Egill Helgason hefur verið að skrifa um hið svokallaða „Hafnartorg“ á blogginu sínu á Eyjunni, sem er hannað af íslensku arkitektastofunni PKdM. Birtist fyrri færslan á fimmtudaginn 16. 11., og má lesa hér, og sú seinni á sunnudagsmorgun, sjá hér. Þar hafa ýmsir lagt orð í belg, meðal annars Andri Snær Magnason, sem talar um „óskiljanlega metnaðarlausar gluggahliðar“ eins og „hvert annað Breiðholt.“
Egill slær þessum orðum upp, talsvert breyttum, sem fyrirsögn fyrir seinni færsluna, og vitnar í þeirri færslu líka í gamlan texta eftir Andra. Í þessum tveimur færslum eftir Egil og hinni stuttu athugasemd Andra birtast tvær skoðanir sem erfitt er að samræma. Annars vegar sú skoðun að byggingar í miðborginni eigi að vera hannaðar af „ímyndunarafli og sköpunargáfu,“ „skáldskap og listrænni sýn,“ í anda sjörnuarkitektúrs hollensku arkitektastofunnar MVRDV, og hins vegar sú skoðun að arkitektúr eigi að lúta „samræmi og fagurfræði,“ að hann eigi að falla inn í einhverja fyrir fram mótaða mynd af því hvað fólk vill sækja í miðborgina. Þessar skoðanir má rekja til gamalgróinnar gagnrýni póstmódernismans á módernismann. Þessi gagnrýni á byggingarnar úr tveimur áttum er ósanngjörn, því þótt byggingar PKdM séu ekki módernískar nema í mjög víðum skilningi, þá gera arkitektarnir ýmislegt til að koma til móts við hana.
Það hefur verið vinsælt að lasta módernisma í arkitektúr síðan ca. 1968, og er hægt að nefna þrjár áfanga. Fyrsti áfanginn er útgáfa tveggja bóka, Complexity and Contradiction in Architecture eftir Robert Venturi árið 1966 og óðs Venturis og Denise Scott-Brown til borgarinnar Las Vegas árið 1972, Learning from Las Vegas. Annar áfanginn í atlögu að módernisma í arkitektúr kom utan frá, frá áhugafólki eins og Jane Jacobs sem sá að verið var að rífa heilu hverfi sögufrægra borga til að aðlaga þær nútímanum. Þriðji áfanginn er niðurrif Pruitt Igoe félagsíbúðanna í St. Louis í Bandaríkjunum. Niðurrif Pruitt Igoe markaði upphaf endis félagsíbúðakerfisins í Bandaríkjunum, en síðan byggingarnar voru rifnar hefur kerfið verið markvisst bútað í sundur.
Egill vitnar óbeint í alla þessa áfanga í nýlegum athugasemdum sínum um Hafnartorg. Í fyrsta lagi má tengja gagnrýni hans á form bygginganna við gagnrýni póstmódernistanna á módernísk form. Samkvæmt þessum popúlísku viðhorfum er módernismi í arkitektúr óaðgengilegur fyrir hinn almenna Íslending sem hefur alist upp við kvistglugga og hallandi þök. Þessum ímyndaða Íslendingi finnst arkitektúr módernistanna kaldur og ekki í „manneskjulegum skala.“ Venturi og Scott-Brown vildu velta arkitektúrnum af háborg sinni niður til fólksins, þar sem hann myndi tala tungumáli sem allir skilja. Póstmódernistarnir smættuðu þar með arkitektúrinn niður í tungumál, sem átti ekki lengur að takast á við þau samfélagslegu vandamál sem módernisminn tók upp óstinnt á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar. Enda er ekki skrítið að arkitektarnir hafa síðan á þessum tíma verið í vasa markaðsafla, þótt sumir vilji reyndar stundum kenna tilkomu forritsins Excel til skjalanna (no pun intended).
