Það sem gaman er að horfa á

Jón Gnarr skrifar um íslenskt sjónvarp, mikilvægi þess og tilgang.

Auglýsing

Ég hef elskað að horfa á sjónvarp alla ævi en Ríkissjónvarpið hóf einmitt útsendingar sínar um svipað leyti og ég fæddist. Sjónvarpið hefur verið mikilvægur hluti af lífi mínu alla tíð og það hafa aldrei komið nein tímabil þar sem ég var án sjónvarps. Ég á fjölmargar góðar minningar tengdar sjónvarpi og fyrir framan það hef ég bæði grátið og hlegið og oft tekið andköf af hrifningu. Ég var mjög ungur þegar ég ákvað að í framtíðinni langaði mig að vinna við þennan frábæra miðil. 

Ég hef í gegn um tíðina oft orðið var við mikla fordóma hjá mörgu fólki gagnvart sjónvarpi og sjónvarpsefni. Margir líta niður á sjónvarp og finnst það á einhvern hátt ódýrara og ómerkilegra en annað, eins og kvikmyndir eða leikhús, sem sé hámenning en sjónvarp og allt sem í því er sé lágmenning. Mér aftur á móti finnst sjónvarpið vera töfraheimur. Ég skynjaði þetta mjög sterkt þegar ég vann að gerð Fóstbræðra fyrir Stöð 2. Þá uppgötvaði ég að það hefur aldrei þótt neitt sérstaklega menningarlegt „að vera með Stöð 2.” Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef oft hitt fólk sem segir með miklu stolti og ánægju:

„Við erum ekki með Stöð 2!“

Hugmyndir og handrit

Auðvitað er þetta mikið breytt í dag. Harðduglegt og skapandi fólk, og ég er stoltur að geta talið mig einn af þeim, hefur með vinnu sinni opnað augu fólks fyrir öllum þeim möguleikum sem sjónvarpið býður upp á. Með sjónvarpinu eignuðumst við sjónvarpshetjur í fyrsta skipti, fólk sem hefur orðið hluti af lífi okkar í gegnum skjáinn. Ómar Ragnarsson, Hemmi Gunn, Vala Matt og margir fleiri. 

Í gegn um sjónvarpið hef ég upplifað alls konar tilfinningar. En það hefur ekki bara verið mér til afþreyingar. Það hefur líka kennt mér svo margt. Ég fullyrði að ég hafi lært meira af gagnlegum hlutum með því að horfa á sjónvarp heldur en af skólagöngu minni. Sjónvarpið hefur ekki skaðað mig eða gert mig firrtan. Í gegn um það lærði ég ensku og landafræði. Í gegnum vandaða heimildaþætti BBC lærði ég náttúrufræði, jarðfræði og mannkynssögu. Íslensk dagskrárgerð átti sinn þátt í að kenna mér Íslensku. Ég varð fyrir menningarlegum áhrifum af því að horfa á sjónvarp. Breskir og Bandarískir gamanþættir skóluðu mig og voru undirbúningur fyrir mig til að gera seinna Fóstbræður og Næturvaktina og fleiri þætti. Næturvaktin finnst mér mjög gott dæmi um ódýra en góða framleiðslu. Allir þættirnir eru teknir á sama stað og með fáum leikurum. Bæði ódýrt og gott. Kjarninn í velgengninni liggur ekki í tæknibrellum eða tökum, heldur í hugmynd og handriti.  

Auglýsing
Sjónvarpsmenning er að breytast mikið með nýrri tækni. Það er orðið mjög breytt hvernig fólk horfir á sjónvarp. Línulegt áhorf er á miklu undanhaldi og fólk vill stjórna því sjálft hvenær það horfir. Það er heldur ekki eins algengt og áður þegar að öll fjölskyldan sameinaðist fyrir framan skjáinn og horfði saman á það sama, heldur er nú frekar hver í sínu horni að horfa á eitthvað að eigin vali enda er framboð af efni orðið margfalt meira en það var áður. Þegar ég var barn var ég tilneyddur að horfa á bíómynd með öldruðum foreldrum mínum, á mynd sem var valin fyrir okkur af afdönkuðum gömlum stjórnmálamanni sem hafði verið skipaður í embætti án þess að hafa reynslu, þekkingu eða einu sinni áhuga á sjónvarpi. Meira en helmingur Íslendinga er nú með áskrift að alþjóðlegu efnisveitunni Netflix og þar er hægt að sjá mjög alþjóðlegt sjónvarpsefni frá ýmsum þjóðlöndum. Margt af því sem Netflix býður upp á er það besta sem verið er að gera í heiminum. Margir eru líka með allskyns aðrar áskriftir í gegnum aðila eins og Amazon eða hreinlega sjónvarpsstöðvar eins og HBO en hún kostar mann um 1.500 krónur á mánuði sem er ekki mikið miðað við hvað innlendar stöðvar eru að rukka. Það er líka sérkennilegt því innlendar sjónvarpsstöðvar eru gjarnan að sýna efni frá þessum erlendu aðilum. RÚV er þar ekki undanskilið. Um daginn sýndi RÚV kvikmyndina Song for Marion sem flestir gætu horft á á Netflix ef þeim langaði mikið að sjá hana. 

