Aukin samkeppnishæfni Íslands og mótun framtíðarsýnar er helsta verkefni stjórnvalda, atvinnulífs og raunar samfélagsins alls árið 2018. Samkeppnishæfni eykst með umbótum í menntakerfi þannig að þörfum atvinnulífsins verði betur mætt, með því að búa nýsköpun umhverfi á heimsmælikvarða, með nauðsynlegri uppbyggingu innviða og með bættum starfsskilyrðum fyrirtækja. Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var undirstaða vaxtar á 20. öldinni. Hugvitsdrifinn iðnaður hefur stundum verið nefndur fjórða stoð hagkerfisins. Umbætur til þess að auka samkeppnishæfni landsins gagnast ekki aðeins atvinnulífinu heldur eru til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni enda verður Ísland þannig áfram í fremstu röð, hagkerfið mun standa á fleiri stoðum, stöðugleiki eykst sem og verðmætasköpun, lífskjör landsmanna batna enn frekar, atvinnutækifæri verða fjölbreyttari og Ísland verður eftirsóknarvert fyrir ungt fólk.
Atvinnulífið er mikilvægt tannhjól i viðamiklu gangverki samfélagsins. Íslenskur iðnaður er fjölbreyttur. Allt frá einyrkjum til fjölmennra fyrirtækja, fyrirtækja sem starfa á landsbyggðinni, höfuðborgarsvæðinu eða um víða veröld, fyrirtækja í matvælaframleiðslu, byggingariðnaði, hugbúnaðargerð, hátækni og arkitektúr svo eitthvað sé nefnt. Íslenskur iðnaður skiptir landsmenn alla miklu máli þar sem hann skapar grunn að lífskjörum í landinu. Einn af hverjum fimm starfa í iðnaði, iðnaður skapar ríflega þriðjung útflutningstekna og um 29% landsframleiðslu.
Árið 2017 var krefjandi ár á margan hátt fyrir fyrirtæki. Árið einkenndist af óstöðugleika á ýmsum sviðum eins og í stjórnmálum, í starfsskilyrðum, á vinnumarkaði, á íbúðamarkaði, í gengi krónu og svo mætti áfram telja. Allt hefur þetta áhrif á íslenskt atvinnulíf og minnir okkur á að samkeppnishæfni landsins verður að verja öllum stundum. Talsverðan tíma tók að mynda þá ríkisstjórn sem tók við stjórnartaumum í upphafi árs. Sú stjórn varð ekki langlíf og boða varð til kosninga. Óvissa um stjórn landsins hefur talsverð áhrif á hagkerfið. Ákvörðunum er þá gjarnan slegið á frest og minni verðmæti skapast fyrir vikið.
Losun fjármagnshafta á almenning og atvinnulíf var langþráð skref í átt að opnun hagkerfisins eftir að hindrunum hafði verið rutt úr vegi. Sú áætlun um losun fjármagnshafta sem kynnt var 8. júní 2015 hefur staðist, slitabúin voru gerð upp án eftirmála og krónan styrktist þvert á þær væntingar sem uppi voru nokkur ár á undan. Aðferðafræðin átti sér margra ára aðdraganda og hún gekk upp. Orð og efndir fóru saman.
Vörumerkið Ísland
Orðspor þjóða hefur mikil áhrif á efnahag þeirra. Gott orðspor eykur eftirspurn eftir landinu og því sem þaðan kemur. Dæmi um það eru þýskir bílar, svissnesk úr og frönsk vín. Þannig getur orðspor leitt til þess að vörur og þjónusta eru seldar með aukaálagningu. Slíkt skapar verðmæti sem styður við betri lífskjör í landinu.
Orðspor þjóða byggir á stöðu og einkennum sem leiða til upplifunar. Undir hið fyrrnefnda heyra m.a. lífsgæði og samkeppnishæfni. Má þar nefna frelsi, öryggi, aukna menntun, nýsköpun, betra rekstrarumhverfi fyrirtækja og trausta innviði. Undir hið síðarnefnda heyra menning og arfleifð þjóða, náttúra, matur og ferðaþjónusta. Allt þetta skapar umgjörð upplifunar þeirra sem njóta hvort sem það eru landsmenn sjálfir, ferðamenn sem sækja landið heim eða fólk um víða veröld í gegnum „sendiherra“ sem bera þjóðinni gott vitni. Slíkir sendiherrar eru dæmi um menningaráhrif landa. Á alþjóðlegum vettvangi er Björk einn frægasti slíki sendiherra Íslands. Ísland stendur vel í alþjóðlegum samanburði og er í 15. sæti yfir vörumerki landa. Ná má enn hærra á þeim lista ef unnið væri markvisst að því að bæta orðspor. Rækta þarf betur vörumerkið Ísland og búa til fleiri sendiherra sem bera þjóðinni gott vitni. Það verður gert með aukinni samkeppnishæfni, með því að draga fram sérkenni lands og þjóðar og með framleiðslu sem byggir á gæðum.
