Það mun vera tabú að tala um guð. Þeir sem á hann trúa en einnig þeir vantrúuðu verða fyrir aðkasti vegna trúar sinnar eða trúleysis hérlendis og um víða veröld. Það er skrítið af því að guð er eitt af því sem allir ættu að geta valið að hafa nákvæmlega eins og þeim hentar. Guð minn er mótsagnakenndur og breytingum undirorpinn en hann má vera það. Um daginn lýsti ég trú minni á hálfopinberum vettvangi í veislu í Laugarneskirkju og var hvött til að leyfa fleirum að heyra. Það geri ég hér með.
Guð í mynd mannsins
Hér í Laugarneshverfi bjó ég lengur en í öðrum hverfum, í tíu ár samanlagt. Eitt sinn þegar ég bjó hér tók ég eftir því að dóttir mín og vinir hennar notuðu kirkjuna sem félagsmiðstöð og fór sjálf að venja komur mínar hingað. Hér í þessari kirkju fann ég guð – en allt annan guð en ég hafði leitað. Ég hélt ég fyndi fjöldaframleiddan guð en fann einn sem er sérsniðinn að þörfum mínum.
Í þessari kirkju söng ég jazz með kórnum undir stjórn Gunnars Gunnarssonar og lærði að guð er spuni. Ofan af kirkjuloftinu hlustaði ég á innblásnar predikanir séra Bjarna Karlssonar um fátækt og félagslegt misrétti og fann að guð sat við hlið mér og kinkaði kolli, harla glaður. Í þessu húsi kynntist ég tólf spora starfi og heillaðist af hugmyndinni um að ég mætti skapa guð í eigin mynd. Ég leitaði guðs af því að mig skorti hann. Ég vil lifa í þeirri trú að ég sé leidd áfram og að tilveran hafi æðri tilgang en hversdagslegt brölt mitt.
Guð og málfræðin
Æskuvinkona mín, Anna Gunnlaugsdóttir, hélt eitt sinn málverkasýningu þar sem hún kvengerði guðshugmyndina. Á einni myndinni réttir hörundsdökk, þrekin kona fram vísifingur til að kveikja líf og sú mynd hjálpaði mér lengi í leit minni að guði. Þó var sú tilraun að nota þriðju persónu fornafnið í kvenkyni um hana guð aðeins fyrsta skrefið í stóru málfræðibyltingunni.
Umbreytingin varð þegar ég áttaði mig á guð er ekki nafnorð heldur sagnorð – öflugasta sögn orðaforðans. Guð er ekki kyrrstæður heldur síkvikur og sveiganlegur. Guð er alheimsorka og sameiginlegt innra afl okkar. Ég er guð og guð er ég en guð er samt aðallega við öll saman.
Guð er saga
Flest í menningu okkar er hugmynd fremur en veruleiki. Það á við um guð. Þó er guð bókstaflegur að því leyti að í upphafi var orðið og guð varð til í orðinu og með orðinu. Guð er skáldskapur, guð er tákn, guð býr í listum og listin í guði.
Guð minn er ekki áþreifanlegur en ég trúi á sögurnar um hann. Ég trúi á hæfileika homo sapiens til að hugsa óhlutbundið og gæða tilveruna innihaldi með sögum. Samfélög manna hefðu ekki getað orðið til og breiðst yfir víðfeðm svæði ef við hefðum ekki átt sögur til að sameina. Til dæmis söguna um guð.
En vissulega sundrar guð og mennirnir eyðileggja í nafni Drottins. Í vor fór ég til Kerela, syðsta hluta Indlands, sem kallaður er God´s Own Country enda búa þar guðir flestra trúarbragða hlið við hlið. Í Kerela standa hof, moskur og kirkjur í röðum og innfæddir spurðu mig hverju það sætti að fólk í mínum heimshluta skipti sér af því á hvað nágranninn trúir. Hverju skiptir það, spurði fólk og ég spyr ykkur, hverju skiptir það á hvað nágranninn trúir – eða trúir ekki?
Á Indlandi komumst við guð minn í feitt frammi fyrir hlaðborði hugmynda. Hlýtur það ekki að vera framtíð trúarbragðanna, rétt eins og matargerðarlistarinnar, að mallast saman í girnilegum bræðingi?
Bæn er hugsun í öðru veldi
Ég trúi á guð þótt ég trúi ekki á tilvist hans. Ég trúi því ekki að manneskjan hafi ódauðlega sál umfram önnur dýr. Hins vegar trúi ég á þá heilastarfsemi sem sneiðmyndir sýna að eigi sér stað þegar trú er iðkuð. Trú er æfing, trú er ögun.
Ég veit að Drottinn heyrir ekki mína bæn en ég trúi samt á mátt bænarinnar. Fyrir mig eru bænir stefnumótunarvinna með tölu- og tímasettum markmiðum svipuðum þeim sem ég set mér við skrifborðið. Þó er á þessu tvennu grundvallarmunur af því að ég virkja ólíkar heilastöðvar. Í bæninni breytist höfuðkúpan úr loftlausri skrifstofukompu í víða hvelfingu sem magnar mátt hugsunarinnar.
Guð er lím
Ég hef skapað mér guð í minni mynd. Hann er mótsagnakenndur eins og ég. Trúarbrögð angra mig af því að mér finnast þau gamaldags. Af hverju þarf kirkjan að nota orðið synd um það sem við hin köllum óreglu? En trúarbrögð heilla mig líka af því að þau eru gamaldags. Í þeim er mikilvægur siðaboðskapur sem límir saman sögu okkar og menningu.
Guð viðheldur sjálfri mér og tengir við mig annað fólk í fortíð, nútíð og framtíð. Þannig er minn guð. Hvernig er þinn?