Óléttri móður, Sobo Answar Hasan, föður, Nasr Mohammed Rahim, og 18 mánaða syni þeirra, Leo, var vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í gærmorgun með nánast engum fyrirvara. Umsókn þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi var hafnað en þau komu fyrst til landsins 20. mars síðastliðinn eftir að hafa verið synjað um hæli í Þýskalandi.
Í gærmorgun voru þau send út í óvissuna. Þau vita ekkert hvað verður um framtíð sína, hvort þau fái að dvelja í Þýskalandi eða verði send aftur til Íraks eða Íran, því hjónin koma frá sitthvoru landinu. Þeirra bíður dauðarefsing í Íran en þau hafa flúið ofsóknir af hálfu fjölskyldumeðlima og þeim hefur verið hótað lífláti. Vegna þess að Leo er fæddur á flótta í Evrópu, óttast foreldrar hans það einnig að hann verði grýttur til dauða í Íran þar sem fólk muni segja hann trúlausan og kristinn.
Þau flúðu ekki að ástæðulausu heimaland sitt og fóru til Þýskalands. Það sama má segja um komu þeirra til Íslands. Hún var ekki að ástæðulausu. Þau voru í leit að betra lífi. Þeim líður vel hér og vilja bara lifa eðlilegu og áhyggjulausu fjölskyldulífi. Að senda fjölskylduna úr landi, þar sem þeirra bíður ofbeldi og jafnvel dauði, er brot á mannréttindum.
Í stjórnarskrá Íslands, barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að tryggja skuli börnum allt það sem velferð þeirra krefst og að hagsmunir þeirra skuli verða hafðir að leiðarljósi við afgreiðslu allra mála sem þau varða.
Börn eiga rétt á að lifa og þroskast í öruggu umhverfi en það er að mínu mati greinilega ekki Leo litla fyrir bestu að hafa verið sendur í burtu. Það er einnig brot á lögum að senda fólk þangað þar sem líf þeirra kann að vera í húfi. Það er óheimilt ,,...að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir,..., er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð...“ (ný útlendingalög)
Í 3. kafla nýrra útlendingalaga segir:
III. kafli. Málsmeðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd.
25. gr, 3. og 4. mgr - Varði mál samkvæmt þessum kafla barn skulu hagsmunir þess hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. Við ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds skal huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Varði mál fylgdarlaust barn eða annan einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu skal reynt að tryggja að starfsmaður með viðeigandi sérþekkingu og reynslu vinni að málinu.
42. gr. Grundvallarreglan um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.
Ekki er heimilt samkvæmt lögum þessum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sama gildir um þá einstaklinga sem eru útilokaðir frá réttarstöðu flóttafólks skv. 40. gr.
Ég og við í ungmennaráði Barnaheilla biðlum til íslenskra stjórnvalda og yfirvalda að hafa mannréttindi barna og fólks ávallt í huga þegar ákvarðanir eru teknar sem varða þau. Við viljum að flóttafólki sé sýnd sama mannúð og öðrum. Barn er barn, sama hvaðan það kemur, rétt eins og við erum öll manneskjur óháð uppruna, kyni, menningu o.s.frv.
Mannréttindi ber að virða, enda ekki bara einhver orð á blaði.
Þessi grein er byggð á eftirfarandi heimildum:
Greinar og viðtöl:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/11/30/fjolskyldan_var_flutt_ur_landi_i_morgun/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/11/19/vilja_veita_leo_vernd_a_islandi/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/10/20/gratbidja_um_ad_fa_ad_vera_her_afram/
Lagabálkar:
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016080.html
http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2002080.html
https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html
Höfundur er fráfarandi formaður ungmennaráðs Barnaheilla og þátttakandi í landskeppni ungra vísindamanna, á vegum Háskóla Íslands, og Evrópukeppni ungra vísindamanna.
Verkefni Herdísar, Staða flóttabarna á Íslandi, er rannsóknarskýrsla sem sýnir að brotið hefur verið á réttindum barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi, setur það skýrt fram hvaða réttindi gilda þegar börn sækja um alþjóðlega vernd, geymir viðtöl við sérfræðinga í þessum málaflokki og annan fróðleik, innlendan og erlendan.
Veggspjaldið í viðhengi er afurð verkefnisins. Á því eru nokkrar reglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, settar fram á skýran og einfaldan hátt, ætlaðar börnum, foreldrum þeirra og þeim samtökum sem sjá um þeirra málefni, til að hafa í huga.