Við framleiðum gæði
Framleiðsla sem byggir á sérstöðu og gæðum getur svo sannarlega verið sendiherra sinnar þjóðar og stuðlað að góðu orðspori hennar, sérstaklega ef mörkun og markaðsfærsla er markviss og hagsmunir ólíkra atvinnugreina eru fléttaðir saman á skipulegan hátt. Með slíkum menningaráhrifum má auka áhrif Íslands á erlendum vettvangi.
Með stefnumörkun og réttu vali má hafa jákvæð áhrif og skapa ný verðmæti. Hið opinbera eyðir 45 krónum af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu. Það skiptir máli hvernig þeim fjármunum er varið og ef vel tekst til má skapa nýjar lausnir og aukin verðmæti. Gott dæmi um þetta má finna í Noregi. Þarlend yfirvöld vilja stuðla að orkuskiptum í samgöngum og höfðu því áhuga á því að knýja ferjur með rafmagni í stað olíu. Þar til gerður búnaður var ekki til þannig að stjórnvöld óskuðu eftir slíkum búnaði. Fyrirtæki þróuðu búnað þannig að ferjur gætu gengið fyrir rafmagni og markmiðum norskra stjórnvalda var náð. Það áhugaverða við þessa sögu er að upp úr þessu sýndu aðrar þjóðir því áhuga að rafvæða ferjur og nýta þann búnað sem norsk fyrirtæki höfðu þróað. Úr þessari stefnumörkun norskra stjórnvalda varð því til útflutningsiðnaður með tilheyrandi verðmætasköpun.
Í hönnun geta falist einstök tækifæri til þess að skapa aukið virði framleiðslu sem getur stutt við orðspor landsins og aukið menningaráhrif. Draga þarf fram sérstöðu íslenskrar hönnunar og framleiðslu til að byggja upp gott orðspor landsins. Það tekur tíma og því er mikilvægt að hefjast handa sem fyrst. Samtök iðnaðarins munu taka þátt í endurskoðun á íslenskri hönnunarstefnu en verkefnið hefur þegar verið sett af stað í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Hönnunarmiðstöð Íslands. Hið opinbera á að ganga á undan með góðu fordæmi og prýða opinberar byggingar með íslenskum húsgögnum og innréttingum, ekki síst þær byggingar sem ferðamenn og aðrir gestir leggja leið sína um. Nefna má Bessastaði í þessu sambandi. Ef mörkuð væri opinber stefna í innkaupum þar sem áherslan væri á íslenska hönnun og framleiðslu myndi það ýta enn frekar undir vöxt á þessum sviðum og byggja upp blómlegan iðnað, jafnt í hönnun sem og í framleiðslu.
Hugvit er drifkraftur vaxtar
Framtíðarvöxtur hagkerfisins byggist á hugviti meðan vöxtur hingað til hefur að miklu leyti grundvallast á hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvit er ótakmarkað og án landamæra. Þessi síðastnefnda staðreynd krefst þess að starfsumhverfi nýsköpunar hér á landi standist samkeppni við önnur lönd þannig að hugmyndum sé breytt í verðmæti hér á landi en ekki annars staðar í heiminum. Samtök iðnaðarins hafa sett það markmið að Ísland verði í fremstu röð í heiminum þegar kemur að nýsköpun.
Nýsköpun á sér stað í stórum fyrirtækjum og smáum, ungum fyrirtækjum jafnt og þeim sem starfað hafa um áratuga skeið, fyrirtækjum í nýjum greinum sem og fyrirtækjum sem starfa í rótgrónum iðnaði. Vísinda- og tækniráð gaf út stefnu og aðgerðaáætlun um mitt ár 2017. Vinnur ráðið að því markmiði að útgjöld til rannsókna og þróunar verði 3% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall nemur ríflega 2% nú. Um tveir þriðju af þessum útgjöldum koma frá atvinnulífinu og um þriðjungur frá hinu opinbera.
Mörg ríki hafa hvatt til rannsókna og þróunar til þess að skapa aukin verðmæti og fleiri störf. Þessir hvatar felast í endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Hér á landi er þak á slíkar endurgreiðslur. Með því eru stjórnvöld að senda þau skilaboð að nýsköpun eigi heima í smáum fyrirtækjum en um leið og vel gengur og fyrirtækin vaxa úr grasi eigi þau betur heima annars staðar. Það eru röng skilaboð. Stærri fyrirtæki sem byggja sína starfsemi á hugviti eru að sjálfsögðu eftirsótt þar sem þau treysta fjórðu stoðina í sessi. Vegna þessa þarf að afnema þak á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hér á landi. Ánægjulegt var að sjá slíka áherslu í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og verður slíkt vonandi lögfest á vorþingi 2018.
Nauðsynlegt samspil menntakerfis og atvinnulífs
Það mikilvæga verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar að marka skýra stefnu um það hvernig nemendur á Íslandi verða undirbúnir til að mæta kröfum framtíðarinnar á vinnumarkaðnum. Menntakerfið gegnir þeim mikilvæga tilgangi að undirbúa komandi kynslóðir undir störf framtíðarinnar. Aukið fjármagn í menntakerfið er ekki nauðsynleg forsenda fyrir breytingar. Miklu frekar þarf nýja hugsun og nýjar áherslur til að leysa vandann. Það velkist enginn í vafa um að menntakerfið er mikilvægt fyrir gangverk samfélagsins en það er langt frá því að vera eyland. Með öðrum orðum þarf menntakerfið að mæta þörfum atvinnulífsins til þess að tryggja verðmætasköpun. Það má engan tíma missa því ekki viljum við að íslenskir nemendur verði eftirbátar annarra ungmenna né viljum við draga úr samkeppnishæfni Íslands. Ný hugsun í menntamálum skilar sér margfalt til samfélagsins.
Það verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk þrátt fyrir miklar tækniframfarir og breytingar í samfélaginu. Maðurinn hefur unnið með málm og tré í þúsundir ára, gerir enn og mun áfram gera. Iðnnám hér á landi þarf að efla að sama skapi og virðingu fyrir iðnmenntun þarf að auka. Mun færri fara í iðn- og starfsnám hér á landi en í nágrannalöndunum. Viðhorf nýs menntamálaráðherra og vilyrði í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar lofa góðu. Það er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki og því mikilvægt að efnt verði til meira samstarfs við atvinnulífið til þess að bæta úr.
Með tækniframförum verður aukin þörf fyrir tækni- og raungreinamenntað starfsfólk. Í námi nemenda á öllum skólastigum þarf að leggja áherslu á vitneskju um tækniþróun, skapandi hugsun, greiningarhæfni og lausnamiðaða nálgun enda mun það skipta meira máli á tímum aukinnar sjálfvirkni en áður. Í því skyni mætti gjarnan endurvekja þáttinn Nýjasta tækni og vísindi en sá þáttur vakti áhuga almennings á tækni og vísindum, ekki síst þeirra sem yngri voru. Samtök iðnaðarins vilja gera forritun að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum sem lið í þessum breytingum.
Uppbygging innviða er nauðsynleg fjárfesting
Innviðir skapa hagvöxt, störf og lifandi samfélag. Með fjárfestingu í innviðum er fjárfest í lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðarinnar. Samtök iðnaðarins ásamt félagi ráðgjafaverkfræðinga gáfu út skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi og eru innviðir á ábyrgð hins opinbera teknir fyrir. Skýrslan, sem er sjálfstæð úttekt sérfræðinga, er fyrsta heildstæða úttekt á stöðu innviða sem gerð hefur verið á Íslandi. Endurstofnvirði innviða nemur um 3.500 milljörðum króna sem er af svipaðri stærðargráðu og allar eignir lífeyrissjóðanna. Uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur 372 milljörðum króna til þess að innviðir landsins geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Mest er þörfin í vegakerfinu, flutningskerfi raforku, fráveitum og fasteignum hins opinbera. Þessu til viðbótar koma nýjar framkvæmdir þannig að ljóst má vera að fjárfestingaþörfin hleypur á hundruðum milljarða þegar allt er talið. Viðhaldi innviða hefur verið verulega ábótavant á ýmsum sviðum. Nefna má flutningskerfi raforku í því sambandi og sem dæmi hamlar skortur á orku á Norðurlandi frekari atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun þar. Áherslur ríkisstjórnarinnar á uppbyggingu innviða vekja upp vonir um að gert verði átak á kjörtímabilinu í þeim efnum þó nauðsynlegt sé að setja meira fé í málaflokkinn heldur en gert verður árið 2018. Brýnt er að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun verði uppfærð í ljósi þess að auka þarf fjármagn í innviðaframkvæmdir á næstu árum. Nýlega voru sagðar fréttir af 1,2 milljarða viðbótarframlagi til vegaframkvæmda til þess að stemma stigu við alvarlegum slysum vegna stóraukins fjölda vegfarenda. Þetta er skýr sönnun þess að nú þegar verður að ráðast í stórátak í vegamálum til að bæta öryggi vegfarenda.