Svar arkitekta á áttunda og níunda áratugnum voru tvenns konar, og hefur þessu oft verið lýst í rökræðunni á milli hinna „gráu“ og hinna „hvítu“ á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Hinir gráu, (Venturi og Scott-Brown, Bob Stern, Charles Moore) vitnuðu í gömul form, og léku sér með táknmyndir fortíðarinnar. Þeir störfuðu þannig beint inn í andrúmsloft gagnrýninnar á niðurrif gamalla húsa, og verður hugmyndum þeirra gerð betur skil hér að neðan. Hinir hvítu (arkitektar eins og Peter Eisenman, Richard Meier, John Hejduk, Charles Guathmey og Michael Graves, sem síðar varð reyndar ansi grár) gerðu öfugt—þeir vitnuðu gagnrýnið í form módernistanna, sérstaklega Le Corbusiers, og skrumskældu þau í þeim tilgangi að vinna með arkitektúr sem tungumál á nýjan og áhugaverðan hátt. Þannig varð krafan um að arkitektúr endurspeglaði samfélagsgerðina úrelt, og eftir þetta hafa arkitektar annað hvort lifað í fortíðinni eða leitast eftir að ganga hver fram af öðrum með áhugaverðum formum. Þetta var upphafið að stjörnukerfinu, enda eru Rem Koolhaas, Zaha Hadid, Daniel Liebeskind, og á eftir þeim MVRDV og BIG, afkomendur og oft bókstaflega nemendur „hvítu“ arkitektanna.
Í öðru lagi er það sem ég nefndi gagnrýnina á arkitektúrinn utan frá, í formi verndunar gamalla bygginga og búsetuforma og hinn manneskjulega skala, en þessi gagnrýni er náin þeirri sem kemur á undan. Árið 1963 var Pennsylvania Station í New York rifin, og var það einn viðburða, ásamt Feneyjarsáttmálanum 1964 sem varð í höndum áhugamanna og eins og Jane Jacobs upphafið að húsverndarstefnu á Vesturlöndum, og þar með heiminum öllum. Ísland tók að sjálfsögðu virkan þátt í þessu, sbr. stofnun Torfusamtakanna árið 1972, verndun og uppgerð Grjótaþorpsins. Eins og við sáum áðan, þá einskorðaði þessi stefna sig ekki við húsvernd, heldur komu fram arkitektar sem sérhæfðu síg í að teikna byggingar sem líktust gömlum byggingum. Þetta leiddi af sér New Urbanism, sem er náskylt Urban Village hreyfingunni sem Prince Charles og fleiri hafa hampað í Bretlandi. Hugmynd Andra Snæs frá 2009, sem Egill vitnar til í seinni færslu sinni, er í þessum anda. Hér er niðurrif gamalla bygginga harmað, sértaklega ef það sem kemur í staðinn er móderniskt í útliti. Miðborgin er ekki gamalt sjávarþorp, nema þá í abstrakt fagurfræðilegum skilningi. Miðborgin sem ég ólst upp í nálægð við var með gamalt og ljótt tívolí á hafnarbakkanum á sumrin, grafitti á Slippnum , sjómenn í verbúðum, veikt fólk sem hímdi í illa lyktandi strætómiðstöðvum. Hvernig væri einfaldlega að vinna með hana? Er ekki miðborgin sem Andri talaði um fyrir tíu árum „virtual“ miðborg, hönnuð fyrir samskiptamiðlana og deilihagkerfið, fyrir það sem fólk heldur að ferðamenn vilji sjá?
