Konustjórn, íhaldsstjórn eða Moggastjórn?

Auglýsing

Lokið er einni erf­ið­ustu kosn­inga­bar­áttu sem farið hefur fram á Íslandi, að minnsta kosti hin síð­ari ár. Hún ein­kennd­ist af leiða og áhuga­leysi almenn­ings, stjórn­mála­manna og að ein­hverju leyti fjöl­miðla á mik­il­væg­asta verk­efni lýð­ræð­is­ins, kosn­ingum til þings. Það voru allir dauð­fegnir þegar þessu var lok­ið.

Ástæður þessa eru marg­þætt­ar. Í fyrsta lagi var aug­ljós­lega verið að kjósa í annað sinn á einu ári. Og ástæður kosn­ing­anna hafa í hvor­ugt skipti nokkuð haft með mál­efna­á­grein­ing að ræða heldur snú­ist um per­sónu­legan breysk­leika stjórn­mála­manna, spill­ingu, óheið­ar­leika, leynd­ar­hyggju eða vald­níðslu. Í öðru lagi virð­ist sífellt stærri hluti almenn­ings ein­fald­lega vera að gef­ast upp á stjórn­málum og kýs að lífa lífi sínu án þess að gefa þeim neinn ráð­andi stað í hvernig það þró­ast. Í þriðja lagi hefur per­sónu­níð, og nafn­laus falskur áróður sem and­lits­lausar sellur í bak­landi stórra stjórn­mála­flokka borg­uðu háar fjár­hæðir fyrir að koma fyrir augu kjós­enda í gegnum sam­fé­lags­miðla og vett­vangs eins og Youtube, verið ráð­andi í fyrsta sinn í íslenskum kosn­ing­um. Það er í algjörri and­stöðu við lög um fjár­mögnun stjórn­mála­flokka og full­komið virð­ing­ar­leysi fyrir bæði kjós­endum og lýð­ræð­inu.

Nið­ur­staðan er eins og kannski við var að búast bæði nei­kvæð og jákvæð, óháð því hvaða stjórn­mála­flokk við­kom­andi styð­ur. Konum og ungu fólki fækkar og mið­aldra karl­mönnum fjölgar umtals­vert. Það er í full­kominni and­stöðu við þann stað sem við ættum að vera á árið 2017. Það má hins vegar fagna nið­ur­stöð­unni sem kom upp úr köss­unum að sumu leyti. Aldrei áður hafa verið jafn margir flokkar á Alþingi og aldrei áður hafa þeir verið jafn ólík­ir. Það þýðir að fjöl­breyti­leiki þjóð­ar­innar end­ur­spegl­ast mjög vel í þeim full­trúum sem sitja á mik­il­væg­ustu stofnun henn­ar, Alþingi. Og fjöldi flokk­anna gerir það alls ekki að verkum að erfitt verði að mynda rík­is­stjórn ef vilji er til stað­ar. Í raun eru mun fleiri mögu­leikar í stöð­unni nú en voru fyrir ári síð­an.

Auglýsing

Ákall um meiri sam­vinnu

Hvernig á að túlka þau skila­boð sem kjós­endur eru að senda stjórn­mála­flokkum í þessum kosn­ing­um? Ein leið til að túlka þau er að ákall sé um meiri sam­vinnu ólíkra afla. Kjós­endur hafna bylt­ingu en þeir hafna líka óbreyttu ástandi.

Önnur aug­ljós skila­boð eru líka þau að óþol gagn­vart valda­kerf­inu eru ríkj­andi. Tveir popúl­ískir, en ólík­ir, flokk­ar, ná eft­ir­tekt­ar­verðum árangri. Það er í fyrsta sinn sem slíkir ná inn sem afl á íslenskt Alþingi. Áður hefur hann verið bund­inn við ein­stak­linga innan flokka.

