Sjónarhorn Gunnars í greininni virðist vera að yfirtaka kristninnar á jólunum sé til marks um einhvers konar virðingu kristninnar fyrir
staðbundinni menningu. Það er því við hæfi að skoða aðeins söguna sem liggur þarna á bak við.
Í bréfi Gregoríusar páfa hins fyrsta (590-604) til ábótans Mellitusar er að finna mjög áhugaverð fyrirmæli um hvernig skuli standa að því að
kristna heiðingja. Samkvæmt þeim á ekki að leggja niður hátíðir þeirra heldur tengja þær við kristna píslarvotta. Þetta er herbragð í
kristniboði. Við sjáum sömu hugmynd í skrifum Beda prests sem talar um það hvernig mánuður gyðjunnar Eostre var breytt í páskamánuð. Þegar við lesum Hákonar sögu Aðalsteinsfóstra í þessu ljósi er ljóst
að Noregskonungurinn Hákon ætlaði að nota sama herbragð til að kristna hin heiðnu jól. Fyrsta skref konungs var að fyrirskipa að jólin skuli halda þann dag sem kristnir héldu sína Kristsmessu. Þetta gekk ágætlega hjá honum en þegar hann ætlaði að ganga lengra í kristniboði sínu fór verr. Hákon var tekinn fyrir á jólablóti og látinn borða hrossakjöt. Hann varð „allókátur" með þetta.
Það er áhugavert að í sögunni af Hákoni þá fáum við einmitt upp í hendurnar dæmi um hvernig kristin kirkja reyndi að eyðileggja
staðbundna menningu þvert á staðhæfingar Gunnars. Hákon fúlsar við hrossakjöti og þegar kristnir menn urðu nógu valdamiklir þá bönnuðu þeir hrossakjötsát og bannið stóð í gegnum aldirnar þrátt fyrir hungur
landsmanna. Ástæðuna fyrir banninu var ekki að finna í Biblíunni heldur eingöngu í þeirri staðreynd að þessi siður var tengdur heiðni.
Samkvæmt Gunnari er hið sér-kristna inntakjólanna meyfæðingin. Ég játa að það kemur mér nokkuð á óvart enda hélt ég að prestar væru hættir að þora að tala um meyfæðinguna. Gunnar spyr síðan hvort
heiðinn uppruni jóla þýði „að Jesús fæddist ekki í Betlehem?" Svarið er auðvitað nei, það tengist heiðnum jólum ekki neitt. Það eru
rannsóknir á uppruna texta Nýja testamentisins sem benda til þess að
sagan af fæðingu Jesú í Betlehem sé seinni tíma viðbót ætluð til að tengja hann við spádóma úr Gamla testamentinu. Það var allavega það sem ég lærði þegar ég nam samtíðarsögu og inngangsfræði Nýja
testamentisins í Guðfræðideild Háskóla Íslands. Prestar eru greinilega gjarnir á að gleyma slíkum lexíum þegar þeim hentar.
Jólakveðjur til þeirra sem þær vilja þiggja.
Höfundur er þjóðfræðingur.