Í þessari grein er athyglinni beint að því hvernig Landsvirkjun sá nýverið ástæðu til þess að minna á það hversu mikilvægt það er fyrir arðsemi fyrirtækisins að ná góðu verði í endurnýjuðum raforkusamningum við stóriðju hér. Í þeim skrifum virðist Landsvirkjun vera að vísa til viðræðnanna við Elkem.
Nú er einungis rúmt ár í að gildandi raforkusamningur Landsvirkjunar og járnblendiverksmiðju Elkem í Hvalfirði rennur út. Ennþá er ósamið um áframhaldandi viðskipti fyrirtækjanna og það þó svo viðræður þar um hafi nú að öllum líkindum staðið yfir í nokkur ár!
Orkusamningur fyrirtækjanna rennur út 2019. Hann nemur um 8% allrar raforkusölu Landsvirkjunar, en skilar fyrirtækinu einungis um 5% af tekjum þess. Sem merkir að raforkuverðið sem Elkem greiðir er miklu lægra en meðalverðið sem Landsvirkjun fær fyrir orkuna frá viðskiptavinum sínum. Það er því fyrirséð að Landsvirkjun vill að þarna hækki raforkuverðið mjög verulega.
Tekist á um auðlindaarðinn
Álíta verður líklegast að samningur um áframhaldandi raforkuviðskipti fyrirtækjanna náist brátt, enda hlýtur það að vera hagur þeirra beggja. Samningaviðræðurnar hafa þó dregist mjög á langinn. Elkem stefnir eðlilega að niðurstöðu um sem lægst verð og reynir þá sjálfsagt m.a. að beita því að annars muni járnblendiverksmiðjan jafnvel loka. Landsvirkjun stefnir aftur á móti sennilega að því að raforkuverðið tvöfaldist eða rúmlega það.
Besta niðurstaðan kynni þó að vera sú að nýr samningur feli í sér sanngjarna hóflega hækkun á raforkuverðinu og að um leið verði samið um aukin viðskipti fyrirtækjanna. Svo sem með því að hluti af sólarkísilvinnslu Elkem erlendis flytjist til Íslands. Í ljósi skelfilega misheppnaðs kísilverkefnis United Silicon og erfiðleika við fjármögnun á kísilverkefni Thorsil, virðist ekki veita af því að fá hingað alvöru fyrirtæki í þeirri grein.
Hver svo sem niðurstaðan verður í samningum Landsvirkjunar og Elkem, þá er augljóst að þarna hefur gengið hægt að ná saman. Enn og aftur er tekist á um hvert arðurinn af virkjunum Landsvirkjunar eigi að renna; til stóriðjunnar í formi lágs raforkuverðs eða að arðsemi Landsvirkjunar aukist vegna hærra verðs fyrir framleiðsluafurðir fyrirtækisins.
Stefna Landsvirkjunar er að stórauka arðgreiðslugetu fyrirtækisins
Undanfarin misseri hefur talsvert verið rætt og ritað um þá miklu aukningu sem fyrirséð er á arðgreiðslum Landsvirkjunar á komandi árum. Greinarhöfundur kom inn á þetta í nýlegri grein hér á Kjarnanum , þar sem ályktað var að árið 2020 gætu arðgreiðslur fyrirtækisins numið um 17 milljörðum króna og árið 2021 yrði árleg arðgreiðslugeta Landsvirkjunar mögulega farin að nálgast 20 milljarða króna.
Með hliðsjón af þessu má vekja athygli á því að á nýlegum haustfundi Landsvirkjunar kom einmitt fram í erindi forstjórans, Harðar Arnarsonar, að samanlagðar arðgreiðslur Landsvirkjunar árin 2020-2026 gætu numið um 110 milljörðum króna. Sem rímar vel við það sem rakið var í áðurnefndri grein á Kjarnanum.