Popúl­ismi ein­kenn­ist vana­lega af þjóð­ern­is­kennd, ein­angr­un­ar­hyggju, and­stöðu gegn elítum, rót­tækum og oft ill­fram­kvæm­an­legum lausnum á vanda­málum sam­fé­lags­ins. En síð­ast en ekki síst er popúl­ismi, eins og hann hefur birst okkur í Evr­ópu og Banda­ríkj­unum á síð­ustu árum, grund­vall­aður á trú á sterkan leið­toga sem búi yfir ein­hvers­konar æðri skiln­ingi og getu til að leysa vanda­mál.

Sam­an­lagt verða tveir flokkar sem inni­halda að minnsta kosti hluta þess­ara hrá­efna, Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins, með ell­efu þing­menn á kom­andi þingi.

Fyrsti við­ræðu­kostur nokkuð aug­ljós

Þótt popúl­ism­inn hafi að mörgu leyti verið sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna, í ljósi þess að hann komst að, þá er líka vert að minna á að hinir sex flokk­arnir sem munu eiga full­trúa á þingi fengu rúm­lega 82 pró­sent atkvæða. Meg­in­þorri þjóð­ar­innar er aug­ljós­lega enn ekki á því að það þurfi „rót­tæka rök­hyggju“, banka­gjöf, skatt­tekjur barn­anna okkar eða yfir 100 millj­arða króna árlega útgjalda­aukn­ingu til að reka mann­sæm­andi sam­fé­lag á Íslandi.

Það er því rök­rétt að álykta að næsta rík­is­stjórn verði mynduð úr hinum sex flokk­unum sem sitja á næsta Alþingi.

Aug­ljós­asta nið­ur­staða kosn­ing­anna er sú að stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir fjórir eru með meiri­hluta á Alþingi. Í ljósi þess að traust ríkir á milli leið­toga þeirra allra, að allir þeirra eru sam­mála um að áhersla verði lögð á upp­bygg­ingu í heil­brigð­is­mál­um, mennta­mál­um, end­ur­skipu­lagn­ingu á þeim hluta fjár­mála­kerf­is­ins sem er í höndum rík­is­ins, álagn­ingu komu­gjalda og mikla fjár­fest­ingu í innviðum þá er erfitt að sjá hvaða mál ættu að standa í vegi fyrir að við­ræður muni hefj­ast þeirra á milli.

Hvorri blokk­inni vill Við­reisn til­heyra?

Innan Sam­fylk­ingar er mikil áhersla lögð á að Við­reisn verði tekin með í þær við­ræður til að mynda sterkasta frjáls­lynt mót­vægi gagn­vart Vinstri grænum og Fram­sókn­ar­flokkn­um. Áherslur Við­reisnar eru enda mjög í takt við það sem talið var upp hér að ofan. Ágrein­ings­málið yrðu eign­ar­skatt­ar, hvernig setja ætti fram ein­hverja tákn­ræna lausn á Evr­ópu­málum sem allir geti sætt sig við og hversu hratt eigi að fara í stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar. Allt eru þetta mál sem auð­velt er að ná mála­miðlun um í núver­andi stöðu þannig að allir ættu að geta gengið nokkur beinir frá borði.

Auk þess yrði fimm flokka rík­is­stjórn ólíkra flokka alls staðar að úr lit­róf­inu konu­stjórn. Helm­ingur þing­manna Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks­ins, Pírata og Við­reisnar eru kon­ur. Þrír flokk­anna eru með konur í leið­toga­sæt­inu og við það bæt­ist að í Fram­sókn situr lík­ast til áhrifa­mesti vara­for­maður íslensks stjórn­mála­flokks, Lilja Alfreðs­dótt­ir. Verði af slíkri stjórn yrði stjórn­ar­and­staðan sam­an­sett af Sjálf­stæð­is­flokki, Mið­flokki og Flokki fólks­ins. Með 27 þing­menn, og þar af ein­ungis sex kon­ur. Fyrir flokka sem setja frjáls­lyndi, jafn­rétti og kerf­is­breyt­ingar á odd­inn, á borð við Við­reisn, er aug­ljóst hvorri blokk­inni þeir ættu frekar að til­heyra.

