Miklar og áhugaverðar breytingar eiga sér nú stað á fjármálamörkuðum um heim allan. Þróun í stafrænni tækni er hröð á öllum sviðum og þar er fjármálaþjónusta engin undantekning. Fjártæknifyrirtæki (e. fintech) eru orðin fyrirferðamikil á markaði með fjármálaþjónustu sem er að umbreyta samkeppnisumhverfinu. Þessi þróun ásamt innleiðingu nýrrar greiðslumiðlunartilskipunar Evrópusambandsins (PSD II) mun valda því straumhvörfum á fjármálamörkuðum á næstu árum og telja flestir sérfræðingar einsýnt að samkeppnisumhverfið eigi eftir að gerbreytast: fjártæknifyrirtæki og alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Amazon, Apple og fleiri eru í vaxandi mæli ásamt fjarskiptafyrirtækjum að gera sig gildandi þegar kemur að veitingu fjármálaþjónustu.
Fjármálafyrirtæki eru hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki
Íslensk fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir bæði áskorunum og tækifærum í þessum efnum. Þegar litið er yfir árið þá sjást þess glögg merki að þau eru í óða önn að búa sig undir breytingar enda hafa þau kynnt fjölmargar tæknilausnir sem standast samanburð við það fremsta sem þekkist beggja vegna Atlantsála. Þetta minnir okkur líka á að íslensk fjármálafyrirtæki eru mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun og þau veita fólki með fjölbreytta menntun spennandi starfsvettvang.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar feikilega miklar breytingar á regluverki fjármálamarkaða á vettvangi ESB. Þessar breytingar ásamt hinni öru þróun fjártækninnar í krafti stafrænu byltingarinnar gera að verkum að fjármálakerfi 21. aldarinnar mun eiga fátt sameiginlegt með kerfinu eins og það var fram til ársins 2008.
Ræðum innihald
Á vettvangi stjórnmálanna mætti oftar ræða um þessar miklu breytingar þegar þar á sér stað umræða um fjármálamarkaðinn. Á meðan það sem er helst rætt á því sviði eru hversu mikið ríkið eigi að eiga í fjármálafyrirtækjum eða hvernig megi sækja meira fjármagn til fjármálafyrirtækjanna inn í samneysluna, þá eru að eiga sér stað stórtækar breytingar á fjármálamörkuðum sem kalla miklu frekar á spurningar eins og hvernig við ætlum að gera íslenskum fjármálafyrirtækjum kleift að taka þátt í þeim og þeirri hörðu samkeppni sem þeim fylgir. Þá er einnig mikilvægt nú þegar við stöndum í þessum breytingum miðjum að kortleggja hvaða áhrif þessar breytingar, sem geta leitt af sér meiri sækni í fjármálaþjónustu þvert á landamæri, munu hafa á íslensk fjármálafyrirtæki og íslenskt efnahagslíf. Stafræna kynslóðin er komin inn á markaðinn og hún hugsar þessa hluti að mörgu leyti með nýjum hætti, enda alist upp með græjurnar í höndunum. Tíminn til þessa að kortleggja þessa stöðu er því núna.
Ríkisumsvifin á fjármálamarkaði meiri en árið 1997
Þetta er sérstaklega mikilvægt meðal annars í ljósi þess hve íslenska ríkið er umsvifamikið á fjármálamarkaði. Þannig er eignarhlutur ríkissjóðs í bankakerfi landsins er ríflega fimm sinnum hærri í dag en árið 1997 en þá átti ríkissjóður allt hlutafé Búnaðarbankans, Fjárfestingabanka atvinnulífsins og Landsbankans. Þannig var hlutur íslenska ríkisins í bókfærðu eigið fé viðskiptabankanna sem hlutfall af landsframleiðslu tæplega 19% í árslok 2016. Vart þarf að taka fram að álíka ríkisumsvif á fjármálamarkaði þekkjast ekki annar staðar á Vesturlöndum.
