Um þessar mundir er öld liðin frá einni markverðustu byltingu sem gerð hefur verið, en þetta er rússneska Október-bylting Bolsjévíka. Þær hafa verið nokkrar byltingarnar í viðbót í gegnum heimssöguna sem skipt hafa máli, til dæmis sú ameríska 1776-77, sú franska árið 1789 , sú kúbverska árið 1959 og sú íranska árið 1979.
Útflutningsvara
Í augum kommúnista og Bolsjévíka, hins litla flokks Vladimírs Leníns (voru aðeins um 23.000 í byrjun 20. aldar) var byltingin ætluð til útflutnings og þetta sjónarmið kemur einnig fram í skrifum Karls Marx. Byltingin átti alltaf að gerast í samfélagi, sem var þróað og kapítalískt og hún átti að eiga sér stað þegar kapítaisminn hafði gengið sér til húðar, hrunið innan frá.
Því kom það mönnum á óvart að hún skyldi eiga sér stað í hinu vanþróaða Rússlandi, sem nokkrum árum áður hafði t.d. beðið niðurlægjandi ósigur í stríði gegn Japan um völd og áhrif í Asíu. Reyndar er einnig talað um ,,byltinguna 1905“ en hún hverfur svolítið í skuggann af ,,1917-byltingunni“ – sem er að mörgu leyti skiljanlegt.
Segja má að hinn rauði þráður í gegnum sögu Rússlands sem spurningin um vald og dreifingu gæða. Burðarásinn í sögu Rússlands hefur ávallt verið ,,bóndinn“ og hinn breiði almenningur hvers daglegt líf gekk út að yrkja jörðina og hafa í sig og á. Þetta var hinn stóri massi, sem oftast lifði við skort og gríðarlega fátækt, ólæsi og slæmar félagslegar aðstæður.
Fyrir ofan hinn venjulega bónda voru svo ríkari sjálfseignabændur (kúlakkar) og fyrir ofan þá menntamenn og aðall. Efstur í pýramídanum var sjálfur Tsarinn, keisarinn (en orðið er dregið af hinu rómverska „Caeser“).
Landi stýrt af hörku
Þessu landi var stýrt með hörku og fram að byltingu höfðu í raun allar tilraunir til umbóta og aukins frelsis, frjálsræðis og frjálslyndis, farið út um þúfur eða misheppnast með einum eða öðrum hætti. Í landinu bjó í raun ófrjáls þjóð, sem hafði ekkert að segja til um framtíð sína og aðstæður. Enginn hlustaði, en kröfurnar fóru vaxandi.
Fyrstu neistar byltingar og hugsunarháttar byltingar plöntuðu sér í ríkinu um 1880 eða um það bil. Smám saman sækja byltingarmenn í sig veðrið, þeim tekst til dæmis að ráða sjálfan keisarann af dögum, Alexander II, árið 1881.
Um 1890 fara rússneskir marxistar að láta til sín taka og um svipað leiti hefst nokkuð öflug iðnvæðing og verkamannastéttin stækkar. Einnig verður það ríkjandi skoðun meðal þjóðarinnar að nú sé kominn tími breytinga.
En þær láta bíða eftir sér og það er í raun ekki fyrr en í blússandi stríði fyrri heimsstyrjaldar að það skapast þær aðstæður sem leiða til valdatöku kommúnista. Það er svöng (brauðskortur) og stríðsþreytt þjóð sem í febrúar 1917 fær nóg af ráðaleysi og spillingu keisarastjórnarinnar og rís upp. Keisarinn, Nikuás II afsalar sér völdum, fjölskyldan er handtekinnog síðar myrt með köldu blóði seinna um sumarið. Á er sett bráðabirgðastjórn, Kerensky-stjórnin, en hún ræður ekki við neitt.
Ólga og stjórnleysi
Gríðarleg ólga var í landinu og um sumarið 1917 reyndu bolsjévíkar að ræna völdum, en misheppnaðist. Gefin var út handtökuskipan gegn Lenín, sem flúði til Finnlands og kom ekki aftur fyrr en rétt fyrir októberbyltinguna.
Í sumarlok kom til harðra deilna á milli Kerensky og Kornilovs, yfirhershöfðingja, sem syndi mikla veikleika í stjórninni. Um svipað leiti unnu bolsjevíkar einnig mikið fylgi í kosningum til svokallaðra ,,ráða“ (Sovét) sem sett höfðu verið á fót og styrktu því stöðu sína. Á leynifundi nóttina milli 23-24.október ákváðu leiðtogar bolsjévíka því að láta aftur til skarar skríða og um 48 stundum seinna var byltingin (eða valdaránið) yfirstaðin og öllum hernaðarlega mikilvægum stöðum í Pétursborg hafði verið náð. Nánst engu blóði var úthellt eða byssukúlu skotið.