Íhalds­stjórn mögu­leg, Mogga­stjórn ólík­leg

Bæði Katrín Jak­obs­dóttir og Sig­urður Ingi Jóhanns­son hafa líka þann val­kost að mynda rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum sem hefðu mynd­ar­legan meiri­hluta. Slík rík­is­stjórn, mögu­lega með aðkomu fjórða flokks, er rök­rétt næsta skref ef stjórn­ar­and­stöð­unni tekst ekki að ná sam­an, með eða án Við­reisn­ar. Og þar myndi líka nást saman um helstu mál­efna­á­hersl­ur.

Þetta er því spurn­ing um vilja. Hvað vill Katrín Jak­obs­dóttir og fólkið í kringum hana, og hvað vill Sig­urður Ingi Jóhanns­son og hans fólk? Vilja þau mynda breiða umbóta­stjórn eða vilja þau mynda sterka íhalds­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um?

Raunar á Sig­urður Ingi einn mögu­leika til við­bót­ar. Sá er að sætt­ast við Sig­mund Davíð og mynda stjórn ásamt Sjálf­stæð­is­flokki og Flokki fólks­ins. Þetta er eini mögu­leik­inn á stjórn byggðum á slíkum kjarna þar sem framá­menn í öllum öðrum flokkum úti­loka í einka­sam­tölum með öllu sam­starf við Sig­mund Dav­íð. Á milli þeirra og hans ríkir ein­fald­lega ekk­ert traust. Þetta er draumarík­is­stjórn Morg­un­blaðs­ins og valda­kjarn­ans í kringum þann mið­il. Það sést vel á rit­stjórn­ar­skrifum blaðs­ins í morg­un, þar sem Sig­urður Ingi er í raun beð­inn um að biðja Sig­mund Davíð afsök­unar á því að hafa fellt hann sem for­mann og hrakið í burtu til að sættir náist.

Í ljósi þess sem á hefur gengið í Fram­sókn­ar­flokknum síð­ast­liðið eitt og hálft ár, í ljósi þess að flokk­ur­inn sótti fylgi sitt á allt aðrar lendur í ár en á und­an­förnum árum og að flokk­ur­inn er heill í fyrsta sinn í langan tíma verður það að telj­ast afar ólík­legt að Sig­urður Ingi sjái ein­hvern grund­völl á sam­starfi við sinn gamla for­mann, sem yfir­gaf flokk­inn bara vegna þess að hann fékk ekki að vera for­mað­ur. Sú stæka kvenn­fyr­ir­litn­ing sem Sig­mundur Davíð sýndi Lilju Alfreðs­dóttur í gær, þegar hann tal­aði niður til hennar og kall­aði hana sitt sköp­un­ar­verk, verður ekki til að auka lík­urnar á slíkri sátt.

Þá er sá tími lið­inn að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sé kjöl­festan í íslenskum stjórn­mál­um, sama þótt for­víg­is­menn hans tali á þeim nót­um. Hann er enn stærsti flokkur lands­ins, en hann fékk sína næst verstu útkomu í sög­unni um helg­ina. Flokk­ur­inn hefur aldrei verið jafn óra­fjarri því að mynda upp­á­halds­rík­is­stjórn sína, tveggja flokka meiri­hluta­stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um, og hann er núna. Sam­an­lagt fylgi þeirra hefur aldrei verið lægra. Síð­ustu þrjár rík­is­stjórnir sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sat í hafa enn fremur ekki náð að sitja út heilt kjör­tíma­bil. Það eina sem þær áttu sam­eig­in­legt var að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sat í þeim. Og hann er sá flokk­ur, utan hins popúl­íska Mið­flokks, sem oft­ast er nefndur þegar taldir eru upp flokkar sem ekki eru taldir sam­starfs­hæfir af öðrum leið­tog­um. Það er því alls ekki lengur ávísun á stöð­ug­leika að hafa Sjálf­stæð­is­flokk í rík­is­stjórn.

