinkona mín, þó að maðurinn hennar væri einmitt staddur þar í þessum töluðu orðum.
Hvað? spurði ég.
Allt þetta stjórnmálarugl, sagði hún, annáluð rekstrarmanneskja, og bætti háðsk við: Væri ágætt að vita hvort maður tapi peningunum sínum næstu árin í meiri skattheimtu eða öðru hruni. Af hverju er ekki hægt að hafa bara smá kommon sens, af hverju þarf þetta að vera svona óstöðugt?
Vinkona mín er ein af öllu þessu allskonar fólki, þó að hún hafi ekki verið í Costco um daginn, fólki sem maður hittir nú daglega og finnur til óöryggis, svartsýni og jafnvel ótta um sig og sína í pólitísku umbrotaástandi. Við erum öll þetta fólk að einhverju leyti, allavega mörg.
Kannski kemur eitthvað gott út úr þessu, sagði ég, minnug kínverska máltækis – eða er það kínverskt skriftákn sem segir þetta – að hamfarir séu framfarir (þó ákveðnar undantekningar á því).
Hún horfði hugsi á mig og sagði: Kannski.
Sænska útgáfan af The Office
Ég starði á fólkið í Costco hamstra vörur í risapakkningum eins og enginn væri morgundagurinn og velti fyrir mér hvort pólitískt upplausnarástand gæti mögulega valdið kaupfíkn eða þá jafnvel auknum hagvexti. Löngunin til að faðma frystinn gerðist æ kröftugri.
Veruleikinn var orðinn svo skrýtinn. Það virtist svo stutt síðan ég sat heima hjá mér, þá í Berlín, og horfði á Sigmund Davíð Gunnlaugsson í þýsku fréttunum í síendurteknu og óhemju vandræðalegu myndskeiði sem minnti helst á The Office en reyndist vera úr sænskum fréttaskýringaþætti. Þá hélt maður að stundin væri eins konar hápunktur undarlegs tímaskeiðs sem hófst með hruninu 2008. En nei, greinlega ekki.
Ég lagðist ofan í frystinn og fann langþráða værð færast yfir mig – kannski ekki alveg, en í huganum.
Fæðuöryggisþrá
Svo var það í síðustu viku að tveir vinir mínir kíktu í kaffi, annar nýkominn frá Þýskalandi, hinn frá Frakklandi. Ég sagði þeim frá Costco-ferðinni og þessari skyndilegu löngun að leggjast í gólfið þar og bara ... vera.
Þetta er alþekkt fyrirbæri, sagði þá þessi sem var nýkominn frá París. Allavega hef ég lesið um þetta, fólk gerir þetta í Frakklandi.
Er það virkilega? spurði ég hissa.
Það finnur öryggi í stórmörkuðum og vill helst ekki yfirgefa þá, sagði hann, nokkuð viss í sinni sök.
Já, þetta er bara lógískt, sagði sá þýsk-íslenski. Þú hefur fundið til fæðuöryggis.
Um leið og hann sagði þetta mundi ég eftir grein eftir Kristrúnu Heimisdóttur sem birtist, að mig minnir, hér í Kjarnanum fyrir einhverjum árum en við að lesa hana hafði í fyrst runnið almennilega upp fyrir mér hversu tæpt íslenskt samfélag stóð á haustdögum 2008. Kannski er ég með áfallastreitu, kannski erum við öll ennþá með áfallastreitu, þrátt fyrir allt og allt, minnug þess hvernig hefði getað farið ...
Við megum ekki við meiru.
Við þráum fæðuöryggi.
Annars neyðumst við til að borða bananaskjölin hans Sigmundar.
Á skjön við allt
Ég held, meira að segja, að Michel Houellebecq hafi ort ljóð um niðurbrot í stórmarkaði, sagði þýsk-íslenski vinur minn og gerði sér lítið fyrir, fann ljóðið, þýddi það og sendi mér til að birta hér í þessum pistli.
Og hér er þetta ljóð sem mér finnst lýsa ... allavega einhverju ástandi.
Fyrst hrasaði ég í frystinum.
Ég fór að gráta og fann fyrir svolítilli hræðslu.
Einhver tuðaði að ég væri að eyðileggja stemninguna.
Til að þykjast vera eðlilegur gekk ég áfram.
Fínpússað úthverfafólkið með miskunnarlaust augnaráð
læddist í kringum Mineral-vatnið.
Dempað hljóð eins og í sirkus, eins og feimnisleg orgía
reis af hillunum. Göngulag mitt reikult.
Ég brotnaði saman við ostaborðið.
Þar voru tvær gamlar konur sem héldu á sardínum.
Sú fyrri sneri sér við og segir: Þetta er frekar sorglegt, maður á hans aldri.
Þá sá ég fætur, varkára og stóra.
Starfsmaður markaðarins greip til aðgerða.
Fólk virtist furða sig á nýju skónum mínum.
Að síðustu fann ég mig á skjön við allt.