Til að slík arðgreiðslugeta verði að veruleika þarf þó margt að ganga upp; þ.á m. að Landsvirkjun nái því sem best fram sem hún álítur eðlilega hækkun á raforkuverðinu til Elkem. Líklegt er að þar stefni orkufyrirtækið að því að fá samtals a.m.k. 4 milljarða króna fyrir þær u.þ.b. 1.100 GWst af rafmagni sem Elkem kaupir árlega. Í dag er járnblendiverksmiðjan einungis að greiða nálægt 2 milljörðum króna fyrir þessa orku. Hafa ber í huga að inni í þessum tölum er ekki bara sjálft raforkuverðið, heldur einnig kostnaður vegna flutnings orkunnar til verksmiðjunnar (sá hluti rennur til Landsnets).
Landsvirkjun sér ástæðu til að minna á nýlega endursamninga
Fyrr í þessum mánuði birtist athyglisverð grein eftir forstjóra Landsvirkjunar á vef Viðskiptablaðsins. Í umræddri grein á vef Viðskiptablaðsins víkur forstjórinn að því að endursamningar við núverandi viðskiptavini Landsvirkjunar hafi staðfest samkeppnishæfni Íslands og að Landsvirkjun bjóði samkeppnishæf kjör. Þarna er forstjórinn bersýnilega bæði að minna á niðurstöðuna í endursamningum vegna álversins í Straumsvík og að í nýlegum samningaviðræðum Landsvirkjunar við Norðurál varð niðurstaðan sú að tengja orkuverðið við raforkuverð á norræna raforkumarkaðnum (líkt og nánar hefur verið lýst í umfjöllun um álit Eftirlitsstofnunar EFTA á samningnum).
Í umræddri grein er sem sagt, af hálfu Landsvirkjunar, mjög ákveðið minnt á mikilvægi þess að í endurnýjuðum raforkusamningum við stóriðju hér sé ekki í boði að semja um lægra raforkuverð en á helstu samkeppnismörkuðum. Og Landsvirkjun er vel að merkja ekki að endursemja núna við neitt annað stóriðjufyrirtæki en járnblendiverksmiðjuna og ekki aðrir stóriðjusamningar sem koma til endurskoðunar hjá fyrirtækinu fyrr en eftir nokkuð mörg ár. Því er freistandi að álykta sem svo að tilefni umræddra skrifa forstjórans sé að árétta það að Elkem geti ekki búist við að fá nýjan samning nema að raforkuverðið hækki mikið frá því sem er í gamla samningnum.
Stóriðjan fái ekki lægra orkuverð en í Noregi eða Kanada
Undanfarið hefur Elkem verið að greiða lægsta raforkuverðið af öllum stóriðjufyrirtækjunum hér. Forstjóri Landsvirkjunar hefur áður bent á að gildandi samningur við Elkem sé „barn síns tíma“ og þar með gefið til kynna að mikil verðhækkun sé eðlileg. Þá bendir forstjórinn líka á mikilvægi þess að íslenska þjóðin „fái notið ávinningsins af starfi Landsvirkjunar“, svo og að það skipti eiganda fyrirtækisins, „íslensku þjóðina“, miklu máli að arðgreiðslur fyrirtækisins hækki.
Þá er einnig tekið fram af hálfu forstjórans að við endursamninga (og nýja samninga) hafi verið „samið um sambærilegt verð og býðst á helstu samkeppnismörkuðum, s.s. í Noregi og Kanada“. Loks segir forstjórinn hreint út að í dag sé „engin ástæða til þess að raforkuverð sé lægra á Íslandi en á þessum mörkuðum“. Þetta er mjög skýr yfirlýsing og hún er varla sett fram af tilefnislausu. Af hálfu Elkem er sennilega verið að pressa á það að Landsvirkjun bjóði fyrirtækinu raforku á umtalsvert lægra verði en það sem gerist á umræddum mörkuðum.
Spenna í viðræðunum?
Líklegast er að járnblendiverksmiðjunni bjóðist af hálfu Landsvirkjunar svipuð verðtenging líkt og samið var um vegna Norðuráls, þ.e.a.s. raforkuverð í nágrenni við það sem er hverju sinni á norræna raforkumarkaðnum NordPoolSpot. Þar með yrði raforkuverðið ásamt flutningskostnaði til Elkem að öllum líkindum í nágrenni við 35 USD/MWst. Sem er u.þ.b. tvöfalt það sem Elkem hefur verið að greiða Landsvirkjun undanfarið. Verðið yrði þó að sjálfsögðu síbreytilegt rétt eins og gerist á norræna raforkumarkaðnum.