Spurn­ing um vilja

Hvað stendur þá í vegi fyrir því að sú rík­is­stjórn sem blasir við verði mynd­uð? Í raun ekk­ert nema það að ákveða að gera það. Sú ákvörðun liggur fyrst og síð­ast hjá tveimur ein­stak­ling­um, Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna, og Sig­urði Inga Jóhanns­syni, for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins. Hinir flokk­arnir munu ekki skor­ast und­an.

Það verður erfitt og krefj­andi verk­efni að halda saman jafn breiðri stjórn sem skipuð yrði jafn ólíkum flokk­um. En stjórn­mál eiga að vera erfið og krefj­andi. Og það á að reyna á mann­kosti stjórn­mála­leið­toga sem gefa sig að þeim. Í gjör­breyttu stjórn­mála­lands­lagi er skýrt ákall um breytt stjórn­mál og breiða sam­vinnu. Nú stendur bara eftir sú spurn­ing hvort raun­veru­legur vilji sé til þess að mynda slíka regn­boga­stjórn eða ekki.

Yfir til ykk­ar.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Mögulegt lögbrot vegna niðurrifs skipa Eimskips á Indlandi á borði stjórnvalda
Tvö skip Eimskips voru rifin í skipakirkjugarði í Indlandi þar sem umhverfisáhrif niðurrifsins, og starfsaðstæður þeirra sem vinna við það, uppfylla ekki evrópska staðla.
Kjarninn 24. september 2020
Khedr-fjölskyldan hefur fengið dvalarleyfi
Egypska fjölskyldan sem hefur verið í felum í rúma viku fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. „Réttlætið sigrar stundum,“ segir lögfræðingur fjölskyldunnar.
Kjarninn 24. september 2020
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA
Forsendur lífskjarasamningsins brostnar að mati SA
Samtök atvinnulífsins telja forsendur að baki lífskjarasamningnum brostnar í ljósi gjörbreyttra efnahagsaðstæðna.
Kjarninn 24. september 2020
Drífa Snædal, forseti ASÍ
Forsendur lífskjarasamninga hafa staðist að mati ASÍ
Forsendur kjarasamninganna sem voru undirritaðir í fyrra hafa staðist, þar sem vextir hafa lækkað, kaupmáttur hefur aukist og ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um bann á 40 ára verðtryggðum lánum.
Kjarninn 24. september 2020
Sex mánaða orlof á hvort foreldri verði tekið á fyrstu 18 mánuðunum í lífi barns
Drög að nýjum heildarlögum um fæðingarorlof hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þegar fæðingarorlofið verður lengt í 12 mánuði um komandi áramót er ráðgert að hvort foreldri taki 6 mánaða orlof. Einungis einn mánuður verður framseljanlegur.
Kjarninn 24. september 2020
Bjarni Már Magnússon
Upplýsingamengun í boði Alþingis
Kjarninn 24. september 2020
Þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu er húsnæðismarkaðurinn á fleygiferð. Og skuldsetning heimila hefur verið að aukast.
Eigið fé Íslendinga í fasteignum hefur tvöfaldast á fimm árum
Íslendingar eru að skuldsetja sig hraðar og hærra fasteignaverð drífur áfram aukna eignamyndun. Alls eru tæplega átta af hverjum tíu krónum sem heimili landsins eiga í hreinni eign bundnar í fasteignum.
Kjarninn 24. september 2020
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 20. þáttur: Dagbækur, drusluskömmun og ódáinsdrykkir
Kjarninn 24. september 2020
Meira úr sama flokkiLeiðari