Frá því að ég var barn hef ég heyrt vangaveltur fólks um hvers vegna verðlag sé eins hátt á Íslandi og raun ber vitni. Sem dæmi má nefna eldsneytisverð sem hefur síðastliðna áratugi verið fremur hátt hér á landi samanborið við nágrannalönd okkar. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á eldsneytisverð hér á landi en þar spila gengissveiflur og flutningskostnaður stór hlutverk.
Árið 2012 sagði Hermann Guðmundsson, þáverandi forstjóri N1, að olíuverð á Íslandi gæti verið lægra en það sem þá var. Hindrunina sagði hann vera háa skuldsetningu annara olíufélaga en N1. Hann taldi að verðstríð myndi enda í gjaldþroti eins eða tveggja aðila og eftir stæðu þá í mesta lagi tveir aðilar á markaðinum sem væri ekki ákjósanlegt. Nokkrum árum síðar velti ég því fyrir mér hvernig fyrirtæki eins og Costco, sem kom inn á eldsneytismarkaðinn árið 2017, hefur getað boðið töluvert lægra verð en aðrir? Costco rekur eina dælustöð og því er það ekki stærðarhagkvæmni sem gerir þeim kleift að keyra niður verð.
Ef samkeppni á Íslandi væri eðlileg, hefði þá ekki eitthvert olíufyrirtækjanna sem fyrir voru á markaðinum átt að lækka verð löngu fyrir komu Costco? Samkeppniseftirlitið var stofnað með nýjum Samkeppnislögum nr. 44/2005 og tók þá við hlutverkum Samkeppnisstofnunar og Samkeppnisráðs. Markmið Samkeppnislaganna er í grófum dráttum að efla virka samkeppni og vinna að hagkvæmari nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélagsins. Þá er hlutverk Samkeppniseftirlitsins að sjá til þess að þessum lögum sé framfylgt. Við skulum skoða nokkur mál sem Samkeppniseftirlitið/Samkeppnisstofnun hafa tekið fyrir á síðastliðnum 15 árum.
Á árunum 1993 til 2001 stunduðu þrjú olíufélög samráð á íslenska eldsneytismarkaðinum með markaðsskiptingu, verðsamráði og samræmingu í gerð tilboða. Olíufélögin, sem saman höfðu ráðandi stöðu á markaði með fljótandi eldsneyti, sýndu af sér einstakan brotavilja gegn íslenskum neytendum. Samkeppnisráð áætlaði árið 2004 að þetta verðsamráð hafi skilað olíufélögunum 6,5 milljarða ávinningi á verðlagi þess árs. Árið 2001 sektaði samkeppniseftirlitið þrjú fyrirtæki á grænmetis- og ávaxtamarkaði fyrir verðsamráð og markaðsskiptingu. Verðsamráðið var þess eðlis að fyrirtækin sömdu um að hafa áhrif á og jafnvel stýra verði hjá hvort öðru. Fyrirtækin studdust við svokölluð „rauð strik“ sem verð máttu ekki fara niður fyrir. Með þessu gátu þau komið í veg fyrir eðlilega verðsamkeppni á kostnað íslenskra neytenda. Árið 2008 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu hafi gerst brotleg við samkeppnislög í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti á matvörum. Samtökin ákváðu í sameiningu hvernig standa ætti að verðbreytingum í tengslum við fyrrnefndar breytingar á virðisaukaskatti. Bæði samtökin gengust við því að hafa brotið samkeppnislög og samþykktu greiðslu á stjórnvaldssekt fyrir brotin. Árið 2009 úrskurðaði þá Samkeppniseftirlitið að Bændasamtök Íslands hafi brotið samkeppnislög. Niðurstaða eftirlitsins var að Bændasamtökin höfðu beitt aðgerðum sem miðuðu að því hækka verð á búvörum. Samkeppniseftirlitið lagði 10 milljón kr. stjórnvaldssekt á samtökin fyrir brotin. Svo fleiri dæmi séu tekin má nefna að Byko og gamla Húsasmiðjan voru árið 2015 fundin sek um að brjóta samkeppnislög með verðsamráði. Átta einstaklingar sem áttu hlut að því máli voru sakfelldir í Hæstarétti árið 2016 fyrir verðsamráð og samkeppnislagabrot. Fyrirtækjunum var einnig gert að greiða stjórnvaldssekt fyrir brotin.
Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir þau samkeppnisbrot sem komist hafa upp um á síðastliðnum árum. Samkeppniseftirlitið hefur bæði úrskurðað í og tekið til skoðunar fleiri mál sem snúa að brotum á samkeppnislögum. Brot sem þessi hafa einungis einn tilgang, að koma í veg fyrir eðlilega verðmyndun á markaði. Þau verða þess valdandi að verð sem neytendur greiða er hærra en gerist við eðlilega samkeppni. Eins og áður hefur komið fram geta þessi brot skilað þátttakendum gífurlegum hagnaði á tiltölulega stuttum tíma. Viðbrögð Samkeppniseftirlitsins voru í flestum áðurnefndum tilvikum sektir á lögaðila máls þó fordæmi sé nú fyrir ákærum á hendur einstaklinga. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort að slíkum sektum sé ekki hreinlega velt út í verðlag til neytenda á fákeppnismarkaði. Með öðrum orðum að neytendur greiði sektina fyrir að á þeim sé brotið. Það virðist einnig sem þessi brot séu fremur algeng á Íslandi. Hvers vegna, er spurning sem vert er að skoða betur.
Áðurnefnd innkoma Costco á íslenskan markað hefur ekki einungis haft áhrif á eldsneytisverð, heldur hefur fyrirtækið boðið verð á matvöru sem ekki hafa sést hér á landi. Þessi verð eru oftast boðin í krafti magnpakkninga eins og viðskiptavinir verslunarinnar vita. Fólk kaupir meira magn en borgar minna á hverja einingu. Það breytir því ekki að kjör neytenda á matvörumarkaði hafa batnað til muna með tilkomu Costco. Tilkoma bandaríska risans hér á land er ekki einsdæmi um áhrif erlendra stórverslana á íslenskt verðlag. Einnig má nefna tilkomu Bauhaus og áhrif þess á verðlag byggingarvara. Getur verið að þessi erlendu fyrirtæki setji sér skýrari reglur þegar kemur að samkeppnissjónarmiðum og séu ólíklegri til að nýta sér fákeppnisaðstæður hér á landi?
Þrátt fyrir sektir og ákærur virðast stórir aðilar á Íslandi ítrekað brjóta gegn neytendum með brotum á samkeppnislögum. Hvað er það sem orsakar að stjórnendur þessara fyrirtækja sem oft á tíðum eru hámenntað fólk leyfir brotum á samkeppnislögum að viðgangast? Ég hef sjálfur gengið í gegnum grunnskóla-, menntaskóla- og háskólanám á Íslandi. Í gegnum þetta nám hef ég aldrei kynnst áfanga sem snýr að siðferði í viðskiptum. Það hefur þó í mörgum áföngum verið tekið fram að ákveðnir hlutir séu ekki í samræmi við lög en slíkt er í algjöru aukahlutverki. Oftast er það hugtakið um hámörkun hagnaðar sem ræður ríkjum og er aðaláherslumál kennslunnar.
Á litlum mörkuðum virðist freistingin til að misnota markaðsaðstæður töluvert algengari en á þeim stærri. Þetta stafar mögulega af því að það er mun auðveldara að fremja slík brot þegar samkeppnin er lítil. Almennt er ég ekki hlynntur þeirri hugmynd að þyngri refsingar skili sér í færri afbrotum. Ég tel að það megi frekar koma í veg fyrir afbrot með forvörnum t.a.m. betri kennslu í menntakerfinu. Hvaða úrræðum getum við beitt til að breyta til hins betra? Ég tel að hlutverk viðskiptasiðferðis í menntakerfinu þurfi að vera mikið stærra en það er í raun. Sem dæmi þá kennum við krökkum að vera góð við hvort annað og útskýrum fyrir unglingum að það sé óhollt að neyta tóbaks. Við þurfum að leggja meiri áherslu á að fræða fólk um hversu mikilvægt það er fyrir lítið samfélag eins og okkar að viðhalda siðferði í viðskiptum. Kjör íslenskra neytenda myndu batna umtalsvert ef við tryggjum að allir spili eftir sömu reglunum.
Höfundur er viðskiptafræðingur og mastersnemi í fjármálum.