Já ef steinar og jörð gætu talað, sagt frá…hver kannast ekki við þessa fögru textasmíð Magnúsar Þórs, Ást við fyrstu sýn, oftar en ekki í flutningi Páls Óskars.
Tungumál eru lykill heimsins líkt og okkar fyrirmyndar Vigdís Finnbogadóttir leggur áherslu á sem velgjörðasendiherra Sameinuðu þjóðanna í tungumálum. Sjálfsmynd okkar sem þjóð á sér rætur í móðurmálinu og orðin og smíði þeirra mótast af umhverfinu, náttúruöflunum, fósturjörð okkar. Jörðin getur því miður ekki talað til okkar með orðum en hvað hindrar okkur í að skynja ásýnd hennar og tala hennar máli?
Gestrisni fjallkonunnar
Ísland er ungt land í jarðsögulegum skilningi, hálfgerður unglingur og fósturlandsins Freyja frekar en eldgamla Ísafold. Táningsárin eru líkt og við flest öll könnumst við tímamót sem einkennast af miklum sveiflum, viðkvæmni og breytingum. Barnslíkaminn er að taka á sig mynd fullorðins einstaklings og því fylgja vaxtarkippir (jarðskjálftar, flekaskil, jarðsig), ýmsar hálfstálpaðar afmyndanir, útbrot og bólur (eldgos, hverir, sprungur, gígaraðir, þverbrotabelti, hraunbreiður). Líkamshitinn og geðið sveiflast til að takast á við breytingarnar og þar sem við erum að tala um fjallkonuna Ísland þá lætur „þessi tími mánaðarins” á sér kræla (vetrar- og vorflóð í ám, lægð yfir landinu, norðurljós, hverasvæði, jökulhlaup).
Æska og æskuljómi er eftirsótt söluvara á öllum sviðum markaðar og við höfum skammlaust auglýst Ísland sem einstaka eyju unga að aldri og enn í mótun. Hingað fáum við sívaxandi straum af forvitnum ferðamönnum til að upplifa einstakt umhverfi.
Okkar hlutverk er að hlúa að þessu landi sem við fengum í arf, skila því í betra ástandi til næstu kynslóða en þegar við tókum við. Erum við að gera góða hluti þar? Sitt sýnist hverjum um hvort landið, þjóðin og allur samfélagsramminn voru (og séu) undir það búin að taka vel á móti þvílíkri aukningu á fótsporum á eyjunni. Eftir umtalsverða fjölgun ferðamanna síðustu ár erum við búin að brjóta milljón múrinn og gangi spá Íslandsbanka eftir um fjölda ferðamanna þetta ár erum við að tala um sjöfaldan íbúafjölda. Ísland stefnir með hraðbyri upp listann yfir þau lönd sem einkennast frekar af ferðamönnum en íbúum.
Fjölgun gesta þýðir því miður fjölgun dapurlegra atburða; bílvelta, drukknun, ofkæling, bruni, beinbrot, týndur ferðamaður, utanvegaakstur og svo mætti lengi telja…alltof fáir kunna að umgangast landið og umhverfið. Hversu langt á að ganga áður en fjöldi ferðamanna nær þolmörkum lands, eða erum við nú þegar þar? Erum við að valda óafturkræfum áhrifum á umhverfi okkar og ferðaþjónustu? Hvar er virðingin? Er skammvinn, jafnvel siðblind, vertíðarhugsunin um að græða gull farin að yfirgnæfa þá skynsemi að hlúa þarf að auðlindinni til að hún gefi áfram af sér…til okkar og næstu kynslóða líka?
Okkur rennur blóðið til skyldunnar og íslenska bergvatnsins, að gyrða í brók, vinna og framkvæma til úrlausna Íslandi, Íslendingum og ferðamönnum til hagsbóta.
ÞULA - lifandi kerfi
Okkur vantar þulur. ÞULA er einstaklingur sem kann á þjóðsögurnar, umhverfið, landið og býr yfir almennri skynsemi. Sömuleiðis hefur orðið þula skemmtilega skírskotun í eitt af mögulegu fornu heitum Íslands, Thule.
Eflaust hafa flestir heyrt orðið þula (og þá er ég ekki bara að meina þær brosmildu sem sáust á skjánum lengi vel). Þulur skiptu sköpum við varðveislu tungumálsins og eru hluti af okkar kveðskapar sögu. Þær höfðu mikið afþreyingar- og skemmtanagildi og undir kveðskapnum gátu áhlýðendur gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Hvernig væri að endurvekja þessa ævafornu frásagnarlist okkar á þá leið að gefa hugmyndaflugi ferðamanna byr undir báða vængi? Þeim fylgdi ÞULA með litríkar frásagnir og þjóðsögur samofnar náttúrunni.
