Tungumálið er okkar mikilvægasta tæki til boðskipta. Það tengir okkur saman og eflir samkennd milli manna. Tungumálið er án efa einn mikilvægasti þátturinn í að varðveita menningu þjóða og þjóðarbrota. Íslenskan “okkar” tengir saman fortíð, nútíð og jafnvel mótar framtíðina. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að íslenskri tungu og tryggja að allir sem hér dvelja hafa jafnan aðgang að íslenskunni, óháð uppruna.
Haustið 2016 í miðri kosningabaráttu til Alþingis var ég beðin um að hlaupa í skarðið á pallborðsfundi með Samtökum ferðaþjónustunnar. Ég fékk um það bil klukkutíma til að undirbúa mig. Þegar ég kom í hús voru Katrín Jakobsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgitta Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Þorsteinn Víglundsson þegar komin. Fólk sem ég hafði fram að þessu bara séð í sjónvarpinu. Ég viðurkenni að þessi staða var stressandi fyrir mig en ég var vel nestuð og brjóstkassinn fullur af hugrekki. Ég óð því í verkið, lifði fundinn af og var reynslunni ríkari. Tveimur dögum seinna var ég að kíkja á Facebook og fann þar myndband frá fundinum, sem vinur minn, sem einnig er af erlendum uppruna hafði sett inn, undir yfirskriftinni „Go Nichole“.
Það var í sjálfu sér mjög skemmtilegt en það sem sló mig var að íslensk eiginkona hans stóð fyrir aftan hann og hló að mér og sagði á ensku að allt sem ég segði væri rangt og það væri pínlegt. Þar átti hún ekki við innihaldið, heldur íslenskuna sjálfa. Hagsmunaaðilar sem sátu í salnum og náði innihaldinu í því sem ég sagði á fundinum, bauluðu reyndar á mig fyrir mínar skoðanir um að ekki væri lengur ástæða til að halda úti skattaívilnunum til greinarinnar því ríkissjóður þyrfti tekjur til að ráðast í öfluga innviðauppbyggingu og mæta kröfum um vel menntað starfsfólk í ferðaþjónustuna. Reyndar benti Fjármálaráð á það sama í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið sem nýlega var samþykkt á Alþingi og ég stend við þá skoðun mína, óháð því hvað hagsmunaaðilum finnst og þrátt fyrir að ég komi ekki öllu frá mér á lýtalausri íslensku. Enn þá.
Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa litlu sögu er að ég vil hvetja fólk til þess að skoða söguna í samhengi. Samhengi sem er ólitað af pólitík, heldur frekar samfélagsþróun, stöðu innflytjenda og framtíð íslenskrar tungu. Við ættum ekki að hlæja að vel menntuðum innflytjendum sem þora að koma fram opinberlega með þjóðþekktum Íslendingum og tala á þeirra tungumáli um mikilvæg og flókin málefni. Alla vega ekki þegar þeir setja skoðanir sínar fram óbrenglaðar og rökstuddar, jafnvel þó íslenskan sé ekki fullkomin. Og innflytjendur sem glíma við íslenskunám munu líklega ekki flýta sér að ræða málin upphátt og opinberlega þegar þeirra nánustu gera lítið úr íslenskukunnáttu þeirra og hæðast að vinum þeirra fyrir bjagaða framsetningu á þessu fallega máli.
Við sem flytjum hingað erum gjarnan spurð hvaðan við komum og hversu lengi við höfum dvalið hér. Viðbrögðin eru ýmist matskennt samþykki eða við skömmuð. Ýmist er okkur sagt að við tölum fína íslensku og það væri gott ef fleiri væru jafn duglegir að læra málið eða að fólk skilji ekki hvernig fólk geti búið hér á landi án þess að læra íslensku. Ég hef orðið vitni að því að innflytjendum, sem búið hafa á Íslandi í átta ár eða lengur var neitað um túlkaþjónustu.
Það sem slær mig út af laginu aftur og aftur eru spurningarnar um það hversu vel innflytjendur eiga að geta talað íslensku, hve mörg tækifæri þeir hafa til þess lærdóms og hvert aðgengið að þjálfun í notkun tungumálsins er. Samkennd með innflytjendum ætti ekki að felast í því að tala við okkur á ensku. Sum okkar tala ekki einu sinni ensku. Gefið okkur frekar svigrúm, leyfið okkur að tala hægar og gera mistök. Við munum læra á endanum. Leiðréttið okkur þegar þess þarf því þannig varðveitum við íslenska tungu og það er líka liður í því að valdefla okkur sem manneskjur. Ég hef margoft þurft að biðja fólk að tala við mig á íslensku, jafnvel eftir að ég var komin á Alþingi. Það er engin þörf á að kynna og tala við 4. varaforseta þingsins á ensku.
En aftur að tækifærum sem innflytjendum bjóðast, eða bjóðast ekki, í samfélaginu til að efla íslenskukunnáttu sína. Hversu margir vinnustaðir ætli bjóði innflytjendum upp á íslenskukennslu sem nýtist þeim í vinnunni og samfélaginu öllu? Hversu margir vinnustaðir ætli gefi starfsmönnum sínum tækifæri til að mæta á íslenskunámskeið án þess að skerða laun þeirra. Eða greiði námskeiðsgjaldið sem nemur 43.900 kr. á önn.
Þegar ég var leikskólastjóri lagði ég mikla áherslu á að brúa bilið milli íslenskunnar og móðurmáls nemendanna, heimilanna og skólans og á milli innflytjendanna og samfélagsins sem ég þjónaði. Í lýðræðissamfélagi þurfa allir að njóta tækifæra til virkar þátttöku. Tungumálið er brú sem við veljum oftast að nota til að auka virkni fólks. Fólk skortir almennt ekki vilja til að læra íslensku. Hindranirnar eru dýr námskeið á óraunhæfum tíma þar sem fólk fær almennt ekki leyfi frá störfum til að sinna náminu. Á kvöldin þarf að sinna börnunum og heimilinu. Nú ætla ég ekki að ætla innfæddum það að vilja ekki að innflytjendur læri tungumálið af ótta við að „betri“ störf séu frá þeim tekin en staðreyndin er að hér á landi er mýgrútur af vel menntuðu fólki sem hefur ekki tækifæri til að nýta menntun sína á vinnumarkaði þar sem íslenskukunnátta stendur því fyrir þrifum. Og þar stendur alla jafna ekki upp á innflytjendurna. Þeim eru hins vegar ekki gefin mörg tækifæri.
Hver innflytjandi sem nær tökum á tungumálinu og nær að fóta sig í íslensku samfélagi er sigur fyrir landið og íslenska tungu. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar eru 13% mannfjöldans af erlendum uppruna. Það telur um 40.000 manns. Það er býsna stórt hlutfall í litlu landi. Sigur Íslendinga mun felast í því að deila tungu sinni og menningu með okkur sem hingað flytjum til að leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Sjálf verð ég eilíflega þakklát fyrir að geta sagst vera íslenskur ríkisborgari sem talar íslensku því Ísland er land alvöru tækifæra. Þar getur fyrsta kynslóð innflytjenda menntað sig, unnið sig upp í fagstétt og jafnvel ratað alla leið inn á Alþingi Íslendinga innan 16 ára.