Sunnudagskvöldið 3. apríl 2016 er eftirminnilegt kvöld í hugum margra en þá fór í loftið Kastljósþáttur og viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra. Í þættinum voru Panamaskjölin opinberuð og í ljós kom að valdamikið fólk víða um heim átti eignir í skattaskjólum í gegnum lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Í skjölunum kom fram að Sigmundur Davíð ásamt konu sinni hefðu átt félagið Wintris sem skráð var til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Á mánudeginum eftir útsendinguna voru ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar á Austurvelli. Lítill tími var til að skipuleggja mótmælin en með aðstoð samfélagsmiðla, fréttaflutnings og veðurguðanna mættu um 26 þúsund manns á Austurvöll fyrir framan Alþingishúsið.
Facebook spilaði stórt hlutverk í að skipuleggja mótmælin en Jæja-hópurinn bjó til viðburðinn að kvöldi 3. apríl og um 10.500 manns merktu við að þau ætluðu að mæta. Eftir það sá svo hópurinn um að búa til viðburði næstu daga, því hefur Facebook reynst mikilvægt tól til skipulagningar á mótmælum, líkt og svo víða um heim. Samkvæmt rannsókn Jóns Gunnars Bernburg mættu ekki færri en 26 þúsund manns til mótmælanna á mánudeginum og um 15 þúsund manns til mótmælanna 9. apríl.
Um hvað snérist umræðan á Twitter?
Umræðan á samfélagsmiðlum hófst sama kvöld og Kastljós þátturinn var sýndur og í kjölfarið var hashtagið #cashljós skapað. Þeir sem vildu taka þátt í umræðunni um Panamaskjölin og mótmælin gátu merkt tístið sitt eða færslu sína með merkinu. Á aðeins viku tímabili frá 3.-9. apríl voru 11.530 tíst merkt með #cashljós en á árstímabili (3. apríl 2016 - 6. apríl 2017) hafði hashtagið verið notað 12.655 sinnum. Þrátt fyrir áframhaldandi mótmæli við Austurvöll og fjölmenn mótmæli á laugardeginum 8. apríl dróg úr umræðunni á Twitter, enda mesti fréttastormurinn yfirgenginn. Umræðan náði mestum hæðum 5. apríl en þann dag var bein útsending meira og minna yfir allan daginn úr myndveri Ríkisútvarpsins, frá Alþingishúsinu og Bessastöðum.
Orðræðugreining á tístunum gefur til kynna að umræðan á Twitter hafi að mestu leyti snúist um spillingu og siðferði stjórnmálamanna. Einnig lét fólk í ljós stolt yfir mótmælunum og hvatti aðra til að mæta, m.a. með því að birta myndefni af mótmælunum. Margir höfðu einnig áhyggjur af orðspori Íslands á alþjóðavísu, en Sigmundur Davíð skipaði sér á lista meðal einstaklinga sem þekktir eru á heimsvísu fyrir spillingu. Þó um alvarlegt málefni væri að ræða voru Laddar þessa lands ekki feimnir við að slá á létta strengi og var mikið um orðagrín og myndgrín (meme). Þessar niðurstöður rýma við niðurstöður Jóns Gunnars um þær ástæður mótmælendur gáfu fyrir þátttöku sinni í mótmælunum. Líkt og þar voru nöfn Sigmundar og Bjarna oft nefnd, en nafn Sigmundar kom fyrir 1680 sinnum og nafn Bjarna 644 sinnum í gagnasafninu. Þó að minningar um Búsáhaldabyltinguna hafi líklegast fyllt mótmælendur af innblástri var ekki oft vísað í hana á Twitter, þó hún hafi vissulega borið á góma. Blaða- og fréttamenn fengu einnig hrós fyrir umfjöllunina og var stjórnarandstöðunni hrósað fyrir frammistöðu sína, m.a. á meðan útsendingu frá þingfundi stóð. Einnig var krafan að kosið yrði sem fyrst en hún var tjáð með því að bæta hashtögunum #kosningarstrax, #kosningar eða #xstrax við færslurnar. Þau voru merkt í 219 færslum.