ÞULA er almennur lykill ferðamanns að landi og þjóð allt frá því hann kemur til landsins og þar til hann flýgur af landi brott. Ef við slettum aðeins með enskunni þá er ÞULA „fun” (forvörn - upplifun - náttúruvernd): afþreying ferðamannsins en um leið þeirra fylgd um landið.
ÞULA sér til þess að opna skilningarvit ferðamanns fyrir einstakri upplifun af náttúru landsins og að hann læri að bera virðingu fyrir náttúruöflunum líkt og okkur Íslendingum er innprentað með móðurmjólkinni. Það er ekki af ástæðulausu sem tungumál okkar og þjóðsögur eru ríkar af veður- og náttúruafla skírskotunum því líf okkar er samofið umbrotum hinnar einstöku eyju okkar. Þetta er nauðsynlegt að skili sér til ferðamanna.
ÞULA - leiðsögumaður?
Við erum með hafsjó af leiðsögumönnum, hvað gerir ÞULU frábrugðna þeim?
Vissulega er ÞULA leiðsögn en ég vona að fyrst þú ert hingað komin í bréfinu að þá sé eitthvað við þessar vangaveltur sem sé áhugavert, öðruvísi eða í það minnsta vekji þig til umhugsunar um nýja nálgun í leiðsögn.
Vissulega er margt að krauma í ferðaiðnaðinum og lofsvert finnst mér framtak sem hvetur ferðamenn til ábyrgrar ferðamennsku (e. The Icelandic Pledge). Þetta er skref fram á við en ég vil sjá fleiri skref.
ÞULA væri kerfi á vegum ríkisins eða sameiginlegt átak ferðaiðnaðarins undir samþykkt ríkisstjórnar sem gætti ferðamanna á meðan dvöl stendur. Samhliða því þurfum við að stýra flæði ferðamanna til landsins.
Íslendingar verða að móta stefnu í ferðaþjónustu (einkunnarorð: einstök upplifun og gæði) og aðgangsstýrandi kerfi líkt og ýmis lönd og þjóðgarðar víðs vegar um heiminn beita fyrir sér er lausn sem við ættum að skoða. Dæmi: Bhutan, Yellowstone og aðeins nær, Bláa lónið.
Fyrsta skrefið væri rafræn ferðaheimild, til dæmis líkt og ferðamenn þurfa að afla sér þegar þeir ætla til Bandaríkjanna (ESTA). Með rafrænni skráningu einstaklinga og hópa áður en þeir koma til landsins væri hægt að öðlast skýrari mynd af dreifingu fjölda ferðamanna yfir árið og jafnvel greina þörf fyrir hvers konar upplýsingar og aðhald ferðamennirnir þyrftu að fá (óvanir útivist en til í að prófa, þaulvanir göngugarpar en fyrsta heimsókn til Íslands, sérlegir áhugamenn um íslenska tónlist, norræna goðafræði, hreint vatn eða jarðfræði. Listinn er endalaus). Gjaldtaka fyrir rafræna ferðaheimild kæmi til móts við rekstur á kerfinu, sé hagnaður myndi hann renna í sjóð ætlaðan viðhaldi og uppbyggingu á þeim svæðum sem sæta mestri aðsókn ferðamanna eða láta á sjá vegna ágangs.
Hagkvæmnin af rafrænni ferðaheimild er að mínu mati að þannig mætti stýra og dreifa fjölda ferðamanna yfir árið í samræmi við ástand gróðurs eða annarra þátta sem láta á sjá við mikla ásókn. Náttúra og umhverfi Íslands er tiltölulega enn óspillt og eftirsóknarverð upplifunar auðlind fyrir okkur sem þjóð og ferðamanninn, og þannig viljum við hafa það ekki satt?
ÞULA yrði samofin rafrænu ferðaheimildinni, allir sem ætla sér að ferðast til landsins njóti liðsinnis ÞULU. Það er hin draumkennda stefna sem ætti að koma í veg fyrir eða í það minnsta minnka töluvert þann kostnað og tjón sem hlýst af: rangri notkun ferðamanna á samgöngutækjum, illa útbúnum og/eða - upplýstum ferðamönnum í vonskuveðri á vegum eða utan alfaraleiða..og svo mætti lengi telja. ÞULA er með þeim allan tímann. Kostnaðarsamt? Eflaust, en betra en fórn mannslífa sem mögulega mætti bjarga og þurrausin náttúra fokin út í veður og vind.
En hvað með þá sem eru að koma í heimsókn til ættingja og vina, brottfluttir Íslendingar og þeir sem ætla sér bara í helgardvöl í höfuðborginni? Rafræna ferðaheimildin myndi skera úr um hverjir þyrftu á ÞULU að halda við komuna til landsins. Slíkir einstaklingar eða hópar myndu auðkennast í umsóknarferlinu um rafræna ferðaheimild út frá sínu íslenska vegabréfsnúmeri og/eða þegar þeir gera grein fyrir tengilið eða ábyrgðarmanni hérlendis. Dæmi um slíkt væri ættingi eða vinur búsettur hérlendis sem stendur til að heimsækja eða tengiliður á gististað (móttökustjóri á hóteli eða annar). Þessir tengiliðir þurfa að staðfesta upplýsingar ferðamanns og ábyrgjast ferðir hans t.d. hjá sýslumanni,. Einhvers konar ígildi kvittunar fyrir því að ferðamaður þarf ekki fylgd ÞULU.
Í mínum huga skiptir það ekki höfuðmáli á hvaða formi ÞULA verður, smáforrit (app) frekar en einstaklingur. Svo framarlega sem lausn sé framkvæmd með þessa hugmynd eða aðra að leiðarljósi. Vonandi skapast kröftug og áhugaverð umræða og jafnvel enn betra: athafna í verki. Minn draumur er þó að ÞULA verði hvort tveggja í senn, lifandi smáforrit og sömuleiðis einstaklingar í hverjum landshluta, bæjarfélagi, sjávarplássi og einstaka bújörð sem taki á móti ferðamönnum sem sækja land okkar heim. Býr ÞULA í þér?
Dæmi um ÞULU
Ferðamaður: ég vil sjá hverina „up close and personal”, næ örugglega geðveikri mynd þarna.
ÞULA: myndiru stinga hendinni ofan í heitt kökuform í ofninum bara af því þig langar í köku? Hversu mikið viltu leggja á þig fyrir fína mynd, því hún gæti skilið eftir ör á þér og jörðinni (koma inn þjóðsögu af Gunnu illvígu afturgöngunni og séra Eiríki sem lokkaði hana ofan í hver á Reykjanesi þar sem hún situr enn, Gunnuhver) Ég mæli með því að þið takið myndina héðan, notið aðdráttarlinsuna frekar en að fara nær. Jörðin umhverfis hverina getur verið laus í sér og þið óvart runnið til eða stigið í gegnum og við viljum ekki að þið brennið ykkur, eða raskið hveramyndunum sem taka óratíma að myndast.
Ferðamaður: ég vil stökkva út á ísjakann í lóninu þarna! eða Hva, megum við ekki fara nær sjónum en þetta? Af hverju er fjöruborðið girt af, hvað getur verið hættulegt við smá saltvatn?
ÞULA: Hversu heillandi finnst þér að stinga hausnum í þvottavél á fullum snúningi? (koma inn þjóðsögu um nykur, vatnahestana sem heilla fólk sem hættir sér nærri vatnsborði. Dregur það með sér í kaf) Vissir þú að ísjakarnir eru á sífelldri hreyfingu og eiga það til að bylta sér þegar minnst varir? Þetta er ekki bíómynd eða „yolo” dæmi, þetta myndi heita að hætta lífi sínu. Njóttu þess að horfa á þessi náttúrufyrirbrigði úr fjarlægð og svo förum við í fjöruna fyrir neðan og athugum hvort við getum ekki fundið ísjaka brot þar sem þú getur stokkið á.
Sömuleiðis er smá saltvatn ekki rétt heiti á Atlantshafinu og hinum sterku úthafsstraumum sem umlykja Ísland. Öldurnar hrifsa til sín og þó það virðist sem þær komi alltaf aftur að landi þá er ekkert segir að straumurinn skili þér að landi og upp á yfirborðið.
Ferðamaður: hey, við getum stytt okkur leið hér yfir þennan sand í stað þess að aka alla þessa vegslóðaflækju!
ÞULA: eigum við ekki bara að njóta líðandi stundar, eða liggur þér lífið á? Sleppir þú sem sagt forleik líka? (koma inn sögu af álfadrottningu sem geysar um sandana og fangar til sín ferðamenn sem villast af leið) Vegir eru til þess að aka eftir þeim, utan vega akstur er bannaður með lögum á Íslandi. Við viljum ekki skilja eftir neitt nema minningar, þannig að við búum ekki til slóð í sandinn og náttúruna!
Höfundur er B.Sc. í náttúru- og umhverfisfræði.