Upp úr þessu fæddust síðan Sovétríkin með formlegum hætti árið 1922, sem síðan voru leyst upp með formlegum hætti á anna dag jóla árið 1991.
Lenín og félagar nýttu sér upplausnina í Rússlandi til að ná völdum og upplausnin hélt áfram. En landinu þurfti hinsvegar að stjórna: ,,Lenín hafði enga stjórnunarreynslu, nema af eiginkonu sinni,“ segir rússneski sagnfræðingurinn Dmitri Volkoganov í bók sinni ,,Lenin – Life and Legacy.“ Þar lýsir hann Lenín sem grimmum manni, sem var í raun tilbúinn til þess að fórna nánast öllu og úthella blóði fyrir byltinguna, sem átti í raun aðeins að vera fyrsti neistinn í því að gera ,,jörðina rauða“ eins og Volkoganov kemst að orði í bók sinni. Það var því reynslulítill hópur manna sem tókst á við það verkefni að stjórna 150 milljóna þjóð.
Borgarastríð
Og allt stóð þetta mjög tæpt, litlu munaði að bolsjevíkar misstu allt úr höndunum í grimmilegu borgarastríði sem braust strax út eftir valdatökuna og stóð nánast til ársloka 1922. Þar reyndu t.d. Frakkar og Bretar (og fleiri þjóðir) að velta stjórn bolsjevíka. Í því létust á bilinu 6-8 milljónir manna, ýmist í hernaði, eða sulti og öðrum hörmungum sem því fylgdu.
Eftir dauða Leníns árið 1924 tók svo hinn grimmi Jósef Stalín við og undir hans stjórn voru framin ólýsanleg grimmdarverk; aftökur án dóms og laga, hreinsanir og gúlag (vinnu og þrælkunarbúðir). En hann náði gríðarlegum árangri í iðn og tæknivæðingu og nú kunnu allir að lesa í Sovetríkjunum.
,,Jói frændi“ eins og Bandamenn kölluðu Stalín í seinna stríði (þar sem Rússar misstu um 20 millónir manna) fékk svo heilablóðfall (eins og Lenín) árið 1953 og við tók Úkraínumaðurinn Nikita Krústsjov, en það er önnur saga.
En hvað skildi rússneska byltingin efti sig? Hún sýndi valdhöfum í Evrópu að kúgaður verkalýður gat risið upp og knúið fram breytingar. Verkalýðsmál breyttust mikið. Og í kjölfar hennar urðu heims og risaveldið Sovétríkin til og sköpuðu sér gríðarlegt áhrifasvæði (Austur-blokkin) í kringum sig. Rússneska byltingin var öðrum byltingarhreyfingum (Víetnam, Kúba, Nikaragúa, ýmis lönd Afríku) innblástur í því sem síðar kallaðist ,,Kalda stríðið“ og hófst í raun strax eftir loks seinni heimsstyrjaldar. Því lauk með falli Berlínarmúrsins (1989) og sjálfra Sovétríkjanna árið 1991. Ástæður þess eru að mörgu leiti svipaðar og fall Rómaveldis á sínum tíma; blanda af innri veikleikum og ytri aðstæðum.
Hvað stendur eftir?
Í dag eru fáar alvöru kommúnistastjórnir eftir. Í Hvíta-Rússland í Evrópu ríkir einsræðisstjórn og þar starfar enn leyniþjónusta sem heitir KGB (ein og í gamla Sovétinu). Kína er sérkennileg blanda af ,,alræðis-kapítalisma“ en að sjálfsögðu land þar sem aðeins er einn flokkur er leyfður og öll andstaða kveðin í kútinn. Þá eru Víetnam og Laos í SA-Asíu á svipuðu róli og sama má segja um Kúbu og einsræðisstjórnina þar. Venesúela er svo að liðast í sundur vegna óstjórnar sósíalistans Nicolas Maduro.
Norður-Kórea er algerlega sér á parti, þar sem Kim Jong Un heldur öllu í járngreipum í sínu stórbrotna ,,persónu-költi“ og brjáluðu ofsóknaræði. Sama má í raun segja um Rússland Pútíns, sem að forminu til er ekki kommúniskt ríki en allir stjórnarhættir minna á Rússland keisaranna, þar sem valdið flæðir lóðrétt. Og þó svo að ,,,frelsi“ ríki þar að nafninu til, þá er til dæmis öllum helstu fjölmiðlum stýrt af ríkinu og harkalega tekið á stjórnarandstöðu, menn jafnvel myrtir, bæði stjórnmála og blaðamenn.
Höfundur er með Masterspróf frá Austur-Evrópudeild Uppsalaháskóla árið 1997 og verður með námskeiðið ,,Rússland Pútíns“ hjá Endurmenntun HÍ í mars 2018.