Í upphafi var umræðan frekar markviss og mátti greina viðbrögð fólks við fréttum í rauntíma. Þegar dró á vikuna hafði umræðan að einhverju leyti misst marks, þ.e. fólk var ekki lengur að tjá reiði sína yfir spillingu, siðferði stjórnmálamanna, forréttindum þeirra ríku eða að hafa áhyggjur yfir orðspori Íslands heldur frekar að deila fréttum, myndum og myndskeiðum, m.a. af mótmælunum. Þó tístin hafi verið merkt merkingarlaus í þessari greiningu þýðir þó ekki að engin merking sé á bakvið þau. Einstaklingar hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að merkja tístið með hashtaginu og taka þar af leiðandi þátt í umræðunni á einhvern hátt.
Útbreiðsla
Víða bar á að erlendar fréttasíður notuðu hashtagið í umfjöllun sinni og var tíst á hinum ýmsu tungumálum, en meginþorri tístanna var þó á íslensku. Margir íslendingar tístu einnig á ensku, m.a. þingkona Pírata Ásta Helgadóttir. Tístin hennar Ástu náðu nokkuð mikilli útbreiðslu en hennar vinsælasta tíst fékk 446 endurtíst og 249 like. Vinsælasta tístið fékk 737 like og 893 endur tístu (e. retweet) því, sem verður að teljast mikil útbreiðsla á íslenskan mælikvarða. Að meðaltali fengu tístin 5,3 like og 1,4 endurtíst m.v. tölur 6. apríl 2017. Tæplega 7 þúsund notendur voru virkir í umræðunni en misjafnt var hversu oft hver og einn tísti.
Over 22.000 protesters confirmed in the square. Nearby streets full. That's 10% of all voters! #Iceland #panamapapers #cashljós
— Hjortur Smarason (@hjortur) April 4, 2016
Erfitt er þó að segja til um útbreiðslu en sérstök forrit þarf til að mæla hana svona langt aftur í tímann. Af þeim tölum sem liggja fyrir er þó hægt að álykta að útbreiðslan hafi verið nokkur í ljósi þess að fréttastofur, innlendar sem erlendar notuðu tístið. Edward Snowden notaði m.a. hashtagið. Snowden er þekktur fyrir þátt sinn í WikiLeaks og er með yfir 3,5 milljón fylgjendur á Twitter.
In light of the same PM's next-day resignation, add this to the "list of things never to say in Iceland." #cashljós https://t.co/DvfbE6NHwh
— Edward Snowden (@Snowden) April 5, 2016
Vísun í dægurmenningu
Áhugavert verður að teljast að notendur vísuðu mikið í vinsæla þætti sem snúast einmitt um stjórnmál og spillingu. Vísað var yfir 60 sinnum í House of Cards þættina, en fjórða serían af þáttaröðinni kom inn á Netflix mánuði áður. Einnig var vísað í þætti á borð við Scandal, Wallander, Borgen, South Park, Arrested Developement og fleiri.
House of Cards er algjör tittlingaskítur miðað við beinu útsendingarnar af atburðum dagsins á Íslandi #cashljós #blesssimmi
— Hemúllinn (@arnarsnaeberg) April 5, 2016
Eins og raun ber vitni eru Internet byltingar sem þessar orðnar algengar. Lítið má út af bregða og á augabragði er komið hashtag fyrir atburðinn. Það er þó ekki gefið að notkun hashtags á samfélagsmiðlum beri árangur í raunheimum og er í raun erfitt að mæla árangur þeirra markvisst. Rannsóknir sýna að ákveðnar aðstæður þurfa að vera til staðar í samfélaginu svo að byltingarnar beri árangur, ef tilgangurinn er að breyta einhverju þ.e.a.s. Notkun sem þessi og aðrar í Internetbyltingar í samfélaginu, t.d. #metoo, #freethenipple, #égerekkitabú geta haft mikil áhrif ef þeir sem taka þátt í henni hafa sameiginlegt stórt markmið og vilja til að fylgja því eftir. Samfélagsmiðlar eru því fyrst og fremst verkfæri í höndum einstaklinganna til að tjá sig og skipuleggja fjöldahreyfingar sem þessar.