Hvað er RÚV?

Ég tel mjög mikilvægt að við rekum öflugt ríkissjónvarp með stuðningi hins opinbera og tel að það eigi að vera einn af hornsteinum íslenskrar menningarstefnu. Það er líka upprunalegt hlutverk stofnunarinnar. En að skylda þjóðina til að borga háu verði að fá að horfa á bandarískar bíómyndir eða norska framhaldsþætti, sem fólk getur auðveldlega horft á annars staðar finnst mér ekki eðlilegt. Heldur finnst mér ekki réttlætanlegt að RÚV sé að standa í því að bjóða í sjónvarpsefni í samkeppni við einkastöðvar eins og gert er. Mér finnst það frekar hallærisleg nýting á skattfé. Ég óttast það að ef ekki verður gerð gagnger breyting á eðli og hlutverki RÚV þá muni það fyrr en síðar missa fótanna og verða máttlaust apparat sem fáir vita af, nema fyrir skattpeningana sem það sogar til sín. Og þá held ég að það verði bara tímaspursmál hvenær sú pólitíska ákvörðun verður tekin að leggja stofnunina niður. Það þætti mér mjög miður. 

Í sumar var ég að ræða um norsku þættina Skam heima hjá mér. Tólf ára sonur minn spurði hvað það væri. Ég sagði honum að það væru þættir.

-Hvar er verið að sýna þá? spurði hann.

-Á RÚV svaraði ég.

-RÚV? Hvað er það? spurði hann þá.

Þetta kom mér svolítið mikið á óvart en eftir að hafa rætt við aðra foreldra þá hef ég komist að því að þetta er frekar regla en undantekning. RÚV hefur einfaldlega ekki þá stöðu meðal barna og unglinga sem það ætti að hafa og það er áhyggjuefni. Tveggja ára sonarsonur minn er á mikilvægum málþroska-aldri. Hans uppáhalds sjónvarpsefni eru áströlsku barnaþættirnir The Wiggles. Það er hvorki flókin eða dýr framleiðsla, hún er einföld, aðlaðandi og skemmtileg og byggist mikið á tónlist. 

Spurning um aðferð

Margir vilja meina að það sé vonlaus barátta að ætla að reyna að breyta þessu og við séum of fámenn þjóð til að standa undir kostnaðinum af innlendri dagskrárgerð og íslenskar sjónvarpsstöðvar, að RÚV meðtöldu, séu dæmdar til að vera söluturnar erlendra aðila. Ég er ekki sammála því. Ég tel að með réttum aðferðum þá sé vel mögulegt að stórefla innlenda dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Við getum byrjað á því að breyta lögum um Kvikmyndamiðstöð, gera sjónvarpi hærra undir höfði og auka hlutfall styrkja til framleiðslu sjónvarpsefnis. Og í stað þess að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum, eins og gert er, þar sem RÚV býður í efni í samkeppni við einkastöðvar ætti að setja á laggirnar Þróunardeild þar sem hugmynd og handrit væri þróuð innan dyra og óska svo eftir tilboðum frá framleiðslufyrirtækjum og hafa þess kost að taka hagstæðasta tilboði. Skaupið er til dæmis framleitt með svipuðum hætti. Á þennan hátt sparast miklir fjármunir. Samkeppni á milli sjónvarpsstöðva á Íslandi er ekki að gagnast áhorfendum mikið. Verðmæti hins tilbúna efnis er líka meira með þessum hætti því RÚV eignast það skuldlaust en ekki eitthvað framleiðslufyrirtæki úti í bæ. Það gerir endursýningu margfalt ódýrari og á sinn þátt í að byggja upp vörumerki og ímynd. Með einföldum leiðum mætti styrkja framleiðslu á vönduðu barnaefni, íslenskum heimildaþáttum og fræðsluefni og vönduðum, leiknum sjónvarpsþáttum. 

Ég skrifa þessa grein vegna þess að mér finnst vænt um sjónvarpið og tel mig skilja mikilvægi þess og tilgang og langar til að sjá það vaxa og dafna okkur öllum til gagns og gamans en ekki leka út af og deyja vegna ákvarðana fólks sem sem hvorki hefur vit eða áhuga á því og bara valdið til að ákveða. 

Lengi lifi íslenskt sjónvarp!

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Radíó Efling
Radíó Efling
Radíó Efling – Heimsmet í skerðingum
Kjarninn 25. júní 2021
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit