llt frá hruni íslenska bankakerfisins hefur eitt aðalverkefni íslensks þjóðfélags verið að koma því aftur á lappirnar. Fyrir hrun voru bankarnir orðnir að íturvöxnum skrímslum og það hlutu að fylgja því miklar hamfarir þegar þeir fóru á hausinn haustið 2008.
Erfitt er að hugsa sér nútíma samfélag á einshverskonar banka eða fjármálastofnana, peningar eru jú hluti af daglegu lífi fólks, sumir eiga viðbjóðslega mikið af peningum og vita ekkert hvað þeir eiga að gera við þá, aðrir (og þeir eru fjölmargir) eiga mjög lítið af peningum og þurfa að gera miklu meira fyrir þá heldur en þeir geta. Nú, svo notar fólk líka peninga til að kaupa vörur og þjónustu, það er peningar eru greiðslumiðill.
Eftir hrun komust tveir af stóru bönkunum í eigu íslenska ríksins og eru það enn. En það hefur alveg síðan þetta gerðist verið ljóst að einn daginn myndi sú spurning vakna hvað ríkið ætti að gera með þessa tvo banka, Landsbankann og Íslandsbanka.
Hverjir eiga aða eiga banka er spurning sem hlýtur að vakna þegar þessi staða kemur upp, þ.e. að ríkisvaldið (fólkið í landinu) „lendi“ allt í einu í því að eignast bankana og sitji jafnvel uppi með þá.
Dreifing auðs og skipting er ein af stóru spurningunum í hverju samfélagi og nú er staðan í heiminum þannig að „hið ríka 1%“ á um það bil helming allra verðmæta veraldar. Í Rússlandi eiga t.d. um 100 einstaklingar 35% alls auðs í landinu. Flestir af þessum 100 eru miðaldra karlmenn. Gapið á milli þeirra sem eiga og eiga ekki hefur sjaldan verið jafn breitt og nú.
Að almannavæða í íslensku bankakerfi myndi til dæmis passa vel við hugmyndafræði VG, en eins og flestir vita kennir flokkurinn sig við vinstrimennsku og eitt aðalstef hennar er aukinn jöfnuður í samfélaginu. Að almannavæða að minnsta kosti hluta bankakerfisins væri einnig einskonar móteitur gegn þeirri einkavæðingarstefnu sem rekin hefur verið hér á landi frá því um 1985-1990. Reyndist hún okkur vel? Eða voru það ekki einka og græðgisvæddir bankar sem settu íslenskt samfélag nánast á hausinn árið 2008, fyrir tíu árum síðan? Reyndar er talið að sú einkavæðing sem fram fór hérlendis á árunum 2002-3 hafi verið skipulögð svikamylla (sjá Kjarninn, 14.febrúar 2018).
Kapítalismi er ekki vondur, en óheftur, óbeislaður og eftirlitslaus kapítalismi getur verið stórhættulegur fyrir samfélagið. Rússland og atburðir þar á árunum 1990-2000 er ágætt dæmi um það. Sama má segja um óhefta og algera ríkiseign, hún er heldur ekki góð. En það er kannski heppilegt að hafa blöndu af þessu tvennu. Með almannavæðingu væri hægt að auka enn frekar (og halda í) jöfnuð á Íslandi og þar með stuðla að hagsæld alls almennings. Það myndi ef til vil líka auka traust á fjármálakerfinu, sem ekki er vanþörf á.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði.