Á aðventu er boðið upp á margt og ýmislegt. Flest af því er jákvæð upplifun. Tónleikar, góður matur, samverustundir með fólki sem maður sér ekki oft osfrv. En síðan er líka boðið upp á neikvæða upplifun og það sem meira er - í boði skólayfirvalda.
Á hverju ári undanfarinn 15-20 ár eða svo hafa deilur um trúboð í skólum blossað upp á aðventu. Í mörgum leik- og grunnskólum (hér eftir skólar) er farið með börn í kirkju, þau taka þátt í helgileik og sum staðar er trúfélögum gefinn kostur að mæta í skóla með grímulaust trúboð. Allt í boði skólayfirvalda.
En við svo var ekki búið endalaust. Reykjavíkurborg ruddi brautina og setti sér reglur um samskipti skóla og trúfélaga árið 2012. Þar var m.a. tekið fyrir dreifingu trúarrita s.s. Nýja testamentis Gídeonfélagsins. Því miður var því haldið opnu að möguleiki væri á að fara með börn í kirkjuheimsóknir á aðventu.
Foreldrar spyrna við fótum
Síðan þá hefur gagnrýni foreldra á kirkjuheimsóknir aukist og hefur hún leitt til að sumir skólar hafa lagt af slíkar heimsóknir. En til eru skólar sem enn streitast við. En um hvað snýst málið? Af hverju eru árvissar deilur í skólanum á aðventu?
Foreldrar, eins og aðrir í samfélaginu, hafa mjög mismunandi lífsskoðanir. Sumir eru kristnir, aðrir múslimar, stór hópur er trúlaus en langsamlega flestir vilja ráða uppeldi eigin barna. Samfélagið er margbreytilegt en skólayfirvöld virðast ekki vera með það á hreinu.
Fræðsla eða trúboð – réttur foreldra
Kjarni þessarar deilu er tvíþættur. Í fyrsta lagi hvort trúboð sé ásættanlegt í opinberum skólum og í öðru lagi réttur foreldra til að ala upp barn sitt.
Fyrri hlutinn ætti að vera nokkuð skýr. Hlutverk presta er að boða trú. Siðmennt hefur í gegnum árin fengið sögur foreldra sem lýsa því sem fram fer. Það eru helgileikir, biðja bænir eða syngja sálma. Slíkt á ekki heima í opinberum skólum.
Því er haldið fram að trúboð sé ekki hættulegt. Af því fer tvennum sögum. Frá hinsegin fólki hefur okkur borist frásagnir af því að það sé skaðlegt og þó einhverjum finnst svo ekki vera og telja að trúboð geri öllum gott þá eru það engin rök í málinu.
Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um rétt foreldris til uppeldis barns síns. Þar segir í 2. gr. samningsviðauka nr. 1:
Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.
Að krefja foreldra um trúar- eða lífsskoðun þeirra
Menntamálaráðuneytið sendi frá sér tilmæli árið 2013 og er þessi klausa þ.á.m.:
„Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.“
Margar sögur foreldra sem Siðmennt hefur borist bera með sér ótta þeirra við að stöðugt að þurfa að gefa upp lífsskoðun sína.
Ef barnið fer ekki í fermingarfræðslu kirkjunnar og foreldrið forvitnast um hvers vegna skólastarf sé lamað vegna fermingarferðalags á skólatíma. Þá er foreldrið að gefa upp lífsskoðun sína.
Ef foreldrið andmælir kirkjuheimsóknum, dreifingu trúarrita eða öðru trúboði kirkjunnar – þá er það að opinbera lífsskoðun sína.
Ef foreldri andæfir helgileik í skólanum þá er það um leið að gefa upp lífsskoðun sína.
Hvernig eru viðbrögð skólayfirvalda? Jú börnum foreldra sem hafa aðra lífsskoðun geta farið á bókasafnið eða gert eitthvað annað, nú eða verið heima.
Sögur úr raunveruleikanum
Hér eru nokkur brot úr frásögnum foreldra sem Siðmennt barst á síðasta ári. Þau endurspegla misréttið og þann ótta sem foreldrar bera í brjósti þegar þau velta fyrir sér hvort þau eiga að stíga fram og andæfa. Öll auðkenni skóla eru tekin út.
„. . . daginn ??. desember taka starfsmenn . . . .kirkju á móti börnum . . . skóla.
Nemendur lesa jólaguðspjallið og flytja ljóð. Allir nemendur skólans fara á sama tíma til kirkju. Foreldrar, sem ekki vilja að börn þeirra fari í heimsókn í kirkjuna eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við umsjónarkennara. Börn, sem ekki fara í kirkju verða í umsjón kennara á meðan á kirkjuferð stendur. Foreldrar eru því tilneyddir að hafa sérstaklega samband og eiga þá hættu á því að börn þeirra upplifi sig útundan.“ Reykjavík
„Í . . . .skóla í Garðabæ er börnum boðið upp á kirkjuferð í desember, eða að vera á bókasafninu á meðan hinir fara í kirkju. Okkur foreldrum þykir ekki boðlegt að óska eftir því að okkar barn sé látið "sitja eftir" á bókasafninu á meðan önnur börn fara í "skemmtilega" kirkjuferð. Í fyrra hugleiddum við að óska eftir því að okkar barn færi ekki í kirkju, við ákváðum þó að gera það ekki, svo barnið væri ekki í þeirri stöðu að "mega" ekki fara með öðrum börnum í vettvangsferð.“ Garðabær
„Nú er sonur minn 5 ára að fara í kirkjuheimsókn með leikskólanum sínum í vikunni og ég var að komast að því í dag að hann á að taka þátt í helgileik. Ég el hann ekki upp í kristinni trú (engri trú reyndar) og segi honum að jólin séu haldin hátíðleg til að fagna þess að það sé farið að birta aftur.“ Ótilgreint bæjarfélag
„En þannig er nú mál með vexti að dóttir mín mun leika engil í helgileik . . . skóla sem haldinn verður í . . . kirkju á morgun. Allar æfingar hafa verið 100% samtvinnaðar skólastarfinu og því með öllu ómögulegt fyrir okkur að taka hana út úr því án þess að stilla henni upp sem "trúlausri" aftur og aftur og aftur fyrir framan bekkjafélagana - ja eða þá að hafa hana í mánaðarlöngu jólafríi - þannig að við tókum einfaldlega þann "kostinn" að steinþegja um hvað okkur fannst vera mikið brotið á okkur með þessu. Því ef kirkjuferðir í desember eru óþægilegar, þá er það að neyða börnin til að sjá sjálf um að flytja trúboðið gjörsamlega útí hött!“ Reykjavík
„Góðan dag.
Ég á dóttur í 4. bekk . . . skóla. Einn daginn sótti ég hana í skólann og þá var hún með plagg frá . . . kirkju sem var auglýsing frá KFUM og KFUK. Þar fara þau í eftirfarandi:
15. september Partýleikir og veitingar
. . . .“ Ótilgreint bæjarfélag
„Í leikskólanum . . . í . . . kemur maður að nafni . . . og er með söngstund. Hann kemur í alla leikskóla bæjarins einu sinni í viku eftur minni bestu vitund. Eitthvað hef ég heyrt um það að hann tengist kirkju bæjarins en veit það ekki fyrir víst. Þar eru börnin látin syngja kristilega söngva eins og hver skapaði blómin og hver skapaði mig og þig ( veit ekki nafn lagsins) svo um jólin eru þau latin taka þátt í að syngja um aðventukertin (við kveikjum einu kerti á).
Mér finnst ekkert að því að börnin kynnist jólahefðum en að þau séu latin syngja um það hver skapaði hitt og þetta þar sem svarið er drottin guð finnst mér alveg ótrúlegt þar sem þetta eru allt börn undir 5 ara aldri.“ Höfuðborgarsvæðið
„Góðan dag, mig langaði að forvitnast hvort þið bjóðið upp á einhvers konar fræðslu / kynningar fyrir börn? Ég bý í . . . og var að komast að því að skólinn býður uppá vikulegar kirkjuheimsóknir fyrir börn sem voru að byrja í 1.bekk. Þar sem börnum finnst leiðinlegt að vera skilin útundan, fer barnið mitt með hópnum en mig langaði að athuga hvort hægt væri að heimsækja ykkur líka til að jafna út þessa skekkju í fyrstu fræðslu þeirra um trú.“ Höfuðborgarsvæðið
„Í . . . skóla á . . . hefur sunnudagaskóli þjóðkirkjunnar verið starfræktur tvo daga í viku og yngstu börnunum smalað í hann, nema þeim sem eiga ekki að fara í hann - þau sitja eftir.
Í . . . skólanum á . . . kemur presturinn í heimsókn á haustin til að tala við fermingarbörnin. Þetta er ekki tilkynnt til foreldra/forsjáraðila og mjög ósmekklegt í alla staði.“ Af landsbyggðinni
Hættum trúboði í opinberum skólum
Ef hér á landi væri trúræði þá er skiljanlegt að trúboð sé hluti námsskrár. En svo er sem betur fer ekki. Öll börn gangast undir skólaskyldu og hafa því ekki val. Opinberir skólar eiga því að haga sínu starfi þannig að aðgreina ekki börn eftir lífsskoðunum foreldra þeirra. Það er brot á mannréttindum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Siðmenntar.