Sanngjörn samkeppnisskilyrði
Eitt helsta áherslumál SFF er að íslenskur fjármálamarkaður búi við sömu reglur og skilyrði og önnur fjármálafyrirtæki sem starfa á hinu sameiginlega evrópska markaði. Því miður er það ekki raunin. Ýmis íslensk sérákvæði eru fléttuð saman við evrópskar reglur þegar þær eru innleiddar hér á landi. Við þetta bætist að skattaumhverfi aðildarfélaga SFF er sérstaklega íþyngjandi og þekkist slíkt hvergi í Evrópu. Hér á landi eru þrír skattar lagðir sérstaklega á fjármálafyrirtæki: bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri hér á landi en almennt tíðkast hjá þeim Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt.
Þessi skattlagning hefur víðtæk áhrif. Hún eykur rekstrarkostnað fjármálafyrirtækja og veikir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum fyrirtækjum. Afleiðingarnar eru að lánveitingar og fjármálaþjónustan flyst til aðila sem ekki lúta eftirliti FME sem fjármálafyrirtæki. Með öðrum orðum ýtir skattlagningin undir skuggabankastarfsemi sem svo eykur fjármálalega kerfisáhættu.
Dýrkeyptur bankaskattur
Bankaskattarnir sérstöku valda ríkinu jafnframt kostnaði þegar allt kemur til alls. Eins og fram kom í greiningu Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings SFF, sem birtist í Hnotskurn, riti SFF, rýra sérstakir skattar á borð við bankaskattinn virði eignarhluta íslenska ríkisins í fjármálakerfinu um 150 milljarða að minnsta kosti.
Í umræðunni gleymist oft sú staðreynd að bankar og sparisjóðir eru í harðri samkeppni við aðra lánveitendur sem búa við mun hagfelldara skattaumhverfi. Þannig borga til að mynda lífeyrissjóðir ekki bankaskatt en þeir eru harðri samkeppni við aðildarfélög SFF við veitingu fasteignalána svo dæmi séu tekin. Erlend fjármálafyrirtæki greiða eðli málsins ekki heldur þessa skatta en þau hafa gert sig gildandi hér á landi í lánveitingum til stórra íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum. Allar líkur eru á því áframhald verði á þessari þróun nú þegar gjaldeyrishöftum hefur verð aflétt. Það verður eitt helsta baráttumál SFF á komandi ári að íslensk fjármálafyrirtæki fái að búa við sambærilegt samkeppnisumhverfi og aðrir á sama markaði.
Áskoranir við innleiðingu ESB-reglna
Ein stærsta áskorunin sem EES ríkin standa nú frammi fyrir er að tryggja samræmi í regluverki innri markaðar Evrópu. Þar standa EES ríkin frammi fyrir því að misræmi hefur skapast og mun halda áfram að skapast í því hvenær regluverk tekur gildi í Evrópu, hvenær það er innleitt í EES ríkjunum og ekki síst hvenær það er tekið upp í EES samninginn. Vegna innleiðingarhallans sem hefur skapast fara EES ríkin stundum þá leið að taka regluverk upp áðuren það er komið inn í EES samninginn. Þó það sé jákvætt er það engu að síður áskorun því þá er einungis verið að taka regluverkið inn í íslenskan rétt en staðan gagnvart evrópskum eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði er óljósari eða hreinlega ekki orðin virk. Þá má ekki gleyma því heldur að nú þegar fjármagnshöftum hefur verið lyft hér á landi þá geta komið upp tæknileg vandamál við þessar aðstæður þar sem það regluverk sem ekki er komið inn í EES samninginn gildir þá í raun ekki fyrir EES ríkin þrjú á innri markaðnum. Stjórnvöld allra þriggja EES ríkjanna gera sér grein fyrir þessu og eru því að leggja mikla áherslu á að vinnan gangi hratt og örugglega fyrir sig. Við hjá samtökunum höfum tekið upp náið samstarf við systursamtök okkar í Noregi og Liechtenstein þar sem við erum að vinna mat á því hversu víðtæk áhrif það getur haft á EES ríkin þegar gildistöku misræmið á sér stað. Framkvæmdastjórn ESB hefur jafnframt ákveðið að setja meiri kraft í þessa vinnu sín megin en fyrirsjáanlegt er að framhald verði á þessu misræmi einfaldlega vegna þess magns sem bíður innleiðingar. En um er að ræða um 355 gerðir, stórar og smáar sem unnið er að og þarf að taka upp í EES samninginn á næstu misserum. Áhyggjur okkar hjá SFF af þessu snúa ekki síst að þeim tilskipunum og gerðum sem heyra undir Evrópska eftirlitið með fjármálamörkuðum sem Ísland varð aðili að á seinni hluta síðasta árs. Mikilvægt er því fyrir markaðinn að hann sé upplýstur um stöðuna hverju sinni svo hann fái skýra mynd af því hvenær áætlanir geri ráð fyrir að einstaka innleiðingar hafi að fullu tekið gildi innan Íslands, Noregs og Liechtenstein.
