Talið er að í ríkjum þar sem sami stjórnmálaflokkurinn hefur verið við völd langtímum saman og því tilnefnt flesta eða alla dómara landsins hafi dómstólarnir tilhneigingu til að vera hallir undir valdhafana. Singapúr hefur verið nefnt sem dæmi um slíkar aðstæður.
Meðal einkenna lýðræðisríkja eru skýr skil milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Þessum skilum er ætlað að koma í veg fyrir að mikið vald safnist á fáar hendur og tryggja jafnframt að valdþættirnir tempri hvern annan. Minnt er á hið alkunna að vald spillir og mikið vald gjörspillir.
Valdhafar sem hallast að ófrjálslyndu stjórnarfari grípa iðulega til þess að hafa afskipti af dómstólum í landi sínu með ýmsum hætti. Þeir breyta t.d. lögum um dómstólana og svipta þá sjálfstæði sínu eða þeir losa sig við dómara, sem þeir telja óþarflega sjálfstæða og framsækna. Dómara sem líta á dómstólana sem síðasta vígi borgaranna og sem brjóstvörn stjórnarskrárinnar. Nýjustu dæmin um slíka afskipti valdhafanna af dómstólunum eru frá Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu. Í þessum löndum hafa valdhafarnir grafið undan réttarríkinu og lýðræðinu, ekki síst með því að gera skilin milli valdþáttanna þriggja sem óskýrust.
Hér á landi hafa risið deilur um skipun dómara Í hinn nýja Landsrétt, einkum vegna þess að dómsmálaráðherra undi ekki niðurstöðum lögskipaðrar nefndar um hverjir 15 umsækjenda um dómarastöðurnar væru hæfastir. Gerði ráðherrann nokkrar breytingar, sem Alþingi samþykkti. Meðferð ráðherra á málinu var borin undir Hæstarétt, sem komst að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð ráðherra hefði verið andstæð ákvæðum stjórnsýslulaga. Síðan sagði í dómi réttarins, að þá leiði af sjálfu sér að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þarna varð því alger samruni framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Alþingi brást skyldum sínum með alvarlegum hætti. Það gætti ekki að eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdavaldinu. Alþingi tempraði ekki vald framkvæmdavaldsins heldur studdi ólögmætar ákvarðanir þess þrátt fyrir að Alþingi hafi verið varað við. Alþingi var því ekki í góðri trú um lögmæti þess sem það samþykkti.
Óhjákvæmilegt er að landsmenn velti því fyrir sér hvort þeir sem fara með framkvæmdavald og löggjafarvald í landinu hyggist hverfa frá lýðræðislegum stjórnarháttum og virða réttarríkishugmyndina að vettugi. Ætla þeir sem með völdin fara að taka Pólland, Ungverjaland og Rúmeníu sér til fyrirmyndar?
Hvað er til varnar? Hvernig getur fólkið, sem valdhafarnir sækja vald sitt til, beitt fullveldi sínu og varið lýðræðið í landinu? Hvernig er unnt að koma í veg fyrir að skriðþungi andfrjálslyndra stjórnarhátta aukist?
Svarið er aðeins eitt. Ný stjórnarskrá lýðveldisins samin og samþykkt af fólkinu þar sem m.a. þrískipting valdþáttanna er skýr, þar sem fólkið getur þvingað fram þjóðaratkvæði og átt frumvæði að ákvörðunum á Alþingi. Nýja stjórnarskráin frá 2011 er til þess fallin að vernda lýðræðið í landinu og jafnvel efla það. Gallinn er sá að stjórnmálaflokkarnir líta svo á að þeir séu eigendur stjórnarskrárinnar og þeir eigi sjálfir að ákveða hvaða vald fólkið felur þeim og hvaða takmörkunum það vald þeirra sætir. Verkefnið er því það að ná valdinu til að setja landinu stjórnarskrá úr höndum stjórnmálaflokkanna á Alþingi og koma því í réttar hendur, í hendur hinnar fullvalda þjóðar.