Ráðast verður nú þegar í viðhald innviða þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Nú er rétti tíminn til að huga að slíkum fjárfestingum. Á næstu árum mun draga úr hagvexti og þar með losnar um framleiðsluþætti sem nýta má til innviðauppbyggingar. Hafa ber í huga að það geta liðið nokkur ár frá því ákveðið er að ráðast í framkvæmdir þar til þeim lýkur. Ljúka þarf hönnunarferli og bjóða þarf verk út áður en framkvæmdir hefjast.
Í anda ígrundaðrar stefnumótunar ættu stjórnvöld að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu innviða, innviðastefnu, þannig að yfirsýn og skilvirkni náist á þessu sviði.
Stöðugleiki óskast
Stöðugleiki í augum hins opinbera er fyrst og fremst verðstöðugleiki sem mældur er með vísitölu neysluverð, eða verðbólgu eins og það er kallað í daglegu tali. Á þennan mælikvarða hefur stöðugleiki ríkt á Íslandi undanfarin ár. Á aðra mælikvarða hefur stöðugleiki ekki ríkt. Vinnumarkaður, gengi krónu, stjórnmál, starfsumhverfi og íbúðamarkaður hafa einkennst af óstöðugleika. Laun hafa hækkað um tugi prósenta á nokkrum árum, á einu ári var tvisvar kosið til Alþingis, á árinu hefur gengi krónu sveiflast talsvert, ójafnvægi á íbúðamarkaði og skortur á lóðum hefur leitt til mikilla verðhækkana og svo mætti áfram telja. Erfitt er að gera áætlanir í slíku umhverfi og slík óvissa kostar samfélagið talsvert í töpuðum tækifærum. Eigi stöðugleiki að ríkja þurfa peningastefna, vinnumarkaður og opinber fjármál að ganga í takt. Sú hefur ekki verið raunin undanfarin ár. Góð fyrirheit eru í stjórnarsáttmálanum um vinnumarkaðinn og vonandi kemst á langþráður friður þar. Ný ríkisstjórn mun hins vegar draga úr aðhaldi ríkisfjármála og er það miður. Nær væri að sýna aðhald meðan hagkerfið vex hratt og bæta í útgjöld þegar mögru árin koma. Þá er minnt á að aukin rekstrarútgjöld eru ekki ávísun á bætta þjónustu heldur getur þurft umbætur til. Með bættum rekstri og með forgangsröðun á að vera unnt að ráðast í arðbærar fjárfestingar og áframhaldandi niðurgreiðslu skulda.
Endurskoðun peningastefnu stendur yfir og má vænta tillagna á komandi ári. Það er öllum ljóst að endurskoðunar er þörf sem og að núverandi ríkisstjórnarflokkar eru sammála um það að íslensk króna sé framtíðargjaldmiðill landsins. Það einfaldar málið talsvert þar sem fyrri ríkisstjórn hafði þrjár ólíkar skoðanir um gjaldmiðilinn.
Í fremstu röð
Með nauðsynlegum umbótum eins og raktar eru hér að framan má bæta samkeppnishæfni Íslands, atvinnulífi og landsmönnum öllum til hagsbóta. Aukin verðmæti má skapa með því að bæta enn frekar gott orðspor Íslands og með framleiðslu sem einkennist af gæðum og góðri hönnun. Til þess að vinna að slíkum umbótum þarf áræðni, nýja hugsun og djarfa framtíðarsýn. Markmiðin eru þó skýr: að atvinnulíf sé blómlegt um land allt, að auka eftirspurn eftir Íslandi, íslenskri framleiðslu og þjónustu, að aukin verðmætasköpun standi undir bættum lífskjörum og að landið sé eftirsóknarverður staður til þess að búa á og starfa. Þannig verður Ísland áfram í fremstu röð.