Samtal við stjórnvöld og fólkið í landinu
Fjármálafyrirtæki hér á landi byggja á traustum grunni. Sama má segja um allt umhverfið líkt og Fjármálaeftirlitið sem hefur eflst verulega á undanförnum árum að ógleymdum Seðlabanka Íslands. Þá hefur regluverk verið styrk mjög og öll umgjörð ber það með sér að lærdómur er dreginn af hruninu og sá lærdómur nýttur til fulls svo ekki komi upp önnur eins staða og haustið 2008. Gremja út í fjármálakerfið hefur verið skiljanleg en við teljum þó mikilvægast nú. Að hefja umræðu um innihald fjármálaþjónustu hér á landi. Ræða breytingarnar sem gerðar hafa verið. Fara yfir hvar rifið hefur verið full fast í handbremsuna líkt og í regluverki utan um sveigjanleg starfskjör sem hefur leitt af sér of háan fastakostnað hjá minni fjármálafyrirtækjum og innan ákveðinna deilda hinna stærri. Þá verðum við að ræða það opinskátt hvort bankaskattarnir sérstöku séu skynsamlegir til lengri tíma eins og raunin er orðin og hvaða áhrif þeir munu þá hafa á arðgreiðslur til eigenda sinni (ríkisins að stærstum hluta núna), en einnig hvort réttlætanlegt sé að vera með skekkju í samkeppnisumhverfi sem þessa þar sem öflug og heilbrigð samkeppni byggir á því að allir sitji við sama borð, lúti sömu lögmálum og sama eftirliti. Við viljum eiga þetta samtal við alla sem hag hafa af heilbrigðu fjármálakerfi og þá telst okkur til að langflestir Íslendingar eigi erindi inn í þetta samtal ásamt stjórnvöldum og atvinnulífi.Til þess að svo megi verða munum við halda áfram að vinna okkar greiningar og gefa út álit. Og hvetjum við alla að kíkja á það efni sem finna má á vefsíðu okkar SFF.is, á Facebook síðu samtakanna og á Twitter. Segið okkur álit ykkar og hlökkum við til að eiga efnisríkar umræður um allt það sem undir er fjártæknin, EES misræmið, skattheimtan, samkeppnin, þjónustuna og einstaka þættir starfsemi fjármálamarkaða. Það er of mikið undir í þessum breytingum sem eru að eiga sér stað og nefndar hafa verið í þessari yfirferð til þess að halda áfram að takast á um liðna tíð, veruleikann sem var. Nú skulum við í sameiningu taka stöðuna eins og hún er og leitast við að svara spurningunum um hvert við viljum halda héðan og hvernig við tryggjum íslenska hagsmuni í þeim breytingabyl sem nú gengur yfir.
Við sem störfum á skrifstofu Samtaka fjármálafyrirtækja, stjórn þeirra og aðildarfyrirtæki óskum landsmönnum öllum ljóss og friðar yfir hátíðirnar og farsældar í lífi og starfi á nýju ári. Hlökkum til samstarfs og samtals á árinu 2018 – það er í okkar höndum allra að gera það að farsælu ári þegar við lítum til baka að nýju eftir 365 daga.