Í þriðja lagi er gagnrýnin á módernískar félagsíbúðir endurómuð í athugasemd Andra Snæs þar sem hann talar um að gluggasetningin við Tryggvagötu sé metnaðarlaus eins og „hvert annað Breiðholt.“ Þessi dómur Andra gæti verið særandi á marga vegu, en ég vona að það sé minn misskilningur. Í fyrsta lagi eru eflaust margir sem eiga góðar minningar frá Breiðholti, og bera hlýhug til þessara blokka þrátt fyrir að þær kunni að koma einhverjum sem aldrei hefur búið þar ansi framandlega fyrir sjónir. Í öðru lagi er ósanngjarnt að kalla þessar blokkir metnaðarlausar, því ef það er eitthvað eitt lýsingarorð sem nær yfir heilt hverfi, þá er það ekki „metnaðarlaust.“ Það er búið að skrifa margt áhugavert og halda sýningar um þessa miklu tilraun sem Breiðholtið var. Við sjáum á íslenskum rappmyndböndum síðustu ára að í þessum hverfum er líka fegurð sem ungt fólk skilur, fólk sem hefur ekki áhuga á tuggum póstmódernismans um fagurfræðilegt samræmi, anda staðar, manneskjulegan skala, o. s. frv.
En gefum okkur að Andri meini einfaldlega að „Breiðholtstíll“ sé jafnvel góður síðmódernismi, en að byggingar PKdM séu aftur á móti metnaðarlaus útgáfa af þeim stíl. Það er þá aðeins gagnrýni á tillögu PKdM, og mun ég einskorða mig við hana það sem eftir er. Hvernig væri þá að gera það sama og Egill stingur uppá að við gerum með MVRDV, slá inn „PKdM.is“ inn í vafrann, og skoða tillöguna (og jafnvel, ef tími gefst, skoða aðrar byggingar sem PKdM hafa teiknað síðustu tuttugu árin) eins og teiknistofan kynnir hana, í stað þess að skoða myndir teknar af honum sjálfum, e.t.v. á farsíma, af hálfkláruðum byggingum í myrkri?
Við sæjum þá til dæmis að stofan hefur fylgt stefnu Reykjavíkurborgar að brjóta stærri byggingarkroppa í minni byggingareiningar, til að auka á sjónrænan fjölbreytileika sem borgin telur hæfa þessu svæði (enda er það örugglega í deiliskipulagi og hefur stofan því lítið val). Þessi fjölbreytileiki er síðan aukinn með því að setja mismunandi efni á byggingarnar. Það má segja að þetta sé málamiðlun hjá stofunni, sem neitar að tileinka sér bókstaf póstmódernistanna, hvorki þeirra gráu, með sín skáþök, kvistglugga, og aðrar mæmingar á því sem fyrir er á staðnum, né hinna hvítu, forfeðra stjörnukerfisins, með sitt „ímyndunarafl“ og sína „sköpunargáfu.“ Stofan neitar að ímyndunarafl og sköpunargáfa felist í formunum sjálfum og heldur sér innan þess ramma sem aðstæður og fyrirmæli leyfa. Við sæjum líka að stofan hefur skapað verslunarrými á jarðhæð og göngugötu þar sem byggingarnar ganga þétt að götunni, svipað og þær gera á Laugarveginum, sem ljær tillögunni þann „manneskjulega skala“ sem íslenskir Ghelistar og Jane Jacobínar eru alltaf að leita að. Að lokum verð ég að gera smá grín að mínum gamla vinnuveitanda og minnast á trélitamyndirnar á heimasíðunni. Ef það er eitthvað sem póstmódernistarnir elskuðu, sérstaklega þeir gráu, þá eru það svona trélitamyndir, með nýjum byggingum teiknuðum inn í með sömu kæruleysislegu línunni, til að láta allt saman líta út fyrir að vera aðeins lauslegra og meinleysislegra. En kannski hugsuðu PKdM einmitt: „Gott og vel, gefum þeim nokkrar hlýjar, sætar og kósí trélitamyndir ef það er það sem þau vilja.“
Höfundur er arkitekt, doktorsnemi í arkitektúrsögu við Columbia háskóla í New York og meðlimur hljómsveitarinnar Sveittir gangaverðir.