Flestir foreldrar ungra barna á Íslandi kjósa að leikskóladagur barnanna þeirra sé 8 tímar eða lengur (samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands). Og ég held að allir foreldrar vilji það besta fyrir börnin sín, það voru foreldrar fyrri tíma líka með í huga þegar þau sendu ung börn sín í sveit á sumrin – nú vitum við að sveitadvölin fór ekki alltaf vel með þau börn.
Stjórnmálafólk þarf eðlilega að forgangsraða þegar fjármagni er deilt út, en þar tel ég að börn hafi of oft lent svo neðarlega í forgangsröðinni að gengið hafi verið á rétt þeirra. Þar má benda á að í hruninu varð mikill niðurskurður á rekstri leikskóla og þegar vel fór að ára þá voru leikskólarnir svo illa farnir af viðhaldsleysi að fjármagnið fór að mestu í að lagfæra byggingarnar - en ekki annan aðbúnað líkt og að auka rými barnanna. Sumir leikskólar veita börnum gott rými en alltof margir hafa lítið rými og lélega hljóðvist.
Ímyndaðu þér að þið séuð 10 í fjölskyldunni og búið í 70 fermetra íbúð og allir heima á daginn. Þannig rými búa flest leikskólabörn á Íslandi við í 8-9 tíma á dag. Hvar er barnið þitt á daginn? Er það í leikskóla með góðu rými? Spurðu leikskólastjórann og stjórnmálafólk að því, barnið þitt á það skilið.
Leikskólaganga í góðum leikskóla er mikilvægur þáttur í skólagöngu barnsins þíns, en það er ekki gefið að allir leikskólar séu góðir. Eru leikskólakennarar með barninu þínu á daginn? Spurðu, leikskólastjórann og stjórnmálafólk. Barnið þitt á skilið að fá góða menntun frá upphafi skólagöngu. Sumir leikskólar eru vel mannaðir leikskólakennurum en allt of margir eru það ekki.
Ímyndaðu þér að þú sért kominn á hárgreiðslustofu til að láta klippa þig og þér er annt um hárið þitt. Einstaklingurinn sem á að klippa þig, hefur reynslu af að gegna ýmsum störfum en ekki að klippa hár og hefur ekki lært það fag. Þegar þú gerir athugasemd við menntunarleysi einstaklingsins, þá er þér bent á að viðkomandi sé góð manneskja! – Þú hugsar ef til vill “Ok, það er nauðsynlegt, þá klippir hún mig ekki í eyrað” en er það nægjanlegt til að þú leyfir þeim óreynda og ómenntaða að klippa hárið á þér? Gerðu kröfur fyrir hönd barnsins þíns á rétti þess sem samfélagsþegns - það á það skilið.
Ég hvet stjórnmálafólk til að setja aðbúnað barna í forgang; skoða hvar skóinn kreppir að, í aðbúnaði leikskólabarna, og gera betrumbætur ef þörf er á. Hverju samfélagi ber að líta á börn sem fullgilda þjóðfélagsþegna og þau eiga rétt á góðri skólagöngu.
#höfumháttfyrirbörnin
Höfundur er doktor í leikskólafræðum og starfar í leikskólanum Aðalþingi í Kópavogi.