Áhugavert var að rekast á fyrirsögn á vefsíðu Iceland Magazine þess efnis að „0,0% fólks undir 25 ára trúir því að Guð skapaði heiminn.“
Með öðrum orðum enginn!
Fyrirsögnin er að vísu ekki alveg ný heldur er um að ræða tveggja ára gamla umfjöllun um könnun sem gerð var að beiðni Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, á lífsskoðunum og trú Íslendinga.
Þótt ekki sé um splunkunýja könnun er þetta áhugavert og þess virði að rýna svolítið í.
Í þriðju spurningu könnunarinnar var spurt: „Hvernig heldur þú að heimurinn hafi orðið til?“
Svarmöguleikarnir sem boðið var upp á voru eftirtaldir:
- Heimurinn varð til í Miklahvelli!
- Guð skapaði heiminn!
- Veit ekki - Hef ekki skoðun!
- Annað!
Fram kemur að 62% svarenda telur heiminn hafa orðið til í Miklahvelli. Einungis 18% telur að Guð hafi skapað heiminn.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt svörum við annarri spurningu könnunarinnar, þar sem spurt er um trúarafstöðu, játa rétt um 70% svarenda kristna trú.
Án þess að draga sérstakar ályktanir út frá þessum tölum er áhugavert að velta upp þeirri spurningu hvort líta þurfi á kenninguna um Miklahvell og trúna á Guð sem skapara heimsins sem andstæður.
Með öðrum orðum hvort annað svarið útiloki hitt?
Kenningin um Miklihvell er sú viðtekna vísindakenning að alheimurinn hafi ekki alltaf verið til, eins og guðleysingjar héldu löngum fram, heldur hafi orðið til á tilgreindu augnabliki í fortíðinni.
Með öðrum orðum er hugtakið Miklihvellur notað um þann atburð sem markaði upphaf alls tíma, rúms, efnis og orku.
Og öll vísindaleg rök hníga að því að alheimurinn eigi sér upphaf.
Árið 2003 tókst stærfræðingnum Arvind Borde og eðlisfræðingunum Alan Guth og Alexander Vilenkin að sanna að sérhver alheimur sem hefur verið að þenjast út getur ekki átt sér eilífa fortíð heldur hljóti að vera takmarkaður í tíma og rúmi (þ.e. eiga sér upphaf).
Vissulega hafa komið fram kenningar í gegnum tíðina sem ganga út frá því að alheimurinn sé eilífur. En þær hafa ekki staðist tímans tönn og vísindalega rýni og athuganir.
Í því samhengi eru nýleg ummæli Vilenkins á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 70 ára afmælis Stephen Hawkings lýsandi.
Á ráðstefnunni flutti Vilenkin erindi sjá þar sem hann reifaði þau heimsfræðilíkön sem lögð hafa verið fram í gegnum tíðina og færði rök fyrir því að „allt bendi til þess að alheimurinn eigi sér upphaf“.
Þetta er umhugsunarvert.
Að mati Vilenkin vega rökin fyrir upphafi alheimsins ekki þyngra en rökin með eilífum alheimi. Nei, öll rökin, að hans mati, benda til þess að alheimurinn eigi sér upphaf.
Hið sama kemur fram í afar áhugaverðri og nýlegri grein á vefsíðu Forbes eftir eðlis- og stjörnufræðinginn Ethan Siegel.
Í greininni sem heitir „Miklihvellur staðfestur enn á ný, nú af fyrstu atómum alheimsins“ fjallar Siegel um mælingar á magni léttra frumefna á upphafsmínútum alheimsins.
Samkvæmt kenningunni um Miklahvell mun tiltekið og nákvæmt magn þessara frumefna hafa orðið til á fyrstu mínútunum eftir Miklahvell.
Og nú hafa nýlegar athugnanir og mælingingar á þessum frumefnum staðfest að magnið er einmitt það sem kenningin um Miklahvell segir fyrir um.