Það má vel vera að greinarhöfundur sé hér að lesa full mikið út úr skrifum forstjóra Landsvirkjunar. En þarna hefur greinilega gengið illa að ná saman og freistandi að ætla að þessar yfirstandandi samningaviðræður fyrirtækjanna séu ein helsta ástæða þess að forstjórinn álítur mikilvægt að minna nú opinberlega á það hver viðmiðunin um raforkuverð eigi að vera í endursamningum hér.
Kannski er yfirstjórn Landsvikjunar orðin nokkuð þreytt á tregðu Elkem að fallast á það verð sem Landsvirkjun býður. Því miður fyrir Elkem er það ekki sérlega spennandi kostur að orkuverð til fyrirtækisins tvöfaldist yfir nótt. Og virðist sem þarna sé uppi veruleg spenna.
Samningsstaða Landsvirkjunar er sterk
Járnblendiverksmiðjan framleiðir kísiljárn og upp á síðkastið hefur verðið á þeirri afurð hjarnað nokkuð við. Slíkar laufléttar verðsveiflur hafa að vísu sennilega ekki mikil áhrif á samningsstöðu fyrirtækjanna. En verðhækkunin undanfarið gerir það alla vega ekki léttara fyrir Elkem að tala raforkuverðið niður. Þar að auki er járnblendiverksmiðjan algerlega háð því að fá rafmagn til starfsemi sinnar frá Landsvirkjun. Ekkert annað orkufyrirtæki hér gæti þar fyllt í skarðið. Samningsstaða Landsvirkjunar gagnvart Elkem er því mjög sterk.
Landsvirkjun leggur áherslu á staðfestu
Ef járnblendiverksmiðjan hættir starfsemi yrði árlegt tekjutap Landsvirkjunar um tveir milljarðar króna miðað við núverandi orkusamning. Það væri vissulega slæmt af missa af þeim tekjum, enda er þetta nálægt því sem verið hefur árleg arðgreiðsla Landsvirkjunar til eiganda síns undanfarin ár. Slíkt tekjutap yrði þó ekki högg af því tagi sem Landsvirkjun ætti erfitt með að þola og fyrirtækið yrði sennilega búið að finna nýja kaupendur að orkunni innan fárra ára.
Á móti mætti kannski segja að ekki skipti öllu máli þó verðhækkun til Elkem yrði eitthvað minni en það sem Landsvirkjun hefur stefnt að, enda ekki um að ræða einn af allra stærstu orkukaupendum Landsvirkjunar. En fyrirtækið er greinilega meðvitað um mikilvægi þess að sýna staðfestu og að ekki sé ástæða til að semja um lægra raforkuverð við Elkem en gerist t.a.m. í Evrópu. Í þessu sambandi skiptir máli að ekkert mjög mörg ár eru í að orkuverðið í gríðarstórum samningi Landsvirkjunar vegna álversins í Straumsvík kemur til endurmats (það gerist 2024). Því þarf ekki að koma á óvart að Landsvirkjun álíti tilefni til að minna á mikilvægi og nauðsyn þess að sýna staðfestu.
Lausnin mætti verða framleiðsluaukning hjá Elkem
Ennþá er þarna ósamið. Og sá sem þetta skrifar vonast enn til þess, sem áður hefur verið bent á, að lausnin geti orðið sú að samningsaðilar komi sér saman um að Elkem styrki starfsemi sína hér á landi. Og flytji þá eftir atvikum hluta af starfsemi sinni í Noregi til Íslands. Það væri efalítið farsælasta niðurstaðan.
Hér í lokin má svo sjá gróft yfirlit um tekjuskiptingu Landsvirkjunar vegna rekstrarársins 2016. Viðskiptavinum greinarhöfundar bjóðast nákvæmari niðurstöður af greiningum um þessa tekjuskiptingu, auk þess sem senn verður í boði greining vegna rekstrarársins 2017.
Höfundur er lögfræðingur og MBA.