Niðurlagsorð Siegel eru eftirtektaverð:
„Það sem kenningin segir að greina megi þremur til fjórum mínútum eftir Miklahvell, og það sem athuganir nú mörgum milljörðum árum síðar sýna, fellur svo ótrúlega vel saman að það verður aðeins skilið sem mögnuð staðfesting á þessari sigursælustu kenningu um alheiminn sem fram hefur komið. Miklihvellur útskýrir svo mikinn fjölda fyrirbæra, allt frá smæstu efniseindum alheimsins til víðfemustu stærða hans, að engin önnur tilgáta kemst þar nærri. Ef þú vilt skipta kenningunni um Miklahvell út verður þú að útskýra gríðarlegan fjölda ólíkra athugana, allt frá bakgrunnsgeislun alheimsins og útþennslu til fyrstu atóma hans. Aðeins Miklahvellskenningin gerir grein fyrir öllu þrennu, og nú með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.“
En í ljósi þess að alheimurinn á sér upphaf, að hann er ekki eilífur heldur varð til, hljótum við að að spyrja þeirrar spurningar sem óhjákvæmilegt er að að spyrja:
Hvers vegna?!
Hvers vegna varð alheimurinn til? Hvað orsakaði tilurð hans?
Ekki varð hann til úr engu án nokkurrar ástæðu?!
Nei, alheimurinn hlýtur að eiga sér orsök, rétt eins og allt annað sem verður til og á sér upphaf.
Hin klassíska heimspekilega röksemdarfærsla er jafn gild í dag og áður - en er þeim mun eftirtektarverðari og áhrifaríkari í ljósi nútímavísinda:
- Allt sem verður til á sér orsök.
- Alheimurinn varð til.
- Alheimurinn á sér orsök.
Og eðli málsins samkvæmt getur sú orsök ekki verið hluti af alheiminum sjálfum.
Hún hlýtur að vera handan tíma, rúms, efnis og orku og alls hins náttúrulega veruleika sem við erum hluti af - enda ástæða þess að sá veruleiki varð til.
Hún er því í réttum skilningi yfirnáttúruleg, eilíf, rýmislaus, óefnisleg, óbreytanleg og svo ótrúlega máttug að hún gat skapað alheiminn úr bókstaflega engu.
Og færa má rök fyrir því að þessi orsök sé persónuleg og búi yfir vilja þar sem hún ákvað á tilgreindu augnabliki að skapa alheiminn.
Hvað sem slík orsök er kölluð er síður en svo óviðeigandi að kalla hana Guð.
Raunar er það býsna skynsamlegt.
Ummæli breska eðlisfræðingsins Arthur Eddingtons eru athyglisverð í þessu samhengi.
Að hans mati felur „upphaf alheimsins ... í sér slíka erfiðleika að þeir eru óyfirstíganlegir nema við séum tilbúin að líta á það sem hreinlega yfirnáttúrulegt.“
Og undir það hafa margir vísindamenn tekið.
Margir vísindamenn trúa á tilvist Guðs, þ.e. skapara, einmitt vegna þess sem vísindi hafa leitt í ljós, m.a. um upphaf og eðli alheimsins.
Raunin er því sú að í stað þess að grafa undan biblíulegri sköpunartrú skýtur kenningin um Miklahvell mjög svo sterkum vísindalegum stoðum undir þá skynsamlegu sannfæringu kristins fólks frá upphafi að „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð [þ.e. alheiminn]“ (1Mós 1.1).
Þegar spurt er um tilurð heimsins og boðið annars vegar upp á Guð sem orsök og Miklahvell hins vegar þá útilokar annað svarið því síður en svo hitt.
En hvers vegna gera þá sumir jafn skarpan greinarmun á guðlegri sköpun og Miklahvelli, eins og áðurnefnd könnun ber vitni um?
Ef til vill er það vegna sköpunarfrásögu Biblíunnar. Miklihvellur kemur þar hvergi beint við sögu svo sem von er.
Sköpunarfrásaga Biblíunnar er margslungin frásaga sem of sjaldan er lesin á eigin forsendum og í viðeigandi samhengi.
Þegar það er gert kemur í ljós að þar er ekki um tilraun að ræða til að útskýra tilurð alheimsins í vísindalegum skilningi í nútímamerkingu þess orðs.
Markmið sköpunarfrásögunnar er umfram allt að bera fram með hætti þess tíma sem hún var rituð á þá játningu að Guð er skaparinn, og að miðla þeirri sannfæringu að ástæða þess að alheimurinn er til er sú að Guð ákvað að skapa hann.
Hér er því alls ekki um andstæður að ræða, hvað þá mótsögn.
En þegar litið er svo á að Miklihvellur grafi undan kristinni sköpunartrú þá liggur vafalítið að baki því hið alltof algenga og misskilda viðhorf að trú og vísindi séu andstæður, og að vísindi eða vísindaleg þekking útiloki með einhverjum hætti guðstrú og hafi jafnvel afsannað tilvist Guðs.
Að valið standi á milli vísinda og trúarinnar á Guð.
En að stilla fólki upp við vegg og biðja það að velja á milli vísinda (Miklahvells) og Guðs (sköpunar) er líkast því að sýna manni Ford T bíl og biðja hann að velja á milli tveggja mögulegra útskýringa á tilurð bílsins.
Önnur útskýringin eru náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, vélfræðinnar, aflfræðinnar o.s.frv.
Hin útskýringin er Henry Ford sjálfur, maðurinn sem hugsaði upp og hannaði Ford T bílinn.
Það sjá allir að slíkir afarkostir eru fráleitir því hér er um tvær jafngildar útskýringar að ræða enda þótt ólíkar séu.
Báðar eru nauðsynlegar og réttar.
Við þurfum augljóslega hvort tveggja í senn vísindalega útskýringu á bílnum með tilliti til eðlisfræðilegra lögmála og persónulega útskýringu með tilliti til orsakavalds.
Þetta má sjá í margvíslegu samhengi.
Við getum tekið annað dæmi og spurt einfaldrar spurninga á borð við Hvers vegna sýður vatnið?
Þessari spurningu mætti svara í löngu og ítarlegu máli með því að gefa vísindalega útskýringu á suðu vatnsins.
Í því samhengi mætti gera grein fyrir varmaleiðingu frá einum hlut til annars og hvernig varmaorka flyst frá hellunni yfir í pottinn með vatninu, og hvernig aukin hiti vatnsins eykur hreyfiorku vatnssameindanna sem gerir það að verkum að hluti vatnsins fer úr vökvaham yfir í gasham.
Svar á þessum nótum væri fyllilega rétt og viðeigandi.
En að segja: Vatnið sýður vegna þess að mér langaði í te, er einnig fyllilega rétt og jafngilt svar.
Önnur útskýringin er vísindaleg í eðli sínu, hin er persónuleg og vísar til orsakavalds.
Og hér er alls ekki um andstæðar útskýringar að ræða sem útiloka hvor aðra.
Þvert á móti gefur hin persónulega útskýring fyllri og dýpri skýringu á því sem á sér stað og hrinti af stað þeirri atburðarás sem leiddi til suðu vatnsins.
Það sama á við um alheiminn og spurninguna um tilurð hans.
Vísindin rannsaka heiminn. Þau skoða úr hverju hann er gerður, hvers eðlis hann er og hvernig hann virkar.
Þegar vísað er til Guðs annars vegar og vísinda hins vegar til að útskýra alheiminn er einfaldlega um að ræða útskýringar af ólíkum toga – sem þó er gjarnan ruglað saman.
Þegar alheimurinn er útskýrður með því að vísa til Guðs sem orsakavalds er um að ræða útskýringu af öðrum toga en hina vísindalegu útskýringu. Þær eru hins vegar ekki, eins við höfum seð, í mótsögn eða rekast hvor á aðra.
Henry Ford keppir ekki við lögmál eðlisfræðinnar sem útskýring á Ford T bíl frekar en Guð keppir við vísindi þegar kemur að því að útskýra alheiminn.
Það væri enn fremur fráleitt að halda því fram að í ljósi þess að við getum útskýrt með vísindalegum hætti hvernig Ford T bíll virkar að draga megi þá ályktun að Henry Ford hafi aldrei verið til.
Í raun er það svo að eftir því sem við skiljum alheiminn betur verður auðveldara að dásama hugvitssemi Guðs sem á bak við hann er.
Það sem gerir kristna guðstrú svo trúverðuga er einmitt hversu trúverðuga mynd hún dregur upp af lífinu og tilverunni og upplifun okkar af henni.
Í því samhengi komst C.S. Lewis afar vel að orði: „Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp. Ekki vegna þess að ég sé hana, heldur af því að hennar vegna sé ég allt annað.“